Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:06:47 (4774)


[22:06]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Það er engu líkara en talsmenn stjórnarandstöðunnar hér í kvöld hafi misst gleði sína og maður spyr þá sjálfan sig hvort það stafi af því að nú sjást víða batamerki í íslensku þjóðlífi. Batamerkin koma víða fram og einn ánægjulegur vottur um það eru þeir kjarasamningar sem forustumenn launamanna og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði hafa gert með sér í þessari viku, kjarasamningar sem vissulega marka þáttaskil. Þeir eru upphafið að því að við erum að ganga inn á braut þar sem við getum hækkað kaupið og aukið kaupmáttinn hægt á nýjan leik á grundvelli aukinnar verðmætasköpunar. Þeir eru markverðir fyrir þá sök að það er fyrst og fremst verið að rétta hlut þeirra sem búið hafa við lökust kjör og þeir eru markverðir fyrir þá sök að það er verið að treysta stöðugleikann í sessi sem er forsenda framfara og árangurs í atvinnu- og efnahagsmálum. Þessir kjarasamningar eru sprottnir úr jarðvegi þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum.
    Við höfum vissulega gengið í gegnum erfiðleika, orðið fyrir áföllum, þurft að skera niður þorskaflann um helming og urðum að horfast í augu við það að verðlag á okkar afurðum lækkaði um 30%. En það var við þessu brugðist með almennum ráðstöfunum í efnahagsmálum sem skiluðu því að útflutningsatvinnugreinarnar eru nú reknar með viðunandi afkomu.
    Okkur hefur tekist að snúa hag þjóðarbúsins út á við við. Þegar fyrrv. ríkisstjórn fór frá var hallinn á viðskiptum við útlönd 20 milljarðar króna. Núna er afgangur upp á 10 milljarða kr. Það hefur tekist að halda verðbólgunni með því lægsta í Evrópu og á síðasta ári lækkaði matvælaverðið sem er meiri árangur en við höfum áður séð. Og það hefur tekist að lækka vextina og með nýjum kjarasamningum eru enn skapaðar forsendur fyrir frekari lækkun vaxta og við sjáum þegar merki þess á fjármagnsmarkaðnum í gær og í dag.
    Það eru m.a. aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum þar sem dregið hefur verið úr eftirspurn ríkisins á lánsfjármarkaði sem hafa leitt til þess að við höfum náð þessum árangri. En stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi hafa barist gegn hverri einustu ráðstöfun ríkisstjórnarinnar sem miðað hefur að því að halda utan um ríkisfjármálin og draga úr lánsfjáreftirspurninni. Það hefur tekist þrátt fyrir það að skattar á einstaklinga hafa ekki hækkað og það hefur tekist þrátt fyrir það að skattar á atvinnufyrirtæki hafa verið lækkaðir um 2 milljarða kr.
    Til samanburðar höfum við svo skattahækkanir fyrri ríkisstjórnar upp á 11 milljarða sem bjó þó við þær aðstæður að það var gott til sjávarins og verð á sjávarfurðum á erlendum mörkuðum í sögulegu hámarki.
    Hér er umtalsverður árangur sem er forsenda stöðugleikans, forsenda þess að við getum aukið hagvöxt og skapað hér ný verðmæti. Og sem betur fer sjáum við víða í atvinnulífinu í dag að atvinnufyrirtækin eru að brjótast fram í nýjungum, eru að gera nýja hluti. Við sjáum það í sjávarútveginum þar sem sjávarútvegsfyrirtækin eru í auknum mæli í vöruþróun og framleiða nýjar tegundir fyrir neytendamarkaði. Við sjáum þetta í iðnaðinum sem er að hasla sér völl með nýjum framleiðslugreinum á erlendum vettvangi og við sjáum þetta í vaxandi ferðaþjónustu.
    Það er mikils um vert að við hugum ekki einungis að því að skapa hinn efnahagslega stöðugleika, heldur hugum einnig að stöðugleika í starfsumhverfi atvinnugreinanna. Það á ekki síst við um sjávarútveginn. Við verðum að tryggja að hann búi við leikreglur sem ekki er verið að breyta eða hringla með frá einu ári til annars. Við verðum að standast sviptivinda hagsmunaárekstranna og megum ekki snúast í þeim eins og skopparakringlur. Það hefur tekist að styrkja þennan stöðugleika í starfsumhverfinu með verulegum árangri í bættri afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Það er verulegur árangur þó að margt megi enn bæta í sjávarútvegi að íslenskur sjómaður skilar í dag fjórfalt meiri verðmætum að landi en starfsbróðir hans í Noregi. Og við megum ekki hverfa frá þeim stöðugleika í sjávarútvegsstjórnun sem dregur úr því að við getum haldið áfram á þessari braut. Við munum ekki ná þeim árangri í sjávarútvegsmálum með því að skattleggja meira. Við munum ekki fjölga fiskunum í sjónum með því að leggja á nýja skatta. Við munum ekki auðvelda nýjum aðilum að hasla sér völl í sjávarútvegi með því að leggja á þá meiri skatta. Við munum ekki koma í veg fyrir það að menn hendi fiski með því að leggja meiri skatta á sjávarútveginn. Og við munum ekki bæta stöðu sjávarplássanna í landinu með því að leggja meiri skatta á sjávarútveginn.
