Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 17:57:54 (4610)


[17:57]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera að umkvörtunarefni fundarhöld í þingnefnd núna í dag. Þannig stóð á að boðaður var fundur í allsherjarnefnd í dag án samráðs við mig a.m.k., ég skal ekkert fullyrða um aðra. Ég lét strax vita af að ég gerði athugasemd við það að fundur yrði haldinn því að hér stóð til að rædd yrðu mál félmrh. og ég er á mælendaskrá í einu máli og var reyndar kvaddur í þingsalinn til að stíga í ræðustól en af einhverjum ástæðum dróst að umræðum yrði haldið áfram. Þrátt fyrir athugasemdir mínar við þetta var haldinn fundur í allshn. sem mér er tjáð að hafi verið að ljúka núna rétt í þessu fyrir nokkrum mínútum.
    Ég vil, virðulegi forseti, skírskota til 20. gr. þingskapa sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum.``
    Nú liggur það fyrir að ég samþykkti ekki og mér er því mjög misboðið að nefndarformaður skuli ekki fara að þingsköpum í þessu efni og fer fram á það við forseta að hann taki málið upp. Ég fer einnig fram á það að forseti kveði upp úr með það hvaða gildi fundur hefur sem haldinn er í trássi við lög.
    Ég hef ásamt öðrum þingmönnum í nefndum reynt að greiða fyrir þingstörfum og fallist á aukafundi eftir því sem unnt hefur verið að koma þeim fyrir og stundum á þingfundartíma ef það hefur verið hægt en mér er mjög misboðið þegar fundur er haldinn á þeim tíma sem fyrirséð var að ég yrði bundinn í þingsalnum án þess að ráðgast um það mál við mig og halda svo fundinn engu að síður þó að ég andmæli.
    Virðulegi forseti. Ég vil gera mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og tel að við þetta verði ekki unað og ég mun fylgja þessu máli frekar eftir, virðulegi forseti.