Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 02:20:14 (4717)


[02:20]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessara tvegga frumvarpa um þetta málefni, sem ég tel að sé löngu þarft mál og mjög þarft mál og ekki vonum seinna að þau skyldu koma fram. Ég harma það eins og aðrir, þó að þeir hafi kannski ekki talað í þessu máli, hversu seint hefur gengið að koma málinu í gegnum 1. umr. Það er auðvitað hárrétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það eru litlar líkur fyrir því að þetta mál komist út úr nefnd á þeim stutta tíma sem eftir lifir þings. En málið er þó alla vega komið fram til kynningar og vonandi ber þá næsta ríkisstjórn gæfu til að fylgja málinu eftir.
    Ef ég vík kannski örlítið að ræðu hv. síðasta þm. í örstuttu máli, því ég hyggst ekki tala langt mál, þá talar hann, eins og hv. þm. Jón Helgason, um áfengisstefnu ríkisstjórnarinnar og þeim er mjög gjarnt að vitna til hennar. Ég held að ég verði að varpa þeirri spurningu til baka til hv. þm. með hvaða hætti þeir sjá áfengisstefnuna breytast því ég fær ekki séð að hún breytist á nokkurn hátt því þessi breyting hefur ákaflega litla merkingu fyrir neytandann í landinu. Vilji neytandinn komast yfir áfengi þá hefur hann eftir sem áður ekki nema tvo kosti. Það er annars vegar að fara í verslun Áfengis- og tóbaksverslunarinnar og það verður alveg óbreytt. Það verður eina smásalan í landinu. Hún fer þar fram eftir þeim lögum og

reglum sem þar gilda og það breytist akkúrat ekki neitt við það. Á hinn bóginn geta menn sótt áfengi inn á veitingastaði og það er eins og menn þekkja engin breyting þar á heldur. Þannig að ég sé ekki þessa breytingu á áfengisstefnunni og ég kalla eftir því að menn setji okkur svolítið inn í þá sýn sem menn hafa þegar þeir sjá fyrir sér breytingu á þessari stefnu.
    Hv. þm. talaði örlítið um þann sparnað sem gæti orðið af þessu og efaðist um hann og nefndi aðeins eitt dæmi máli sínu til stuðnings, en það var lagerhald og hann taldi að það yrði dýrara en ekki ódýrara. Auðvitað verður það ódýrara fyrir ríkið sem slíkt en það verður dýrara fyrir innflytjandann því að hann þarf þá að fara að kosta lagerhaldið sjálfur. Það er rétt hjá hv. þm. að það getur leitt til hærra vöruverðs og varla trúi ég því að hv. þm. hafi verið að mæla gegn því að áfengi yrði dýrara sem væntanlega mundi þá draga enn meira úr neyslunni. Þannig að ég skildi ekki alveg þennan þátt hv. þm. Hins vegar er það alveg borðleggjandi að hið opinbera mun spara verulega í lið eins og lagerhaldi, það mun spara stórar upphæðir í dreifingu, það mun spara stórar upphæðir í fjármagnskostnaði, í húsnæði, hugsanlega einhvern kostnað í starfsmannahaldi, vegna þess að ef lagerhald leggst niður þá liggur það í augum uppi að það falla niður einhver störf ef þessi breyting verður, og í innflutningnum og þar fram eftir götum. Það er því alveg ljóst að hið opinbera mun spara verulega á þessu.
    Hv. þm. kom inn á það að þetta væri fyrst og fremst gert í anda frelsis viðskiptanna og ég tek alveg undir það. Hér er verið að leggja til að eðlilegur viðskiptamáti fái að njóta sín í landinu og það er á þeim nótum sem ég styð þetta mál. Hins vegar gagnvart þeim sem flytja inn þá er þetta ekkert sérstakt baráttumál vegna þess að breytingin fyrir innflytjendur verður ekki svo mikil gagnvart smásölunni vegna þess að menn þurfa enn að fara á hnjánum inn í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og reyna að vinna vöru sinni sess og koma henni inn í verslanirnar nákvæmlega eins og þeir þurfa að gera í dag. Það verður því engin breyting þar á. Og breytingin varðandi innflutning almennt er ákaflega lítil líka vegna þess að í dag geta menn flutt inn í tollvörugeymslu og átt þar áfengi í hvaða magni sem þeir vilja og það eru menn að gera. Ef menn mundu líta inn í tollvörugeymslu í dag þá mundu menn sjá þar stæðurnar t.d. af bjór, heilu stæðurnar, vegna þess að menn geta flutt þær inn í dag og menn geta farið með þær vörur sem þeir eiga inni í tollvörugeymslu, óbeint geta þeir farið í veitingahúsin í dag, tilkynnt veitingahúsunum: Við eigum núna þessa áfengistegund eða þennan bjór inni í tollvörugeymslu og þið getið keypt hann, en þið verðið að fara í gegnum ÁTVR. Þannig að þetta er til staðar í dag. þannig að breytingin er öll faktískt til íþyngingar fyrir þá sem flytja inn.
