Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 20:35:28 (4767)


[20:35]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Á Droplaugarstöðum hér í borg býr ömmusystir mín 101 árs gömul. Þegar hún var lítil telpa uppi á Akranesi var Ísland enn hluti Danaveldis, íslensk útgerð var að stíga sín fyrstu spor og út um eldhúsgluggann mátti sjá breska togara moka upp fiski á gjöfulum miðum Faxaflóa nánast uppi í kálgörðum. Í þá daga áttu ungar stúlkur fárra kosta völ. Vinna var einhæf og laun lág. Eini framhaldsskóli landsins var lokaður konum og eina sérmenntunin sem þeim bauðst hér á landi var ljósmæðranám. Konur réðu ekki yfir tekjum sínum, eignum eða börnum, þær höfðu hvorki kosningarrétt né kjörgengi til Alþingis og aðeins örfáar konur mátti kjósa til sveitarstjórna. Vinnukonur og fiskverkunarkonur höfðu aðeins um þriðjung til helming af launum karla fyrir 14--16 tíma vinnudag.
    Þegar ömmusystir mín var að vaxa úr grasi í upphafi 20. aldar var líklegast að hennar biði líf bónda eða sjómannskonu með barnamergð, tilheyrandi barnadauða og daglegt strit í lélegum húsakynnum. En tímarnir breyttust. Íslendingar voru að stíga stór skref í átt til sjálfstæðis. Atvinnulíf og menntun barna tók stórstígum framförum. Barátta hófst fyrir félagslegum réttindum og mannsæmandi kjörum. Í landinu var að verða til öflug hreyfing kvenna sem með áratuga baráttu skilaði konum þeim réttindum sem talin eru til grundvallarmannréttinda og eru hluti af skipulagi lýðræðisþjóða þótt þau hafi í upphafi einungis verið ætluð hvítum körlum sem áttu eignir.
    Kvenfrelsiskonur aldamótaáranna, sem beittu baráttuaðferðum eins og kvennaframboðum, trúðu því að konur hefðu ýmislegt sérstakt fram að færa í landsmálum. Þær vildu sjá konur á bekkjum Alþingis, í bæjarstjórnum og dómsölum og vildu að þær létu til sín taka á öllum sviðum þjóðlífs í þágu betra mannlífs. En þegar réttindin voru fengin kom í ljós að baráttukonurnar voru langt á undan sinni samtíð. Hefðirnar, tregðan, ríkjandi karlveldi ásamt félagslegum og efnahagslegum aðstæðum settu konum stólinn fyrir dyrnar. Mannréttindabarátta íslenskra kvenna varð að halda áfram. Hún hefur nú staðið í rúmlega 100 ár með stöðugum ávinningum og nýjum áherslum og tímarnir eru enn að breytst.
    Barnabarnabörn gömlu konunnar á Droplaugarstöðum eru litlar dömur sem munu ganga ungar stúlkur inn í 21. öldina. Ef okkur Íslendingum tekst að vinna okkur skynsamlega út úr þeirri kreppu ofveiði og eyðslu sem við erum búin að koma okkur í og skapa atvinnu til frambúðar bíður þeirra góð framtíð. Þær ungu stúlkur munu geta ráðið sínu sambúðarformi, barneignum og búsetu. Þær munu eiga margra kosta völ í menntakerfinu og geta valið um atvinnu af ýmsu tagi, ekki síst ef skólakerfið tekur sig á og einbeitir sér að því að styrkja sjálfsmynd stelpna og hvetja þær til dáða í starfsvali, en náms- og starfsval kvenna hér á landi er allt of einhæft.
    En það ber skugga á 21. öldina. Ungu stúlkurnar mega vænta þess að verða ekki nema hálfdrættingar á við karlmenn í launum þegar allt er talið. Þær geta búist við því að réttmætur hlutur kvenna í valdastofnunum samfélagsins, hvort sem er á Alþingi, í sveitarstjórnum, í dómskerfinu, meðal vinnuveitenda, í forustu verkalýðshreyfingarinnar og í fjármálastofnunum verði enn mun rýrari en gerist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Þær geta því miður átt von á því að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi á götum úti eða í heimahúsum, sem guð forði þeim frá, og þær eiga eftir að horfa upp á versnandi heilsu kvenna ef marka má upplýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
    Það er ekki síst vegna framtíðarinnar sem Kvennalistinn er til. Við erum angi af meiði 100 ára kvennabaráttu. Við viljum bæta stöðu kvenna og barna núna, en við viljum líka horfa fram á veginn og vera þátttakendur í mótun nýrrar aldar í samfélagi sem tekur mið af þörfum beggja kynja, stefnir að jöfnuði, réttlæti, valddreifingu, virku lýðræði og því að koma á jafnvægi manns og náttúru. Við trúum því að allt sem gert er til að bæta stöðu kvenna skili sér í réttlátara og betra þjóðfélagi fyrir alla, konur jafnt sem karla.
