Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 21:41:21 (4772)


[21:41]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við erum mörg í þjóðfélaginu sem þekkjum vel og vitum af reynslu að gamla flokkakerfið, sem hefur áratugum saman setið hér á valdastóli, megnar ekki að jafna hér lífskjörin. Það skynjar líka fólk um allt land sem af biturri reynslu er hætt að treysta loforðum gömlu flokkanna um bætt lífskjör eins og hv. síðasti ræðumaður bar áðan fram hér. Við finnum vel hræðslu fjórflokkanna við nýja hreyfingu fólksins, Þjóðvaka, nú þegar þeir sjá valdakerfi sínu ógnað.
    Ný hreyfing fólksins hefur mælst með 10--20% fylgi á undanförnum vikum þrátt fyrir hrakspár flokka og flokksmálgagna og villandi og ómálefnalegan fréttaflutning af starfi hreyfingarinnar. Slíkt hefur ekki einungis hert okkur í þeim ásetningi að skapa nýjan vettvang sem er og verður upphafið að því að sameina jafnaðarmenn og félagshyggjufólk í öfluga fjöldahreyfingu. Afl okkar verður fólkið í landinu sem mun berjast með þessari hreyfingu til sigurs. Til sigurs fyrir málstað réttlætis og jöfnuðar í þjóðfélaginu. Til sigurs fyrir þann málstað sem ganga mun á hólm við valdakerfin í landinu sem í skjóli flokkakerfisins hafa dregið niður lífskjörin og breikkað bilið milli ríkra og fátækra í þjóðfélaginu. Gamla flokkakerfið hefur í raun gefist upp á að jafna hér eigna- og tekjuskiptinguna. Þess vegna hefur hreyfing fólksins, Þjóðvaki, orðið til. Hreyfing sem krefst sanngjarnrar skiptingar þjóðarauðsins, hreyfing sem leggur fram leiðir til nýrra sóknarfæra í atvinnulífinu og til átaks í mannréttinda-, siðvæðingar- og jafnréttismálum.
    Við þurfum að brjótast út úr þeim vítahring sem kjaramálin eru komin í. Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi okkar þegar láglaunafólk fær ekki meira fyrir vinnu sína en nokkurn veginn sem samsvarar atvinnuleysisbótum enda er Ísland auglýst sem Singapúr norðursins til að laða að erlenda fjárfesta vegna lítils launakostnaðar. Þetta fyrirkomulag brýtur niður sjálfstraust og sjálfsvirðingu fólks sem á ekki einu sinni fyrir brýnustu nauðþurftum. Við vitum að stöðugleiki síðustu missira byggist fyrst og fremst á framlagi launafólks sem tekið hefur á sig þungar byrðar, m.a. mikla skattatilfærslu frá atvinnulífinu. Það hefur skapað atvinnuvegunum ný skóknarfæri, aukið hagnað þeirra og minnkað skuldir. Við hljótum því að gera þá kröfu til atvinnulífsins að framleiðni aukist sem er með því lægsta sem þekkist í Evrópu og að hagræðing og endurskipulagning í fyrirtækjum nái til yfirbyggingar og stjórnunarkostnaðar en byrji ekki og endi á gólfinu hjá lægstlaunaða fólkinu.
    Kjarajöfnun, sagði ríkisstjórnin við láglaunafólk þegar skattapakkinn kom fyrir jólin sem skilaði láglaunafólkinu 900 kr. en hálaunamanninum sem átti 30 millj. kr. skuldlausa eign og var með 500 þús. kr. í tekjur tæpum 10 þús. kr. Þannig er þeirra kjarajöfnun, þannig er þeirra réttlæti, 900 kr. til láglaunafólks en 10 þús. kr. til hálaunafólks.