    Varðandi einkaklúbbana sem hv. þm. kom hér inn á áðan þá er akkúat þessi leið opin sem ég var hér að lýsa. Þeir geta farið þessa leið í dag. En nákvæmlega eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan þá er auðvitað ekkert vit í að gera slíkan hlut, nákvæmlega ekkert vit í því, vegna þess að sparnaðurinn af slíku er nánast enginn. Og sú röksemd, að menn geti náð góðum kjörum fyrir einhverjar örfáar flöskur eða örfáa kassa af áfengi þegar fyrirtæki gefa venjulega engan afslátt nema menn séu komnir í hundruð kassa eða þúsundir, hún stenst ekki. Jafnvel þó að menn gætu komist að góðum kjörum, við skulum bara segja að það væri hægt, þá er verðlagningin byggð þannig upp að hún byggist fyrst og fremst á alkóhólmagni þannig að verð frá erlenda framleiðandanum skiptir sáralitlu máli í útsöluverði á áfengi á Íslandi, sáralitlu máli. Ef við skoðum t.d. frv. um gjald af áfengi, sem ég hef að vísu ekki skoðað nógu vel, en þar er 4. gr., þar er gjald á lítra af áfengi með 40% styrkleika 3000 kr. Þetta er auðvitað hlutur sem við eigum eftir að fara yfir í nefndinni, en ég er ansi hræddur um að með þessari tillögu muni áfengisverð hækka ef þetta gengur eftir sem þarna er. Þannig að varla er það nú það sem menn eru að mæla á móti. En það sem ég er að benda á er það og hef persónlega reynslu af því, að jafnvel þó að menn bjóði hér 35% lægra verð þá munar hugsanlega ekki nema 3--4% í útsöluverði. Þannig að það er eftir mjög litlu að slægjast. Og ef einhverjir einkaklúbbar ætluðu að fara að lagera sig upp af hinum ýmsu tegundum sem þeir þurfa til veisluhalda þá held ég að þeir fjármálastjórar yrðu ekki langlífir í þeim klúbbum.
    Auðvitað sakna ég örlítið að hafa ekki hv. þm. Jón Helgason í þingsalnum eins og er vegna þess að hann fjallaði m.a. um skaðvænleg áhrif og ég vildi gjarnan fá nánari útlistun á því. Það þekkja það auðvitað allir að skaðvænleg áhrif af óhóflegri neyslu eru til staðar, það þekkja allir og það þarf ekki áfengi til. En ég vildi gjarnan fá nánari skýringar á slíkum staðhæfingum, sérstaklega vegna þess að í fjölmiðlum undanfarið hafa verið að koma fram staðreyndir um áhrif áfengisnotkunar í hófi. Nægir þar að benda t.d. á rannsóknir sem gerðar hafa verið í Evrópu og hafa sýnt fram á það að Frakkar, sem neyta mest áfengis allra þjóða, að þar í landi eru hjartasjúkdómar fæstir og fleiri rök hafa komið þar fram. Nú er ég ekki að segja þetta af því að ég sé að mæla með einhverri óhóflegri áfengisneyslu en ég vara menn við öfgafullum málflutningi í þessu efni.
    Hv. þm. Jón Helgason taldi að með þessum frumvörum hér væri verið að auka þrýsting til sölu, að innflytjendur fengju tækifæri til að auka þrýsting á söluaðila. Ég var að lýsa því hér rétt áðan að það er nánast ekkert sem breytist. Innflytjendur þurfa enn að fara á hnjánum til ÁTVR til þess að komast inn í þær verslanir. Þeir þurfa enn að fara í veitingahúsin og kynna sína vöru, nákvæmlega eins og þeir eru að gera í dag. Þannig að þetta bara stenst engan veginn.
    Hv. þm. taldi einnig að það yrði auðveldara að afla sér umboða vegna þess að hér væri hægt að geyma birgðir. Hv. þm. þekkir ekki nógu vel til þessa málaflokks vegna þess að í dag er hægt að geyma birgðir, eins og ég hef sagt hér fyrr, og það er í mjög auknum mæli gert. Og hvað varðar öflun umboða almennt þá er það lítið mál en það er meira mál að afla sér markaðar fyrir vörurnar.
    Ég tel að þessi mál séu af hinu góða. Þær tekjur sem ríkið hefur af sölu áfengis og tóbaks líka á að taka með þessum hætti, það á að taka þær í tolli og það er hin eina rétta leið og hinn eini eðlilegi viðskiptamáti. Það eru hins vegar fjölmargar spurningar sem ég hef varðandi þessi frumvörp og mun auðvitað nýta mér þann rétt sem ég hef í hv. efh. Ég er svo heppinn að eiga líka sæti í hv. allshn. þannig að ég get fjallað um öll þessi mál á nefndarfundum og ætla ekki að eyða tíma þingsins kl. 2.30 um nótt til að inna ráðherra eftir neinu slíku. Ég tel að ég hafi nóg tækifæri til að gera slíkt.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins fá að taka þátt í þessari umræðu, þó að lítið sé, en læt þessu þá lokið.