Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:21:22 (4623)


[18:21]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað að koma hér fram sú skerðing sem ákveðin var í fjárlögum þegar verið var að breyta lögunum um flugmálaáætlun og taka ákveðið fjármagn þar inn í ríkissjóð án þess að það færi allt saman til til framkvæmda í flugmálum. Þegar slík breyting er gerð er alltaf tilhneiging til þess að gera enn þá meira, taka meira og meira af þeim í rekstur en ekki að nota þá til þeirra fjárfestinga sem upphafleg lög gerðu ráð fyrir.
    Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að fjárlögin voru samþykkt með mótatkvæðum þeirra sem þá voru á móti þessari breytingu og sú breyting sem þá var gerð var mjög umdeild og ég hygg að hún hafi verið það líka ekkert síður í þingflokki Sjálfstfl. og kannski fáum við að sjá eitthvað meira af því hér á eftir, hvort menn eru sammála um þessar breytingar. En í framhaldi af þessum breytingum er auðvitað komið fram frv. sem tekur á því hvaða flugvellir það eru sem verða fyrir skerðingum á framkvæmdum í framhaldi af því að hluti af þessum mörkuðu tekjustofnum fer þá til rekstrar.
    Ég vildi aðeins koma þessu hér á framfæri og ætla ekkert að lengja þessa umræðu frekar, ég hef tækifæri til þess að fara yfir þetta í hv. samgn. En ég vil leggja áherslu á það að tekið verði á því sem hér er verið að gera, hvort ekki er hægt að halda samt sem áður þeirri áætlun sem gerð hafði verið um þessi flugmál og halda því til haga að á þessum flugvöllum verði framkvæmt þó að það verði þá að gerast hægar. Ég sé ekki fram á að það sé hægt að taka eitthvað einhliða út, t.d. eins og ég nefndi í andsvari áðan, Sauðárkrók, þar sem mér sýnist að verði þá alveg hætt við það sem þar átti að gera.
    Það hefur einnig verið gagnrýnt áður í umræðum einmitt um Sauðárkróksflugvöll að fólkinu sem þarf að nota þann völl er ekki þjónað á þann hátt sem æskilegt væri og hugsanlega verður þessi skerðing á framkvæmdum til þess í því að það muni þá enn þá versna þjónustan við fólkið sem þessi flugvöllur á að þjóna. Ég er ekki komin til með að segja að ég muni geta samþykkt það að þessi skerðing komi svona einhliða hér sem mér sýnist. Mesta skerðingin virðist koma á Sauðárkróksflugvöll og ég hygg að það muni verða fleiri sem hafi eitthvað við það að athuga.
    En þessu vildi ég aðeins koma hér á framfæri. Ég tel það óviðunandi þegar verið er að taka markaða tekjustofna sem eiga að fara til framkvæmda, taka úr þeim til rekstrar, því tilhneigingin er þá alltaf til þess að taka meira og meira yfir í reksturinn og minna verður þá um framkvæmdafé.