    Kjarajöfnun, sagði ríkisstjórnin aftur vegna nýgerðra kjarasamninga. Ja, svei. Á yfirborðinu heitir það 3.700 kr. hækkun fyrir láglaunafólk en 2.700 fyrir þá betur settu. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga gildir það sama og í svokallaðri kjarajöfnun ríkisstjórnarinnar fyrir jólin þó forsrh. hafi haldið fram hinu gagnstæða hér áðan. Þrír fjórðu hlutar af 3--4 milljörðum úr ríkissjóði renna til skattalækkana vegna lífeyrissjóðsiðgjalda sem best skila sér til hálaunafólks. Þannig fær 50 þús. kr. maðurinn í auknar ráðstöfunartekjur vegna kjarasamninganna og ráðstafana ríkisstjórnarinnar 43.500 kr. á ári samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar, en 300 þús. kr. maðurinn fær 85 þús. kr. á ári. Þetta er innihaldið í kjarajöfnuninni þegar umbúðirnar hafa verið teknar af sem verkalýðsforingjar og ráðherrar með 300 þús. kr. laun fagna í dag, 40 þús. kr. fyrir láglaunamanninn en 85 þús. kr. fyrir hálaunamanninn með 300 þús. kr. Það er þeirra réttlæti.

    Í tillögum Þjóðvaka um kjarajöfnun sem kynnt var nýlega er aftur á móti lagt til að það komi sérstök hækkun á skattfrelsismörk sem komi þegar til framkvæmda hjá fólki með 1 millj. eða minna í tekjur. Þannig hefðu skattfrelsismörk þessara hópa hækkað úr 58 þús. kr. í 67 þús. kr. Til launþega með 80 þús. kr. hefði þessi leið svarað til rúmlega 4% launahækkunar strax en kostnaður ríkissjóðs af þessari breytingu hefði orðið 1,5 milljarðar kr.
    Það alvarlega við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar er líka að kostnaði við þessar aðgerðir upp á 3--4 milljarða kr. sem að verulegu leyti gengur til hærra launuðu hópanna er ávísað á næstu ríkisstjórn. Ég spyr: Getur láglaunafólkið treyst því að það verði ekki látið borga fyrir þessa sérstöku kjarabót til hálaunahópanna með skattahækkun, þjónustugjöldum eða að aðstoð til þeirra í gegnum velferðarkerfið verði ekki skert? Ég óttast það að fái núv. stjórnarflokkar endurnýjað umboð verður þessi litla kjarabót láglaunahópanna tekin aftur með þeim hætti og gildir þá einu hvort Alþfl., Framsfl. eða Alþb. verður með íhaldinu í ríkisstjórn að loknum næstu kosningum.
    Það leiðir hugann að yfirboði Alþb. vegna komandi kosninga þar sem boðuð er 15 þús. kr. launahækkun láglaunahópanna og 5--7 milljarða skattalækkun sem og að afnema öll gjöld af nemendum, sjúklingum og öldruðum og ganga þeir þar heldur lengra en Framsfl. í yfirboði sínu sem ekki mun standast nú frekar en endranær. Hvernig á launafólk að trúa þessu þegar fulltrúar Alþb. í ASÍ, sem sumir eru jafnframt frambjóðendur þeirra í komandi alþingiskosningum, standa að kjarasamningum þar sem hálaunahóparnir fá mun meira í sinn hlut en láglaunahóparnir?
    Er nema von að fólk hafi misst trú á loforðum fjórflokkanna og kennarar krefjist nú skriflegra loforða frá öllum, líka stjórnarandstöðunni, um að réttindamál þeirra verði tryggð. Það er einmitt þetta sem láglaunafólk hefur fengið nóg af, loforðum fjórflokkanna sem aldrei standast. Það var einmitt það sem ég hafði fengið nóg af þegar ég yfirgaf minn gamla flokk hvers formaður er í slíkum fílabeinsturni að hann segir þessa kjarasamninga einu samningana sem hann muni eftir sem tryggi kjarajöfnun. Á sama tíma lesum við í blöðunum að laun sérfræðinga hjá hinu opinbera hafi hækkað um rúm 20% á sl. ári eða að meðaltali um 600 þús. hjá hverjum þeirra meðan nánast engar launahækkanir áttu sér stað í þjóðfélaginu.
