Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 23:06:04 (4781)


[23:06]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils. Við hljótum því að nota þetta tækifæri til þess að gera upp liðin ár um leið og við horfum til framtíðar. Að sjálfsögðu hefur ýmislegt það verið gert á vettvangi stjórnmálanna á þessu kjörtímabili sem horfir til framfara. Að halda öðru fram væri hin mesta firra. Ég vil í því sambandi nefna að sem betur fer er það svo að mikill meiri hluti þeirra mála sem unninn er á Alþingi er samþykktur samhljóða eftir ítarlega umfjöllun í nefndum þar sem hin ýmsu sjónarmið hafa verið vegin og metin.
    Þessa kjörtímabils mun hins vegar verða minnst vegna stöðugra deilna stjórnarflokkanna um hin stærstu sem smæstu mál. Þar má nefna sem dæmi afgreiðslu GATT-samningsins sem var komin í algert óefni vegna deilna stjórnarflokkanna þegar stjórnarandstaðan tók málið í sínar hendur.
    Við Íslendingar höfum verið að ganga í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Á um það bil ártug höfum við verið að færast nær um heiminum í margvíslegum skilningi en á mörgum áratugum þar á undan. Þetta á við á mörgum sviðum. Á sviði viðskipta- og peningamála, á sviði mennta- og menningarmála svo eitthvað sé nefnt. Margt bendir til þess að á næstu árum eigum við eftir að sjá stórstígar breytingar á sviði fjarskipta og rafeindatækni, m.a. með nýrri fjarsímatækni um gervihnetti og þekkingarhraðbraut um ljósleiðara sem nái inn á hvert heimili og vinnustað. Þessi tækni ásamt með þeim breytingum sem hún mun hafa á alla þróun atvinnustarfsemi kann að gera það að verkum að í atvinnulegu tilliti verði sú fjarlægðarhindrun sem við Íslendingar höfum búið við að mestu leyti upphafin. Eftir muni standa að hin landfræðilega einangrun og fámennið geti í sjálfu sér verið eftirsótt lífsgæði eftir að tæknin hefur gert okkur kleift að taka nánast óhindrað þátt í alþjóðlegri athafnasemi.
    Við framsóknarmenn viljum að Íslendingum verði gert kleift að taka að fullu þátt í þessari þróun. Á nýafstöðnu flokksþingi okkar bentum við á ýmsar leiðir til þess. Við leggjum til að markaðsstarf á vegum opinberra aðila verði eflt og samræmt, bæði hvað varðar útflutning og fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Við leggjum til að gerð verði framkvæmdaáætlun um að fyrir aldamót eigi öll heimili og vinnustaðir á landinu þess kost að verða tengd við þekkingarhraðbraut um ljósleiðara. Við leggjum til að tengsl atvinnulífs og skólakerfis verði styrkt og frumkvöðlahugsun efld. Við leggjum til að ungt fólk verði aðstoðað við að stofna fyrirtæki og margvíslegar aðrar aðgerðir í þessa veru.
    Það er hins vegar mikill misskilningur að opnara viðskiptaumhverfi og stóraukin samskipti við aðrar þjóðir þurfi að leiða til þess að við verðum að taka upp það versta frá öðrum þjóðum hvað varðar hvernig við skipum okkar innri málum, að við þurfum að hverfa frá þeirri stefnu samhygðar sem hefur einkennt íslenskt samfélag lengst af á uppbyggingartímanum á þessari öld.
    Núverandi valdhafar virðast ekki hugsa á þessum nótum. Á kjörtímabilinu hefur verið stjórnað í anda hörðustu peningahyggju. Andi Margrétar Thatcher hefur svifið yfir vötnunum. Hann hefur m.a. birst í því að langtímum saman hafa vextir á verulegum hluta lánsfjár heimila og fyrirtækja verið á bilinu 15--20%. Hann hefur birst í því að þegar farið var að hugsa að sparnaði í mennta- og námslánakerfinu var gripið niður á þann hátt að það hrakti einstæðar mæður og efnaminna fólk á landsbyggðinni frá námi. Hann hefur birst í því að umræða sem fer fram um allan hinn vestræna heim um kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni hefur hér komið fram í skyndiákvörðunum sem hafa komið á hastarlegan hátt niður á efnalitlu barnafólki.
    Framsfl. leggur áherslu á að til þess að ná árangri í jafnt efnahags- og velferðarmálum verði að koma til náið samstarf hagsmunaaflanna í þjóðfélaginu. Stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og peningakerfið vinni náið saman að uppbyggingu öflugs atvinnulífs sem undirstöðu samfélags þar sem einstaklingarnir bera sameiginlega ábyrgð gagnvart velferð heildarinnar. Við bendum á að besta velferðin fyrir einstaklinginn felst í því að hann fái tækifæri til að vinna fyrir sér með eigin höndum. Við eigum að sækja fyrirmyndir til annarra þjóða eftir því sem við teljum skynsamlegt á hverjum tíma. Það hefur sýnt sig að sú hugmyndafræði samráðs og samvinnu hagsmunaaðilanna sem ég nefndi hér áðan hefur reynst mun happadrýgri en hin hreina peningahyggja. Gildir þar einu hvort mælt er á kvarða hagvaxtar eða félagslegra gæða. Við þurfum ekki að leita lengra en til meginlands Evrópu þar sem þjóðir eins og Frakkar og Austurríkismenn hafa að miklu leyti fylgt þessari stefnu og bera það saman við gjaldþrot hinnar hreinu peningahyggju í Bretlandi.
