Vernd barna og ungmenna

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:40:58 (4540)


[17:40]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það er öllum ljóst að hér er um mjög vandasaman málaflokk að ræða sem er vernd barna og unglinga og vissulega þörf á því að reyna að skipa meðferð mála þannig að sem bestan árangur gefi. Í þessu frv. er lagt til að stofnuð verði barnaverndarstofa á vegum félmrn. sem annist málaflokkinn að miklu leyti fyrir hönd ráðuneytisins og jafnframt verði þessi stofnun til ráðuneytis fyrir barnaverndarnefndir, sem vissulega vinna mjög erfitt starf oft og veitir ekki af að geta leitað góðra ráða.
    Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og einnig vil ég geta þess að það gerði annar nefndarmaður, Jón Kristjánsson, sem er með fjarvistarleyfi í dag og getur því ekki gert grein fyrir sínum fyrirvara. En það sem við höfðum í huga var það að okkur er ekki að fullu ljóst hversu umfangsmikil stofnun þetta verður og vildum leggja áherslu á að það yrði að sjálfsögðu að horfa á þá hliðina líka, þó að mest um vert sé auðvitað að árangurinn verði sem bestur af starfseminni.
    Hins vegar er síðan gert ráð fyrir því og það er annað atriði sem við erum með fyrirvara við, þ.e. að það verði breyting á rekstri meðferðarstofnana fyrir börn og ungmenni og gert ráð fyrir því að reisa þar nýja byggingu í stað þeirra sem fyrir eru. Okkur er heldur ekki að fullu ljóst hversu mikið það horfir til bóta, sú ráðstöfun, og að sjálfsögðu getur enginn fullyrt um það fyrr en á reynir. En eins og ég sagði er ástandið í þessum málum þannig að það þarf mikið að gera og því miður allt of mörg börn og ungmenni sem þurfa að leita aðstoðar eða afskipta bæði barnaverndarnefnda og síðan meðferðar á stofnunum.
    Mér er mjög í huga staðreynd sem einn af starfsmönnum ríkisins, sem fjallar um málefni þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni, þegar hann sagði að því miður væri ástand svo hjá of mörgum foreldrum að hann gæti sagt með vissu að þegar þau eignuðust barn þá mundi það innan 20 ára vera búið að gista meðferðarheimili eða jafnvel fangelsi ef því entist líf svo lengi. Því miður er aðbúnaður of margra barna sem fæðast hér á landi þannig að hann taldi af þeirri reynslu sem hann hefði öðlast í starfi sínu að hann gæti sett fram þessa staðreynd.
    Eins og við vitum þá er umræða nú mikil, m.a. hér á Alþingi, um mannréttindamál og því hefur vaknað í huga mínum sú spurning hver séu mannréttindi þessara ungu barna þar sem þjóðfélagið hefur skapað þær aðstæður sem leiða til þessarar staðreyndar. Mér finnst að stjórnvöld séu allt of sinnulaus um þessa nöturlegu staðreynd og um það hversu gífurlega mikið vandamál hér er á ferðinni og allan þann mannlega harmleik sem þetta ástand hefur í för með sér. Þess vegna held ég að það verði ekki um of brýnt fyrir þeim sem ábyrgð bera í þjóðfélaginu að reyna að breyta þessu ástandi, skapa þær breytingar á viðhorfi sem knýja á um að leggja meiri skyldur á alla forráðamenn, bæði stjórnvöld og að sjálfsögðu heimili og foreldra, að reyna að snúa þessari óheillaþróun við. Á meðan það tekst ekki, og að sjálfsögðu verður þessu aldrei breytt að fullu þó að ég voni að augu nægilega margra opnist fyrir því að þessu þurfi að breyta og menn verði að sýna í verki þá ábyrgð að leggja sig alla fram um það, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa tilbúið skjól til að taka við þeim sem við þessar aðstæður búa. Ég vil einu sinni enn undirstrika að það eru að sjálfsögðu ekki ungbörnin og unglingarnir sem ráða því umhverfi sem þau fæðast og alast upp í. Það er þjóðfélagsins og þeirra sem þar bera ábyrgð hver á sínu sviði.
    Það kom fram í meðferð málsins í félmn. þar sem þessu frv. var breytt eins og frsm. hefur gert grein fyrir að þau ungmenni eða unglingar sem þarf að taka með valdi og koma fyrir á stofnunum séu svo illa farin að það sé ekki verjandi að koma þeim fyrir annars staðar en á sjúkrahúsum. Það var samkomulag í nefndinni að breyta frv. á þann hátt. Að sjálfsögðu ætti það þá að draga úr rekstrarkostnaði þessa heimilis þar sem ekki þarf að hafa eins öfluga gjörgæslu allan sólarhringinn og hefði þurft að hafa til taks

fyrir þá sem eru svo illa farnir.
    Það var spurning í mínum huga og reyndar fleiri hversu mikið ynnist við það að loka einni byggingu og reisa aðra, ekki svo fjarri, til að annast móttöku þessara ólánssömu ungmenna, og ég vil undirstrika enn, sem þjóðfélagið hefur skapað þessi örlög. Ef þetta má til þess verða að bjarga einhverjum sem í þessa ógæfu hafa ratað þá má segja að réttlætanlegt sé að leggja nokkuð á sig, bæði með fyrirhöfn og fjármagni. Það er að sjálfsögðu von okkar sem stöndum að þessu nefndaráliti að árangurinn verði sá. En ég vil undirstrika það samt að við megum ekki, þó við reynum að koma upp svona hjálpar- og meðferðarstofnunum, gleyma því að mestu máli skiptir að draga úr þeirri sáru þörf að taka á móti þeim fjölda sem á þessari meðferð þurfa að halda og við megum ekki láta það svæfa samvisku okkar þó við leggjum þetta fram og viljum hjálpa gagnvart því að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þessi þörf verði til.