    Það er einmitt þessu sem við viljum breyta sem gefist höfum upp á úrræðaleysi gömlu flokkanna við að fara nýjar leiðir til raunverulegrar kjarajöfnunar. Það er óþolandi að sama hver fjórflokkanna er við völd, að alltaf eru það sömu hóparnir sem taka á sig skerðingar og fórnir í þjóðfélaginu. Fjórflokkakerfið hefur þar brugðist. Endurnýjun með nýju fólki og nýjum áherslum verður fyrst og fremst að finna í framboði Þjóðvaka í komandi alþingiskosningum. Kvennalistinn sem stofnaður var til að bæta kjör kvenna í þjóðfélaginu og auka hlut þeirra virðist það helst hafa til málanna að leggja að gera lítið úr störfum kvenna sem starfa á öðrum stjórnmálavettvangi þótt hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sem hér talaði áðan sagði að í nafni systurlegrar samstöðu ætlaði hún ekki að gagnrýna konur á Alþingi. Hvað hefur Jóhanna gert fyrir konur, börn og heimilin í landinu? spurði þessi sami hv. þm. Kvennalistans í sjónvarpi nýverið. Ég skal að þessu gefna tilefni nefna þingmanninum örfá atriði.
    Lög um umboðsmann barna. Þrjú ný vistheimili fyrir börn sem höllum fæti standa. Tvöföldun á framlagi til barnaverndarmála. Lagður grundvöllur að stefnumótun í fjölskyldumálum. 50% raunaukning á framlögum til fatlaðra sem bylt hefur aðbúnaði fatlaðra barna. 3.500 félagslegar íbúðir og húsaleigubætur sem gagnast hafa fyrst og fremst einstæðum mæðrum og láglaunafólki. Lög um starfsmenntun í atvinnulífinu sem tryggt hafa endurmenntun 12 þúsund manns, ekki síst ófaglærðra kvenna og láglaunafólks. Námskeið fyrir ófaglært fólk á stofnunum fatlaðra um allt land sem tryggt hefur þeim launahækkanir. Framkvæmdaáætlanir til fjögurra ára um jafnrétti kynjanna, sem m.a. felur í sér starfsmat til að stuðla að launajafnrétti, sveigjanlegum vinnutíma, samfelldum skóladegi og að hlutur kvenna í opinberum nefndum verði ekki undir 30% á árinu 1997. Jafnréttisáætlanir hjá ríkisstofnunum og ítarleg könnun á launamismun kynjanna sem nýlega var birt og leiða á til aðgerða til að ná fram launajafnrétti. Ný jafnréttislög sem skilað hafa verulegum árangri í jafnréttisbaráttunni, m.a. að opna konum nýjar leiðir til að ná fram rétti sínum í launa- og kjaramálum. Veruleg framlög til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum og konum. Vel á annað hundrað millj. í sérstakt atvinnuátak kvenna, ekki síst á landsbyggðinni. Það er einmitt þessi nýja hreyfing, Þjóðvaki, sem hefur orðið til fyrir frumkvæði margra kvenna sem ætla sér að axla ábyrgð í þjóðfélaginu, hreyfing sem þorir að taka áhættu af ríkisstjórnarsamstarfi til að ná árangri ekki bara fyrir konur og börn heldur til að jafna lífskjörin og breyta tekjuskiptingunni fyrir alla þá sem ekkert skjól hafa haft af tilvist fjórflokkakerfisins sem sífellt ber á borð innihaldslausa kjarajöfnun fyrir láglaunafólkið. Þótt pakkinn sé stílaður á láglaunafólkið er innihaldið ávallt ætlað einhverjum öðrum.
    Góðir áheyrendur. Menn verða að þora að taka upp nýskipan á vinnumarkaði eins og við í Þjóðvaka leggjum til ef á að vera hægt að bæta kjörin á raunhæfan hátt og jafna launamisrétti kynjanna. Þeir sem ríghalda í óbreytt kerfi stuðla að áframhaldandi misskiptingu tekna í þjóðfélaginu. Ástæður sívaxandi skuldastöðu heimilanna eru margþættar og má rekja allt aftur til ársins 1980. Misgengi lána við afnám vísitölubindingar launa árið 1983 í tíð Framsfl., stórgallað húsnæðiskerfi á árunum 1986--1990, sem leiddi til mikillar skammtímafjármögnunar í bankakerfinu, atvinnuleysi og hið mikla tekjufall heimilanna vegna efnahagsþrenginga og lág laun í landinu eru þar ráðandi þættir.
