Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 23:15:26 (4782)


[23:15]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Gott kvöld, góðir Íslendingar. Síðustu árin hafa verið erfið í íslensku þjóðarbúi. Alþýðuheimilin í landinu fóru ekki varhluta af hinum efnahagslegu þrengingum og erfiðleikarnir reyndu líka á þolrif stjórnmálamanna. Þrátt fyrir samfellt góðæri mörg fyrri ár var þjóðarbúið illa í stakk búið til að takast á við skyndileg áföll. Þau voru nærtæk, gömlu ráðin, að láta sem ekkert væri, grípa til gengisfellinga og skefjalausrar lántöku í útlöndum, magna upp verðbólgu, þykjast gera allt fyrir alla, en í raun stefna þjóðarhag í algert öngþveiti. En ríkisstjórnin stóðst prófið og hefur tekist að leiða þjóðina út úr þrengingunum svo nú blasir við svo sannarlega bjartari tíð. Það staðfesta nýgerðir kjarasamningar, kjarasáttmáli um lífskjörin þar sem verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur taka höndum saman með ríkisstjórninni um að tryggja lífskjör og búsetu í landinu. Sáttmáli sem byggir á þeim árangri sem náðst hefur við efnahagsstjórnina þrátt fyrir mikla erfiðleika í þjóðarbúinu.
    Það vekur sannarlega athygli í þessum umræðum að ríkisstjórnin hefur ekki verið gagnrýnd fyrir frammistöðu sína í garð landsbyggðarinnar nema að mjög litlu leyti. Víst er það öðruvísi en áður var. Og hver man ekki eftir slagorðum fyrir kosningar að ef viðrreisnarstjórn kæmist til valda myndi hún rústa öllu á landsbyggðinni. Nú ríkir þögn að mestu um málefni landsbyggðarinnar af hálfu stjórnarandstöðunnar. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í þjóðarbúinu hafa stjórnarflokkarnir leitast við að framfylgja öflugri byggðastefnu. Þess sjást víða merki. Staðið hefur verið myndarlega að opinberum framkvæmdum á kjörtímabilinu. Vegaframkvæmdir hafa verið meiri á kjörtímabilinu en þekkst hafa um áratuga skeið. Fyrir síðustu kosningar lagði Alþfl. áherslu á að stórátak í samgöngumálum væri mikilvæg forsenda byggðastefnu er um leið gæti lagt grunn að eflingu atvinnulífsins með aukinni samvinnu og stækkun markaðssvæða. Þetta hefur gengið eftir og þess má sjá víða glögg merki að samgöngubæturnar skila góðum árangri. Það hefur einnig verið staðið vel að verki í opinberum framkvæmdum á sviði hafnarmála, heilbrigðismála og við byggingu skólamannvirkja. Þjónusta heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hefur víða verið efld undir forustu heilbrigðisráðherra, ekki skorin niður. Þvert á móti má finna þess mörg dæmi að fjárframlög hafi verið hækkuð og gamlar skuldir allt frá síðasta áratug hafi verið gerðar upp.
    Undir forustu Alþfl. hafa niðurgreiðslur til húshitunar á köldum svæðum landsbyggðarinnar verið stórauknar eða um meira en helming. Án þeirra aðgerða væri landsbyggðarfólk nú að greiða 20% hærra verð fyrir húshitunina. Við síðustu fjárlagagerð var enn aukið við niðurgreiðslurnar um 50 millj. kr. og hefur iðnrh. lýst yfir hér á Alþingi og staðfest í nýgerðum kjarasamningum að hann muni leita eftir því við orkufyrirtækin að þau veiti til viðbótar umtalsverðan afslátt á orkuverðinu og að þessar ráðstafanir geti komið til framkvæmda nú strax í næsta mánuði sem mun þá skila umtalsverðri raunlækkun á húshitun köldu svæðanna á landsbyggðinni.
