Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:48:37 (4779)


[22:48]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Nú þegar fjögurra ára kjörtímabili þingsins er að ljúka blasa við farir og ófarir ríkisstjórnarinnar sem við völd hefur verið. Við sjáum landbúnað sem engist í greip niðurskurðarlúkunnar. Nú er stærð búa slík að bændafólk getur hvorki farið né verið á búum sínum. Atvinnulífið er í þeim viðjum að ekki er hægt að fá vinnu þótt fólk vilji bregða búi og á hverju búi er svo skorinn kvótaskammtur að erfitt er að framfleyta fjölskyldu á arði þess. Þetta er þeim mun dapurlegra þegar við flestra augum blasir að heimurinn muni þurfa miklu meira á fæðu að halda á komandi tímum en nokkurri annarri framleiðslu sem um getur í veröldinni. Matvælaiðnaður er sú iðja sem við hljótum að stefna að. Ekki er hægt að tala um stóriðju vegna þess hve fá við erum. Okkar bestu möguleikar liggja einmitt í dreifbýlinu og í lífrænni framleiðslu. Þeir og þær sem taka við völdum eftir næstu kosningar verða að gera sér grein fyrir því að í lífrænni ræktun og í lífrænum landbúnaði eigum við mikla möguleika.
    Kvennalistinn hefur frá upphafi barist fyrir náttúruvernd og viljað efla mengunarvarnir. Jafnframt viljum við efla menntun og rannsóknir, tilraunir til að finna bestu leiðir í framleiðslu matvæla, bæði sjávarafurða og landafurða, ræktun og nýtingu þeirra náttúrugæða sem við höfum ráð á. Menntun í markaðsöflun, auglýsingatækni og kynningartækni, menntun til að skilja menningu, mál og hugsunarhátt þeirra þjóða sem við skiptum við svo eitthvað sé nefnt. Það er því menntun bæði þeirra sem stunda framleiðslu og þeirra sem með annarri þekkingaröflun og rannsóknum geta gert hana hagkvæmari sem mikið veltur á.
    Hreint land, gróið land krefst líka stórátaks í umhverfismálum. Árið 1993 lýsti þáv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, því yfir að það væri stefna núverandi ríkisstjórnar Íslands að Ísland væri hreinasta land hins vestræna heims árið 2001 og nú á umhverfisverndarári er rétt að minnast þessa. Við þurfum að sameinast í umhverfisátaki, í störfum, í verndum náttúru, í hreinsun umhverfis og í rannsóknum.
    Kvennalistinn bendir á að átak í umhverfis- og náttúruverndarmálum skapar líka störf um land allt, gefur okkur fleiri möguleika í ferðaþjónustu og ýtir undir smáiðnað út um landið sem einkum er stundaður af konum. Við getum vegna smæðar þjóðarinnar aldrei tekið þátt í stóriðjukapphlaupi og það er heldur ekki æskilegt. Við eigum slíkar auðlindir í sjálfri náttúru landsins að fávísi er að spilla henni meira en orðið er með sinkóþverra og annarri slíkri iðju. Við eigum nú þegar alls kyns iðnað sem sjálfsagt er að hlúa að, enda er þar vænn vaxtarbroddur falinn, eins og komið hefur fram í kvöld, og staða hans hefur líka batnað á þessu kjörtímabili og það er vel. Það lætur því hjáróma í eyrum þegar okkar litlu iðjuhöldar eru að kveina yfir því að framleiðni á vinnustund sé ekki næg og láta sem svo að það sé verkafólki að kenna. Ég held að þeim væri nær að líta í eigin barm og spyrja sig hvað þeir hafi skipulagt vitlaust og hvar þeir hafi brugðist í áætlunum og fjárfestingum. Það batnar ekkert við að kenna alltaf öðrum um.
    Góðir Íslendingar. Við búum á eylandi og eigum því greiða leið til allra átta. Þess vegna getum við beint viðskiptum okkar og samböndum hvert sem er í heimi án þess að landfræðilegar hindranir aðrar en vegalengdir séu í vegi. Vegna þessarar legu landsins vorum við á vissan hátt einangruð áður fyrr en við varðveittum vel tungu okkar og menningu og gátum því miðlað bræðraþjóðum okkar á Norðurlöndum af menningararfinum þegar þær þurftu þess við. Þær hafa líka stutt okkur dyggilega á margan hátt. Þessi samvinna líður ekki undir lok þó að sumar Norðurlandaþjóðanna hafi gengið í Evrópusambandið en við höfum borið gæfu til þess að vera utan þess. Ég held að sú staða geti orðið dýrmæt fyrir öll Norðurlönd þegar frá líður. Og Íslendingar munu ekki einangrast því að við nútímatækni hefur heimurinn skroppið saman. Við eigum jafnauðvelt með að hafa samband við Hong Kong, Höfðaborg, Brussel og Honululu.