    Grípa þarf til aðgerða sem fela í sér að heimilt verði að fresta greiðslum húsnæðislána um tiltekinn tíma, t.d. í þrjú ár, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna og mikils samdráttar í tekjum heimilanna og lífeyrissjóðir og bankastofnanir verða að gefa fólki tækifæri til að skuldbreyta lánum sínum til allt að 15 ára. Þegar í stað þarf einnig að setja lög um greiðsluaðlögun til aðstoðar heimilum sem eru í miklum vanskilum en tillögur þar að lútandi voru tilbúnar í lokin á minni ráðherratíð en stjórnarflokkarnir heykjast á að leggja fram á Alþingi nú. Samhliða því að taka upp lög um greiðsluaðlögun þarf að lækka þjónustugjöld fjármálastofnana og lögfræðinga. Ótækt er líka með öllu að ríkisvaldið sé að leggja skatt á skuldir heimilanna á sama tíma og þeir koma sér hjá að leggja skatt á eignatekjur stóreignafólks en virðisaukaskattur er að fullu lagður á innheimtuþjónustu lögfræðinga.
    Fjármagnstekjuskatti sem greiddur er af öllum eignatekjum umfram eðlilegan sparnað fólks verður líka að koma á til þess að minnka skattbyrði hjá fólki með lágar og meðaltekjur, t.d. með lækkun á skatthlutfalli þeirra. Uppstokkun á ónýtu launa- og lífeyriskerfi verður ekki undan vikist en afnema þarf það lífeyriskerfi sem tryggir æðstu embættismönnum margfaldar lífeyrisgreiðslur úr opinberum sjóðum. Skilgreina þarf forgangsröð útgjalda, m.a. átak til að byggja upp fjölþætt menntakerfi sem er forsenda framfara í atvinnulífinu og það þarf að móta opinbera fjöklsyldustefnu þar sem m.a. verði lögð áhersla á forvarna- og fyrirbyggjandi aðgerðir. Og reglur þarf að setja til að hindra hagsmunaárrekstra, fyrirgreiðslu og sóun í opinberum rekstri og til að tryggja viðskiptasiðferði í fyrirtækjum og stofnunum.
    Nauðsyn á því að skipað verði stjórnlagaþing eins og Þjóðvaki hefur lagt til er staðreynd þegar nú liggur fyrir að flokkakerfið nær ekki saman um að jafna atkvæðavægi kjósenda. Um þá niðurstöðu sem þar var má segja: Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítill flakkari. Stjórnlagaþing skipað þjóðkjörnum fulltrúum öðrum en alþingismönnum á að taka á þessu máli ásamt því að auka rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu, endurskoða ráðherraábyrgð, svo og skráðar og óskráðar reglur sem ríkja um embættisfærslu í opinberri stjórnsýslu og ráðstöfun opinberra fjármuna, fækka þingmönnum í 50 og auka valfrelsi kjósenda með persónukjöri.
    Góðir áheyrendur. Til þess að fá nýja sýn til mála þarf nýjan sjónarhól. Stjórnmálaflokkar sem eiga þá hugsjón stærsta að viðhalda sjálfum sér eða vera eins konar tryggingafélög fyrir þá einstaklinga sem telja sig ómissandi í pólitíkinni fara ekki ótilneyddir upp á nýjan sjónarhól. Fólkið sem nú fylkir sér um Þjóðvaka er boðberi breytinga og hefur kjark til að raska ró gömlu flokkanna og neyða þá til að endurskoða vinnubrögð sín og viðhorf. Fólki um allt land er ljóst að óbreytt flokkakerfi er ekki leið til að bæta lífskjörin og breyta tekjuskiptingunni. Þess vegna varð Þjóðvaki til, hreyfing fólksins gegn óbreyttu ástandi. Þjóðvaki er það pólitíska hreyfiafl sem þarf til að fá staðnað stjórnmálakerfi til að endurskoða málin með velferð fólksins að leiðarljósi.