    En það eru atvinnumálin sem ráða úrslitum fyrir búsetuna á landsbyggðinni. Því miður blasa víða við miklir erfiðleikar í sjávarútvegi og landbúnaði. Við höfum búið við kvótakerfi í báðum þessum atvinnugreinum um nokkurra ára skeið og nú blasir reynslan við. Það hefur ekki tekist að byggja þorskstofninn upp þrátt fyrir 70% skerðingu aflaheimilda í þorski. Sauðfjárbændur hafa orðið að þola 40% skerðingu í framleiðslu sinni. Ef áfram heldur sem horfir og kvótakerfin fá áfram að vinna sín verk mun það hafa í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir alla búsetu á landsbyggðinni og lífskjör fólksins. Við munum þá sitja uppi með fá en stór útgerðarfyrirtæki sem hafa eignast allan fiskinn í sjónum og nokkur stór bú í landbúnaði sem ráða framleiðslu landbúnaðarafurða. Á fundum sem ég stóð fyrir á Austurlandi nýlega gerðist það ekki einu sinni heldur oftar að smábátasjómaður sagði: Kerfið neyðir mig til að henda allt að öðrum hverjum fiski í sjóinn aftur sem ég veiði því að við verðum að velja dýrasta hráefnið á land svo við komumst hreinlega af. Og bóndi einn sagði: Ég verð að framleiða og selja kjöt fram hjá kvóta á svörtum markaði svo að fjölskyldan mín hafi einfaldlega til hnífs og skeiðar. Ég segi: Þetta er ekki dómur yfir fólki sem vill gera rangt heldur dómur yfir kerfi sem fjötrar í ánauð og gengur ekki upp. Þetta eru líka viðvörunarorð til þeirra stjórnmálamanna sem bera ábyrgð á þessum kerfum, hafa varið þau og segjast vera sérstakir vinir sjómanna og bænda. Alþfl. hefur barist fyrir því að þessi kerfi verði endurskoðuð frá grunni þannig að fólk geti búið við bærilegt réttlæti og jöfnuð varðandi aðganginn að auðlindum lands og sjávar. Það er grundvallaratriði að skráð verði í stjórnarskrá að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Það tókst fyrir atbeina Alþfl. að tryggja veiðar krókaleyfisbáta. Því ber að fagna. Þá tókst að opna smábátum á aflamarki aðgang að Fiskveiðasjóði og samkomulag náðist í fjárln. Alþingis um 40 millj. kr. styrkveitingu til smábáta á aflamarki.
    Alþfl. hafði forustu ásamt fjölmörgum útgerðaraðilum um að tryggja íslenskum fiskiskipum veiðar í Smugunni sem skilaði 50 þús. tonnum af þorski sl. tvö ár og fyrir baráttu Alþfl. tókst að aflétta löndunarbanni erlendra fiskiskipa í íslenskum höfnum sem skilaði 18 þús. tonnum af þorski á land og umtalsverðu magni af öðrum tegundum á síðasta ári. Og munar um minna fyrir íslenskt atvinnulíf.
    Þessar umræður bera þess glöggt vitni að kosningar eru í nánd. Ekki skortir hástemmd loforð og gylliboð af hálfu stjórnarandstöðunnar. Nú er hægt að gera allt fyrir alla. Alþb. slær Íslandsmet í loforðagjöf. En þótt sumir stjórnmálamenn virðist slitna gersamlega úr jarðsambandi við raunveruleikann og lífið í landinu rétt fyrir kosningar gerir fólkið það ekki. Kjósendur vita að kosningarnar snúast ekki um staðlaus loforð og yfirboð heldur traust, ekki um blekkingar heldur raunveruleika. Alþfl. er til þjónustu reiðubúinn á grundvelli ábyrgðar og trausts, er með skýra og kraftmikla stefnuskrá að leiðarljósi sem er raunsæ og ábyrg. Á slíkum grunni er gott að byggja framtíð þjóðlífi til heilla. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.