Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:09:04 (4678)


[00:09]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það sem rekur mig í ræðustólinn er það að þetta mál er búið að vera öðru hvoru á dagskrá allt þetta kjörtímabil og hæstv. umhvrh. sem var á undan þeim sem nú situr hafði uppi mikil loforð um það að þetta mál kæmi miklu fyrr til framkvæmda heldur en raun ber vitni. Ég ætla ekki að setja neitt sérstaklega út á þetta frv. eins og það liggur fyrir, að öðru leyti en því að það er allt of seint fram komið og ég verð að viðurkenna það að ég lít þannig á að umhvrn. hafi ekki staðið í stykkinu vegna þess að umhvrn. á að vera samviska sveitarfélaganna í þessum málum og það á að reka á eftir því að framkvæmdir fari í gang. En allt þetta kjörtímabil hafa sveitarfélögin í raun verið að bíða eftir því að það væri tekið á því hvernig ætti að fjármagna þessar stóru framkvæmdir og kjörtímabilið er liðið þegar menn koma hér með lausn málsins.
    Ég ætla ekki í einstökum atriðum að fara ofan í þessa niðurstöðu. Hún er sjálfsagt þolanleg á ýmsan máta. Það hefur auðvitað alltaf legið fyrir að fram að þessu hafa sveitarfélögin orðið að fjármagna sínar framkvæmdir og þurft að borga virðisaukaskatt af því. En þegar hinar miklu yfirlýsingar voru gefnar fyrr á kjörtímabilinu um það hvað stæði til að gera í þessum fráveitumálum. Það lágu fyrir skuldbindingar áður en við gerðum EES-samninginn, verulega miklar, um það hvað þyrfti að gera. Síðan kom EES-samningurinn og þar komu skuldbindingar til viðbótar og í kringum þá umræðu var enn lofað að þessu máli yrði hraðað. Það er sem sagt að koma núna til umræðu þegar þinginu er að ljúka og nánast útilokað að málið verði afgreitt á þessu þingi, einfaldlega tímans vegna þá mun það ekki gerast, og sveitarfélögin sem umhvrn. átti að ýta áfram til að gera framkvæmdir hafa ekki fengið þetta aðhald sem umhvrn. átti að veita. Og það hefur verið verra en það. Meira að segja framkvæmdir sem menn áttu að vera löngu búnir með, að koma skolpi út fyrir stórstraumsfjöru á viðkvæmum stöðum, hafa ekki verið framkvæmdar. Það hefur allt legið í láginni og það hefur í rauninni ekki verið neinn þrýstingur frá ráðuneytinu til að gera hluti.
    Það er þetta sem ég kem hér í ræðustólinn til að gagnrýna, hæstv. forseti, að með því að menn tóku ekki myndarlegar á þessum málum heldur en þetta, þá hafa tapast hér framkvæmdaár í því að koma fráveitumálum í betra stand. Ég get bent á alveg hrikaleg dæmi um megun við sjávarstrendur landsins sem, ef þau mál væru tekin upp af einhverri hörku, mundu þýða það að það yrði loka fiskvinnslufyrirtækjum í stórum stíl, einfaldlega vegna þess að það stenst ekki hollustuhætti með neinu móti að framleiða matvöru í þeim aðstæðum sem boðið er upp á vegna fráveitumálanna. En það hefur ekki verið tekið á þessum málum með neinum þrýstingi frá ráðuneytinu og það er gagnrýnisvert.
    Það kann vel að vera að sveitarfélög muni fara af stað í framkvæmdir í trausti þess að þetta lagafrv. verði að veruleika síðar. Það má vel vera. En það hefði verið miklu betra og miklu öruggara að lagasetningin hefði verið fyrr á ferðinni. Ég veit ekki hverjum er þarna um að kenna. Alla vega hefur málið tekið miklu lengri tíma en menn reiknuðu með því að yfirlýsingarnar um þessi mál eru jafngamlar og ríkisstjórnin. Það er búið að ræða þessi mál hvað eftir annað. Ég hef ekki dagsetningar á umræðum, en ég man vel eftir umræðum sem við tókum þátt í í þinginu með hæstv. fyrrv. umhvrh. um fyrirætlanirnar um það að standa að þessum hlutum. Og síðan það sem ég minnti á hér áðan, þegar var verið að ræða um EES-samninginn þá komu þessi mál upp aftur og voru hér rædd. Þannig að þetta hefur því miður ekki gengið fyrir sig eins og skyldi, en vonandi þá verður hér breyting á. En þetta er alla vega ekki líklegt til þess að verða að neinum almennilegum veruleika og ég vil spyrja hæstv. umhvrh. í framhaldi af því sem ég er nú að segja:

Treystir hann sér til að tryggja það að sveitarfélögin, með þetta frv. lagt hér fram og óafgreitt, fari að vinna samkvæmt því sem hér liggur fyrir? Ég skil hæstv. ráðherra þannig að frv. sé samið í mjög góðu samstarfi við sveitarfélögin og þau séu sátt við allt sem í því stendur. Og getur hann þá fullvissað okkur um það hér á Alþingi að sveitarfélögin muni vinna eftir þessu frv. í trausti þess að peningar fáist eins og fyrir er gert ráð í frv. sjálfu? Þetta er þá vonandi þannig að frv. hafi nánast lagagildi með þessum hætti gagnvart sveitarfélögunum.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða nánar um þessi mál því að við þyrftum mjög langan tíma til þess og ég geri ráð fyrir því að allir vilji flýta málum sem eru hér á ferðinni. Þetta er mál sem hvort eð er mun tæplega ná afgreiðslu. Ég á ekki von á því, en ég verð þá leiðréttur ef ég hef rangt fyrir mér, en mér finnst einhvern veginn ekki líklegt að það takist að afgreiða mál sem er til 1. umr. þegar þrír sólarhringar eru eftir til þingloka.