    Virðulegur forseti. Mestu skiptir að við skipum okkar innri málum í samstafi við íslenskar hefðir og íslenskan veruleika. Það er í sjálfu sér að hlaupa úr öskunni í eldinni að ætla sér að hverfa frá thatcherismanum og til austurlenskra hefða eins og hið nýja Asíufélag undir forustu Ólafs Ragnars Grímssonar og Ögmundar Jónassonar boðar, hefða, sem að vísu byggja á ákveðnu samráði hagsmunaaðila en að öðru leyti á gildum sem ég hygg að enginn Íslendingur vilji hverfa til. Það varðar t.d. aðbúnað á vinnustað, umhverfismál, réttindi launafólks og fleira. Þar er unnið eftir aðferðum sem hinir hörðustu hægri menn hér á landi þora ekki einu sinni að nefna.
    Ég nefndi í upphafi afgreiðslu GATT-samninganna á Alþingi. Sú umræða hefur fyrst og fremst tengst einum atvinnuvegi hér, þ.e. landbúnaðinum, þó að aðild okkar að GATT leggi grunninn að öllum okkar útflutningi. Skilningur á því birtist m.a. í mótatkvæðalausri afgreiðslu á Alþingi nú fyrir áramót. Hitt er jafnljóst að með staðfestingu þessarar lotu GATT-samkomulagsins var gerð grundvallarbreyting á starfsskilyrðum landbúnaðar hér á landi. Þar var horfið frá innflutningsbanni nema þar sem um er að ræða sjúkdómahættu og í staðinn kemur frelsi á innflutningi með heimildum til þess að leggja á tolla til þess að jafna samkeppnisaðstöðu.
    Ég vil leggja áherslu á að þessi samningur er ekki einhliða. Hann skapar okkur einnig sóknarfæri á íslenska markaði með íslenskar hágæðabúvörur. Til þess að slíkt geti orðið að veruleika þarf hins vegar að koma til náið samstarf stjórnvalda, bænda, vinnslustöðva og markaðsfyrirtækja á sviði útflutnings. Því miður hefur lítið bitastætt gerst í málefnum landbúnaðarins á þessu kjörtímabili. Orka ríkisstjórnarinnar hefur farið í innbyrðis átök um málaflokkinn. Stefna landbrh. hefur byggst á pexi við Alþfl. vitandi það að flokkurinn nýtur lítillar hylli í sveitum landsins. Þetta kann að duga til vinsælda í augnablikinu, en eftir stendur að ekkert hefur verið unnið í stefnumótun til lengri tíma og þetta staðfestist rækilega í ræðu hæstv. landbrh. áðan.
    Bændur hafa lagt mikið á sig á síðustu árum til þess að aðlaga framleiðslu innanlandsmarkaði og á sama tíma lækkað verð á vörum sínum um nálægt 20%. Þeir standa nú frammi fyrir meiri óvissu um kjör sín og framtíð en verið hefur um langa tíð.
    Framsfl. hefur ekki farið með yfirstjórn málefna landbúnaðarins í tvö kjörtímabil. Komist hann til áhrifa mun hann beita sér fyrir nýrri stefnumótun í málefnum landbúnaðarins. Fyrstu skref hljóta að vera að tryggja að opinber framlög til landbúnaðarins lækki ekki frá því sem nú er og stefna að því að þeim innflutningi á búvörum sem í vændum er verði mætt með samsvarandi magni í útflutningi. Til lengri tíma verði stefnt að því að framleiðsluverðmæti búvara á Íslandi nái því að verða það sem það var áður en núverandi samdráttarstig hófst.
    Það má enginn skilja orð mín svo að ég vilji hverfa til fyrri tíma sjálfvirkra útflutningsbóta. Við erum fyrst og fremst matvöruframleiðsluþjóð. Við eigum að beita þeim viðskiptasamböndum sem við höfum á því sviði, koma búvörum í samsetta tilbúna rétti með fiskinum okkar og vinna landinu markvisst sess sem framleiðanda vistvænna matvæla. Þetta er verkefni sem þarf tíma og fjármuni til þess að árangur náist. Ef við hins vegar höfum úthald og hvikum ekki frá settu marki er ég þess fullviss að á þessu sviði eru miklir möguleikar.
    Góðir tilheyrendur. Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. --- Góða nótt.