    Í 12 ár hefur Kvennalistinn átt fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Á þeim tíma hefur margt gerst. Fjöldi kvenna á Alþingi hefur fimmfaldast, úr 5% í 25%. Í sveitarstjórnum hefur hlutfall kvenna aukist úr 6% í rúmlega 20% og reyndar miklu meira í stærri sveitarfélögum eins og í Reykjavík þar sem konur eru í meiri hluta borgarfulltrúa.
    Fæðingarorlof lengdist úr þremur mánuðum í sex eftir margra ára baráttu kvennalistakvenna. Tekið var á nauðgunarmálum, forvörnum vegna brjóstkrabbameins, réttindamálum samkynhneigðra, kynfræðslu, mati á

heimilisstörfum sem starfsreynslu, öflugri kjararannsóknum og umhverfisfræðslu svo að örfá dæmi séu tekin um tillögur Kvennalistans sem samþykktar hafa verið á Alþingi. Linnulausri umræðu hefur verið haldið uppi um stöðu kvenna, einkum launamisrétti og stöðu þeirra sem lægst hafa launin en í þeim hópi eru konur í meiri hluta. Margar tillögur hafa verið lagðar fram um endurskoðun á launakerfi ríkisins, endurmat á störfum kvenna, um lágmarkslaun og þannig mætti lengi telja. Það hefur hins vegar ekki verið vilji hjá gömlu flokkunum á hinu háa Alþingi til þess að taka á launamisréttinu og ár eftir ár hefur verið samið á almennum vinnumarkaði um óbreytt ástand og eilíft líf óréttlætisins. Menn horfa upp á það án þess að blikna að jafnréttislögin sé þverbrotin og það er eins og þau komi vinnumarkaðnum ekki við, hvað þá ríkisstjórninni, löggjafarvaldinu eða dómstólunum sem nýlega áréttuðu í dómi að stúlkur væru mun minna virði en drengir, þar sem þær hefðu væntanlega lægri tekjur á lífsleiðinni.
    Í 12 ár hafa margbreytilegar raddir kvennalistakvenna hljómað á Alþingi í þágu allra kvenna og við erum sannfærðar um að þær hafa náð hlustum margra. Dropinn holar steininn. En það er enn þá mikið verk að vinna í þágu betri hags fyrir konur, börn og fjölskyldur þessa lands. Það verkefni sem hæst ber er að taka á launamun kynjanna og mismunandi aðstæðum þeirra til að stunda vinnu.
    Nýleg könnun sem unnin var fyrir Jafnréttisráð leiddi í ljós það sem við höfum lengi vitað að laun þeirra hópa kvenna sem rannsóknin náði til eru á bilinu 64--78% af launum karla og launabilið vex eftir því sem menntunin er meiri. Þetta eru grafalvarleg skilaboð til ungra stúlkna sem hljóta að spyrja hvort menntun borgi sig. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar eru laun kvenna að meðaltali um 50% af launum karla, meðan samsvarandi tala fyrir Bandaríkin er 70%. Við erum ekki aðeins í sömu stöðu og við vorum fyrir 100 árum heldur fyrir þúsund árum þegar aðalútflutningsvara Íslendinga var vaðmál sem konur ófu.
    Annað stórverkefni sem bíður okkar er atvinnusköpun fyrir allt það fólk sem nú er atvinnulaust og þá sem koma munu út á vinnumarkaðinn á næstu áratugum. Þau mál verða ekki leyst á einum degi eða í tíð einnar ríkisstjórnar. Við þurfum að móta atvinnustefnu til langs tíma sem tekur mið af þeim auðlindum sem við eigum í landinu, fullnýtingu þeirra og nýjum möguleikum sem felast í greinum eins og ferðaþjónustu, smáiðnaði og rannsóknum af ýmsu tagi. Við verðum að gefa einstaklingum og hópum kost á að spreyta sig og prófa nýjungar. Sérstaklega þarf að huga að atvinnusköpun kvenna en þar hafa stjórnvöld, verkalýðshreyfing og vinnuveitendur vægast sagt brugðist og hafa afhjúpað gamaldags og þröngsýn sjónarmið í tillögum sínum til atvinnusköpunar á undanförnum árum sem nánast eingöngu hafa gagnast körlum.
