Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:22:13 (4698)

[01:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er annað mál af þremur sem eiga samleið og hugsanlega hefði verið heppilegra eftir á að hyggja að þau hefðu verið flutt í nokkurs konar bandormi því að í ljós hefur komið að beðið var um tvöfaldan ræðutíma í stað þess að ræða þau kannski öll í sömu umræðunni sem hefði greinilega flýtt fyrir.
    Ég ætla ekki að fjalla um það hvernig gengið hefur að koma þessu máli á dagskrá en minni á að þessi mál voru á dagskrá snemma í desember sl. og þá var rætt um að reyna að koma þeim til nefndar fyrir jól. Þau hafa verið tvívegis áður á dagskrá funda eftir áramótin í febrúar, þessum mánuði, en ekki fengist rædd af ástæðum sem óþarfi er að nefna. Þess vegna vil ég láta það koma fram að það er brýnt að málin fái efnislega umfjöllun í nefnd þannig að nefndin geti áttað sig á því rækilega með viðtölum við aðila utan þingsins af hverju brýn nauðsyn er að taka á efnisatriðum frv.
    Ég vil taka það afar skýrt fram að gefnu tilefni að í þessum frv., sem fjalla um það að hverfa frá einkainnflutningi á áfengi hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, er ekki verið að breyta grundvallaratriðum í stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi áfengi. Það má reikna með því að áfengisverð verði um það bil það sama eftir breytinguna sem fyrir. Smásalan verður í höndum nákvæmlega sömu aðila og áður en breytingin felst í því að innflutningsaðilar verða fleiri en ÁTVR.
    Í dag er þannig staðið að framkvæmd þessara mála að hægt er að panta inn áfengi samkvæmt ýmsum sérlistum, en Íslendingar hafa skuldbindið sig í samskiptum, viðskiptasamningum, við aðrar þjóðir að gera ekki mun á innflytjendum og framleiðendum og virða jafnræðisregluna. Það er nánast útilokað að ÁTVR geti sinnt þessu hlutverki og þess vegna þarf að opna innflutninginn fyrir fleiri aðilum. Það þýðir að leggja verður gjald á áfengi strax við innflutning eða strax eftir framleiðslu eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umræðu. Breytingin er í því fólgin að í stað þess að um sé að ræða álagningu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verður um að ræða gjald á áfengi sem kemur í staðinn en verður tekið við innflutning eða strax og framleiðsla er seld frá íslenskum framleiðanda. Breytingin er nauðsynleg því að við áætlum að sjálfsögðu að ÁTVR stundi áfram smásöluna. Það er ekki gert ráð fyrir öðru í þessum frumvörpum og þá yrði eðlileg álagning ÁTVR að standa undir rekstri þess fyrirtækis.
    Þess ber að geta, virðulegur forseti, að þetta mál hefur kannski meiri áhrif nú en séð var fyrir þegar það var lagt fram samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinar í haust af tveimur ástæðum. Önnur ástæðan, sem ég mun víkja að síðar, er sú að þær þjóðir sem voru með Íslendingum í Evrópska efnahagssvæðinu hafa allar ákveðið að breyta innflutningsstefnu sinni hvað þetta varðar, þ.e. að hverfa frá einokun. Síðast í þessum mánuði lýsti norska ríkisstjórnin því yfir að hún mundi gera slíkt. Þetta nefni ég hér vegna þess að fyrr í umræðum um það mál sem var á dagskrá á undan þessu var því haldið fram að norska ríkisstjórnin hefði ekki tekið þessa ákvörðun. Að þessu máli mun ég víkja örstutt síðar.
    Hitt málið, sem er nýtt af nálinni, er að verði þetta frv. ekki að lögum, en hugmyndin í upphafi var að lagafrumvörpin tækju gildi sem lög 1. jan. sl., þá kann það að leiða til þess að íslensk fyrirtæki sem framleiða bjór til að mynda standi, a.m.k. að áliti þeirra, verr að vígi en þau sem stunda innflutning vegna þess að ákveðið hefur verið og óumflýjanlegt er að hætta verndartollum á innfluttum bjór 1. júlí nk. Reyndar var það svo þegar ákveðið var að leyfa bjórsölu og bjórneyslu hér á landi að verndartollurinn var ákveðinn í þrjú ár en hefur nú staðið í helmingi lengri tíma. Hann er nú 35% ef ég man rétt, en var í upphafi 72%. Þetta rekur á eftir því að málið fái efnislega afgreiðslu á yfirstandandi þingi og ég rifja það upp að hinn 8. des. sl. var einmitt rætt um það að þessi mál kæmust til nefndar fyrir jól. Jólin eru liðin hafi menn ekki tekið eftir því.