    Við höfum náð árangri með því að sýna festu og sveigjanleika. Aðalatriðið í þessu er að horfa á markmiðin. Þau eiga að vera að byggja upp og vernda fiskstofnana, auka hagkvæmni í atvinnugreininni og tryggja sem mest atvinnufrelsi. Og við erum á réttri leið í þeim efnum.
    En það er, frú forseti, ástæða til þess þegar við komum hér saman á síðasta eldhúsdegi þessa kjörtímabils að velta svolítið fyrir sér málflutningi stjórnarandstöðunnar á undanförnum árum. Það er svo sem ekki margt sem rís þar upp úr en mér kemur tvennt í hug: Í fyrsta lagi andstaða eins eða tveggja þingmanna stjórnarflokkanna við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, samningi sem tryggði stöðu Íslands í hinni nýju Evrópu, samningi sem tryggði okkur stöðu gagnvart helstu samkeppnisaðilum okkar á þessum mikilvægu mörkuðum. Og menn hljóta að spyrja í dag: Hvar værum við staddir ef við hefðum ekki sömu

samkeppnisstöðu og Norðmenn á evrópskum markaði? Við værum auðvitað verr staddir og sjávarplássin í landinu væru að sama skapi verr stödd. Það er von að þetta sé beinlínis mál þeirra sem börðust gegn þessari aðild. Það er von að það sé feimnismál.
    Hitt atriðið sem ég man eftir var andstaða Framsfl. við það að lækka matarskattinn. Þeir komu hér fram á þinginu með miklu afli og börðust gegn því með kjafti og klóm að unnt væri að lækka skatt á matvæli. Þetta var þáttur í viðamiklum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja rekstur útflutningsgreinanna, tryggja þeim betri samkeppnisstöðu en atvinnufyrirtækin hafa haft í þrjá áratugi. Þetta var þáttur í ráðstöfunum til þess að tryggja stöðugleikann og þáttur í ráðstöfunum til þess að bæta afkomu heimilanna í landinu. Framsfl. gekk af öllu afli gegn þessum breytingum um lækkun matarskattsins. Og ekki í fyrsta skipti sem Framsfl. gerir það. Þeir gerðu það líka í ríkisstjórn 1988 þegar tillögur voru um gengisbreytingu og lækkun matarskatts. Þeir eru samkvæmir sjálfum sér. En þá höfðu þeir völd til þess að koma í veg fyrir að þessar ráðstafanir næðu fram að ganga. Munurinn núna er sá að þeir eiga ekki aðild að landsstjórninni. Þeir hafa ekki haft tækifæri til þess að koma í veg fyrir að slíkar ráðstafanir yrðu gerðar. Og það gerir gæfumuninn.
    Það er stundum sagt að það skipti engu máli lengur hverjir sitja í ríkisstjórn. Það sé sami grauturinn í hverri skál. En þetta dæmi sýnir ljóslega að það skipti máli að Framsfl. átti ekki aðild að landsstjórninni því að þetta var lykilatriði í því að þessar efnahagsráðstafanir fyrir fyrirtækin og til að verja afkomu fólksins í landinu tókust. Þær hefðu ekki tekist ef Framsfl. hefði átt aðild að ríkisstjórninni. Það er kjarnaatriði sem við skulum hafa í huga þegar við metum og förum yfir málflutning stjórnarandstöðunnar á liðnu kjörtímabili. Það skiptir máli hverjir sitja í ríkisstjórn og hverjir eru í stjórnarandstöðu. Sem betur fer tókst að koma þessum ráðstöfunum fram. Þess vegna er atvinnulífið á Íslandi í sókn í dag. Þess vegna var unnt að gera kjarasamninga. Vissulega á hóflegum nótum en kjarasamninga sem tryggja stöðugleika, kjarasamninga sem eru fyrsta skrefið í þá veru að auka kaupmátt á nýjan leik. Þess vegna getum við nú horft til nýrrar framtíðar með þá vissu í huga að það er hægt og við getum eflt íslenskt atvinnulíf. Það er komið á þá ferð og við erum að auka hagvöxt sem er grundvöllur bættra lífskjara í landinu. Og það er þess vegna sem við getum með nokkrum sanni sagt: Það er gróandi í íslensku þjóðlífi í dag.