    Í Bandaríkjunum er talað um konur sem hinn nýja kraft efnahagslífsins. Þær hafa stofnað meiri hluta nýrra fyrirtækja og eiga stóran þátt í því að nánast útrýma atvinnuleysi þar vestra, enda fá þær mikið fé úr sjóðum sem ætlað er að styrkja nýsköpun í atvinnulífi.
    Þróun atvinnulífsins er nátengd menntakerfi landsins. Þar þurfum við Íslendingar að taka okkur tak, leggja áherslu á skapandi hugsun, efla starfs- og verkmenntun, búa betur að skólum landsins og auka rannsóknir og tilraunir. Íslendingar eru í hópi þeirra Evrópuþjóða sem verja minnstu fé til skólamála. Við gröfum undan eigin framtíð með slíkum áherslum. Við þurfum að skoða inntak þess náms sem hér er boðið upp á og átta okkur á því hvers konar menntun við viljum og þurfum. Þar þarf að skoða þarfir kynjanna sérstaklega og búa ungt fólk betur undir fjölskyldulíf og alls konar störf. Fyrst og fremst þarf þó að endurskoða launakjör kennara sem nú standa í verkfalli, enda hafa kjör þeirra dregist aftur úr. Menntakerfi sem býður starfsfólki sínu léleg kjör sem valda sífelldri óánægju kann ekki góðri lukku að stýra. Það þarf að semja við kennara strax jafnframt því að endurskoða launakerfi ríkisins sem er óréttlátt og handónýtt.
    Enn eitt mál sem við kvennalistakonur setjum efst á okkar blað er að tekið verði á ofbeldi gegn konum og börnum. Þar þarf róttækar aðgerðir, lagasetningu og hugarfarsbyltingu ef okkur á að takast að draga úr þeim hörmungum sem allt of margar konur og börn búa við.
    Að endingu vil ég nefna heilbrigðismál þar sem verður að eiga sér stað mikil áherslubreyting eigi að takast að draga úr kostnaði vegna sjúkdóma og heilsugæslu. Þar þarf að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvernig hægt sé að bæta heilsu þjóðarinnar og leggja megináherslu á forvarnir, að sjálfsögðu í góðri samvinnu við þá sem vinna að heilbrigðismálum.
    Við kvennalistakonur viljum halda áfram að beita okkur í þágu kvenna, barna og karla og við erum sannfærðar um að aldrei hefur verið eins mikil þörf fyrir sterka kvennahreyfingu og öflugar raddir kvenna og einmitt nú á tímum mikilla breytinga til þess að standa vörð um réttindi kvenna og til að stíga enn fleiri skref í átt til réttlátara þjóðfélags. En til þess þurfum við styrk. Ég hlýt að spyrja konur: Treysta þær Davíð og Friðriki til að bæta kjör kvenna eftir þær árásir sem gerðar hafa verið á stöðu heimilanna á þessu kjörtímabili? Treysta konur Ólafi Ragnari og Svavari sem á sínum tíma tóku til baka tímamótasamninga BHMR með bráðabirgðalögum sem ollu ómældum skaða í framhaldsskólum landsins? Treysta konur Jóni Baldvini og Sighvati sem unnið hafa það helst sér til frægðar að raða krötum á ríkisjötuna og setja allt á annan endann í velferðarkerfinu? Treysta konur Halldóri og félögum sem greiddu atkvæði á móti öllum kvennatillögum Kvennalistans við afgreiðslu síðustu fjárlaga? Ætla konur að setja traust sitt á gömlu flokkana sem standa eins og staðar merar í vegi aukins jafréttis kynjanna? Í nafni systurlegrar samstöðu gagnrýni ég engar konur hér enda eru þær allt of fáar á Alþingi Íslendinga.
    Það er löngu tímabært að Kvennalistinn fái að spreyta sig við stjórnvölin. Við erum reiðubúnar og nú veltur það á konum og körlum þessa lands hvort við fáum til þess brautargengi. --- Góðar stundir.