    Þegar Íslendingar tóku þátt í því að mynda Evrópska efnahagssvæðið ásamt flestum öðrum EFTA- þjóðum á sínum tíma gerðu þeir ásamt þremur öðrum Norðurlandaþjóðum yfirlýsingu sem fylgdi samningnum um það að áfengiseinkasala þessara landa væri hluti af heilbrigðis- og félagsmálastefnu ríkjanna. Þetta var ekki beinn fyrirvari við samningin heldur yfirlýsing af hálfu þessara þjóða og hafði þess vegna ekki réttaráhrif á samningsaðila. Fljótlega kom í ljós að Eftirlitsstofnun EFTA taldi útilokað að fylgja eftir Evrópska efnahagssamningnum ef ekki yrði breyting á hjá þessum þjóðum. Svíar viðurkenndu þetta fyrstir og breyttu sínum lögum snemma á sl. ári. Finnar voru dæmdir eða úrskurður gekk hjá dómstólnum í desember og nú í þessum mánuði hafa Norðmenn lýst því yfir að þeir muni gera breytingar hjá sér.
    Þetta nefni ég hér því að það hefur þá bæst við fyrri röksemdir að það er greinilegt að sú framkvæmd sem hér tíðkast brýtur í bága við alþjóðasamninga sem Íslendingar hafa skrifað undir. Ég vil þó láta það koma sérstaklega fram af þessu tilefni að frv. var í upphafi ekki flutt af þeirri ástæðu heldur af hinni að við töldum að hér væri um skynsamlega breytingu að ræða og sem væri hagkvæmari fyrir íslenska ríkið sem í dag þarf að sitja uppi með á sinn kostnað allt birgðahald í þessum efnum.
    Það sama gildir reyndar um tóbak en eins og menn vita hefur mér gengið illa að koma því frv. fram og nú í vetur tókst ekki einu sinni að leggja það fram sem stjfrv. Það er önnur saga.
    Það eru sem sagt þrjár meginástæður fyrir því að gera þessar breytingar. Það er í fyrsta lagi vegna þess að bjórframleiðendur hér á landi þurfa á því að halda að breytingar verði gerðar til þess að þeir standi, að

sínu áliti, jafnfætis innflytjendum. Ég legg ekki dóm á réttmæti þess en ég tel að þeir gætu haft eitthvað til síns máls. Í öðru lagi eru það athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA og í þriðja lagi er þetta skynsamleg breyting til þess að hægt sé að standa á jafnræðisreglunni sem býr að baki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og er reyndar grundvöllur samningsins í þessum efnum sem öðrum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um frv. Það skýrir sig alveg sjálft. Það má benda á það sem kemur fram í athugasemdum með því. Þar er sagt frá því að meðalverð áfengis muni ekki breytast. Í athugasemdum frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. er bent á að þótt tekjutap ríkissjóðs nemi 50 millj. af sjálfu gjaldinu þá muni það vinnast upp og sjálfsagt gott betur þegar rætt er um tekjurnar í heild því að þeir aðilar sem flytja inn munu að sjálfsögðu þurfa að borga skatta af sinni starfsemi sem tekur að nokkru leyti við af þeirri starfsemi sem ríkið hefur haft með höndum hingað til. Þannig er séð fyrir því að ríkið fái það sem því ber í þessum efnum.
    Ég vil eindregið fara fram á það við hið háa Alþingi að þessi mál geti farið til nefndar og fengið þar efnislega umfjöllun. Það yrði síðan að sjálfsögðu á valdi nefndarinnar að ákveða framhaldið en ég tel a.m.k. ekki boðlegt á hinu háa Alþingi að þetta mál og þessi mál stöðvist. Ég get að sjálfsögðu skilið að það er ekki hægt að koma þriðja málinu fram núna þar sem hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur af ástæðum sem kunnar eru en eftir sem áður getur efh.- og viðskn. þingsins látið kanna þessi mál og þá kannað réttmæti þess sem ég hef sagt í ræðustólnum.