    Það er ótrúleg glýja sem alþýðuflokksfólk fær í augun þegar það horfir til Brussel og ótrúlegar ábatavæntingar sem bærast í brjósti þess þegar hugsað er til þess að atvinnuleysi í Evrópusambandslöndum er allt að 11%, en sú staða mun vera 6,8% hér á landi. Í báðum tilvikum eru konur í meiri hluta atvinnulausra og það hlýtur að auka áhyggjur og varúð í hugum okkar kvenna og litla löngum munum við hafa til að hækka töluna. Verður að gjalda varhug við þeim áróðri að við séum að missa af Evrópulestinni svokölluðu. Enn sem komið er þurfa þeir matinn sem við framleiðum og til þess dugar okkur EES-tengivagninn harla vel.
    Annar A-flokkur sem kennir sig við alþýðu Íslands er sleginn annarri glapsýn. Foringjar Alþb. dásama nú þá viðskiptahætti sem tíðkast í Asíu og vilja að við tökum þá til fyrirmyndar, sósíalísk markaðshyggja, kapítalismi undir eftirliti og í skjóli sósíalisma er hin gullna lausn sem þeir boða. Miðstýrður kapítalismi eins og tíðkast í Singapúr, Malasíu og víðar. Þessu er veifað framan í okkur sem eigum að trúa. Við vitum bara að á bak við ódýra framleiðslu Asíulandanna er 12--13 stunda vinnudagur sjö daga vikunnar, sáralitlar mengunarvarnir og hverfandi tryggingar starfsfólks og öryggisvarnir í lágmarki. Er það sú gullna framtíð sem við ætlum að bjóða íslenskum verkalýð eða ætlum við e.t.v. ekki að vera verkalýðurinn? Ætlum við e.t.v að vera yfirstétt sem nýtir eða þrælkar ódýrt vinnuafl hjá eða frá öðrum þjóðum? Hvað mun þá vera orðið af kenningunni um vorn minnsta bróður og minnstu systur?
    Ýmislegt hefur verið íslenskri þjóð mótdrægt undanfarin ár. Sífelldar tilraunir ríkisstjórnarinnar til einkavæðingar ríkisfyrirtækja, sem hafa endað í því að hún hefur selt þau fyrirtæki sem gefa arð meðan önnur óarðbær eru enn í höndum ríkisins, koma okkur Íslendingum, hinum eiginlegum eigendum ríkisfyrirtækjanna, stórkostlega undarlega fyrir sjónir. Og slík var ásóknin í sölunni að andvirði hlutabréfa var lánað kaupendum svo að þeir gætu dregið kaupverðið frá skatti í byrjun þessa árs. Þetta er skrýtinn bisness.
    Sífellt rýrara félagslegt kerfi, atvinnuleysi og frámunalega undarlegt atvinnuleysistryggingakerfi svo ekki sé meira sagt, félagslegt húsnæðislánakerfi í molum og húsbréfakerfi á hættumörkum. Þannig mætti telja miklu lengur. Og ríkisstjórnin ber sér á brjóst og hælir sér af því að verðbólgan sé 2,5% og stöðugleiki í samfélaginu. En þetta er ekki stjórnvisku að þakka, heldur því glópaláni sem bætt viðskiptaskilyrði í nágrannalöndum, Smuguveiðar og ládeyða í framkvæmdum hafa skapað og svo líka það að fólk hefur ekki efni á að kaupa neitt utan brýnustu lífsnauðsynjar. Þar af leiðandi er ekkert flutt inn.
    Kvennalistinn leggur áherslu á að við verðum að breyta þessari stefnu, við verðum að bæta hag þeirra borgara sem lægst laun hafa. Það er búið að tala mikið um það hér í kvöld hversu miklar hækkanir hafa verið en mér finnst það ekki miklar hækkanir þó að fólk með 42 þús. kr. fái 3 þús. kr. launahækkun, mér finnst það nánast smánarhækkun.
    Kvennalistinn leggur áherslu á að við eigum auð sem við þurfum að leggja rækt við, sérstöðu sem við getum nýtt okkur. Framtíðarvelgengni okkar byggist ekki á því að apa eftir Evrópu eða Asíu heldur því að skapa sérstæða þróun í landinu, sókn smáþjóðar til bættra lífsskilyrða og öryggis fjölskyldunnar, þróun sem byggir á endursköpun þjóðlífsins og nýju gildismati þar sem lögð er áhersla á hrausta þjóð í hreinu landi. --- Þökk fyrir.