    Það er eðlilegt að stjórnmálaflokkar beri ímyndaðan hag einstakra starfsmanna fyrirtækja fyrir brjósti. Það er ekkert við því að segja. En ég minni á að það hverfa engin störf við það sem hér er verið að leggja til. Meginþunginn hjá Áfengis- og tóbaksversluninni liggur í smásölunni og má búast við því að þeir sem stunda innflutning mundu þá geta notað þá menn og ef af því yrði, sem ég sé ekki, að pláss væri ekki fyrir þá hjá ÁTVR, þá munu myndast ný störf annars staðar.
    Ég vil undirstrika að það er ekki verið að lækka verð á áfengi þótt það sé vissulega spurning hvort íslenska ríkið ætti ekki aðeins að athuga þau mál, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið í nágrannalöndunum þar sem margt bendir til þess að aukning á bruggi eigi sér m.a. rætur í því að áfengisverðpólitíkin hafi verið röng. Þegar kemur að því er það skárri kostur að ungt fólk, jafnvel unglingar, séu að drekka þær veigar sem menn vita hverjar eru og fást í þessum búðum, þó að það sé ekki til fyrirmyndar, fremur en beinlínis sé af verðpólitískum ástæðum verið að eltast við þá glæpamenn, ég kalla þá glæpamenn, sem eru að brugga áfengi og selja börnum í framhaldsskólum. Og af því að ég veit að sumir riddarar bindindis sem eiga sæti á Alþingi hafa látið þessi mál nokkuð til sín taka og flutt um það langar ræður og lærðar, sérstaklega í fyrra málinu, vil ég eindregið fara fram á það við þá að skoða málið í því ljósi sem ég hef verið að lýsa hérna en láta ekki blekkjast af því að halda, eins og sumir hafa haldið fram, að fjmrh. sé beinlínis að stuðla að því að ungt fólk drekki meira og það sé verið að gerbreyta áfengispólitíkinni. Slík rök eru reyndar höfundum sínum til skammar og ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast stundum að menn skuli vera á opinberum styrkjum við að senda frá sér slíkar ályktanir. Maður hlýtur að spyrja sig: Er það virkilega svo að peningunum sé rétt varið með þessum hætti ef menn vilja raunverulega koma í veg fyrir það að ungt fólk sé að drekka áfengi í hófi hér á landi? Ég spyr sjálfan mig stundum að því en ætla ekki hér og nú að fella neina dóma.
    Auðvitað verða menn að fá að ræða þessi mál, ég skil það, en ég hvet til þess að málin fái afgreiðslu og gangi til nefndar og af því að ég sé hv. 2. þm. Sunnl. þá vil ég rifja það upp með honum, þeim ágæta þingmanni, að hann á sæti í allshn. þingsins og þangað mun eitt frv. fara ef og þegar mælt verður fyrir því og það kemst í gegnum 1. umr. og auðvitað geta þessi tvö frumvörp ekki staðið sjálfstætt þannig að hann hefur alla kosti á því í sinni þingnefnd að koma öllum sínum sjónarmiðum að og gera allar sínar rannsóknir. Ég bið hann hér vegna þess að fáeinir dagar lifa til þingloka að leyfa þó þessum málum að komast til efh.- og viðskn. þar sem menn munu skoða þau til hlítar.
    Ég veit, virðulegi forseti, að það höfðar kannski meira til tilfinninga en til beinna raka en ég vona að menn skilji í hvaða stöðu sá er sem hér stendur ef það vitnast að á Alþingi Íslendinga geti ríkisstjórn ekki komið málum til nefndar þótt reynt sé í 2--3 mánuði. Ég verð að viðurkenna að ég á stundum erfitt með að skýra það út fyrir útlendingum þegar við skrifum undir viðskiptasamninga að ekki sé hægt að koma málum til nefnda. Ég get sagt það hér að útlendingar sem maður talar við og eiga að hafa eftirlit með þessum viðskiptaháttum trúa því ekki. Þeir trúa ekki öðru en því að sá sem hér stendur sé að hæðast að þeim og hafi engan vilja til þess að koma málunum fram. Það er alvarlegur hlutur því það er ekkert alvarlegra fyrir ríki sem þykist vera lýðræðisríki en hægt sé að halda því fram að ekki sé hægt að koma málum einu sinni til skoðunar í nefndum því að það er mjög alvarlegt ef málfrelsi á slíkum þingum er misnotað.