Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:26:58 (4910)


[02:26]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hafði eiginlega ekki hugsað mér að blanda mér í þessa umræðu, ég lét nokkur orð falla um þessa breytingu lánskjaravísitölunnar í umræðum um annað dagskrármál sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir. En ætli það sé nú ekki rétt, hæstv. forseti, að svara nokkrum orðum orðaleppum hæstv. viðskrh. í garð okkar alþýðubandalagsmanna. Úr því hann velur sér þetta tækifæri og þennan tíma til að hefja upp orðaskipti af þessu tagi, þá kunna menn að vera búnir að skila ágætis dagsverki og hefðu ekkert á móti því að fara að koma til síns heima, en sá sem hér stendur er þó ekki það þreyttur enn þá að hann getur vel tekið upp þessa orðræðu við hæstv. viðskrh.
    Ætli það sé ekki þannig, hæstv. viðskrh., að fyrir margt sem Alþfl. eru hugsaðar þegjandi þarfirnar í íslenskum stjórnmálum þá sé það ekki síst þetta, hvernig hann hefur m.a. talað og að nokkru leyti hegðað sér í sambandi við þessar fjárskuldbindingar almennings og greiðsluerfiðleika sem þeim málum hafa tengst, sem ýmsir eiga við þann ágæta flokk upp ógerðar sakir. Í öllu falli verð ég að segja alveg eins og er að mér finnast einkunnir af því tagi sem hæstv. viðskrh. gaf lánskjaravísitölunni og því frægðarverki Ólafslaganna að koma verðtryggingu hér á ekki bera þess merki til að mynda að hæstv. viðskrh. muni vel hluti sem síðar gerðust. Eitt er að verðtryggja fjárskuldbindingar en annað er að setja ofan á það hæstu raunvexti í heimi, sem hér voru og hafa verið oft og tíðum. Og það þriðja er að fara svo þannig með verðtryggðar fjárskuldbindingar, sem mældar eru samkvæmt tilteknum vísitölum, að taka þær úr sambandi gagnvart launakjörum en ekki lánskjörum eins og síðan var gert. Á því ber Alþfl. að vísu ekki sérstaklega ábyrgð heldur aðrir flokkar sem þá fóru með stjórn mála hér á Íslandi á árunum 1983--1984. ( Gripið fram í: Hvað hétu þeir?) Þeir hétu víst og heita nú reyndar enn, því báðir eru á lífi, Framsfl. og Sjálfstfl. En hver sem ber hina pólitísku ábyrgð þá er það nú ærið kuldalega tekið til orða gagnvart þeim þúsundum þolenda þessa kerfis, eins og með það var farið, að gera það með þeim hætti sem hæstv. viðskrh. gerði hér áðan.
    Svo er það eitt enn, sem ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég er farinn að kunna heldur illa við og verða svolítið leiður á og hef hugsað mér að taka ekki mikið þegjandi lengur. Það er sjálfbirgingsháttur og hroki Alþfl. í umræðum um stjórnmál um þessar mundir. Það er hinn nýi kaþólski rétttrúnaður sem Alþfl. er að reyna að leiða inn í umræðuna um íslensk stjórnmál í anda og með framburði formannsins, að sumir hafi haft algerlega rétt fyrir sér en aðrir algerlega rangt. Þetta tyggur formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., hér eins og sannaða hluti, QED, í anda þess að hann hafi prókúru á það hvað sé rétt og hvað sé rangt í stjórnmálaþróun þjóðarinnar. Mér fannst brydda á þessum hugsunarhætti hrokans og sjálfbirgingsháttarins hjá hæstv. viðskrh. áðan þegar hann ætlaði að afgreiða Alþb. út úr stjórnmálaumræðunni með þeim orðum að það hefði yfirleitt alltaf haft rangt fyrir sér og hefði ekki mikið til þess að hrósa sér af, helst þetta eina að bera nokkra pólitíska ábyrgð á því að Ólafslög voru sett á sínum tíma. ( Gripið fram í: Það hefur átt marga góða hagyrðinga.) Ja, ætli það sé ekki bara þannig, hæstv. utanrrh., að þjóðin sé besti dómarinn um þetta? Þekkir hæstv. utanrrh. betri dómara? Er til einhver annar rétthærri dómari í þeim málum heldur en þjóðin, þegar hún gengur til kosninga á fjögurra ára fresti? ( Gripið fram í: Þjóðin má ekkert aumt sjá.) Og ætli það sé ekki þannig --- ja, vonandi þolir hún að sjá samt Alþfl. í réttu ljósi --- og ætli það sé ekki þannig að þjóðin sé m.a. um þessar mundir að undirbúa sig í það að gefa flokkunum einkunnir? Ég mun taka alveg óhræddur á móti þeim dómi sem þessir tveir flokkar, annars vegar Alþfl. með sinn rétttrúnað, hinn nýja kaþólska rannsóknarrétt í íslenskum stjórnmálum þar sem skipperinn aflasæli, hæstv. núv. utanrrh., í annan stað, fer með sinn rannsóknarétt yfir því hvað sé rangt og rétt í íslenskum stjórnmálum og hins vegar mæltir Alþb. til leiks með sínum liðsmönnum. ( Utanrrh.: Það fer ekkert fram hjá vigt.) Fer ekkert fram hjá vigt hjá . . .   nei, það er líka ekki efni til þess því að aflinn er ekki svo mikill, hæstv. utanrrh. Ætli það sé nú ekki þannig að það verði það tómlegt í lestunum hjá Alþfl. þegar hann kemur að landi í þessum kosningum að karlinum í brúnni veit af hverjum einasta titti. (Gripið fram í.) Við skulum tala saman eftir kosningar já, við skulum tala saman, ef til þess kemur, þó ég sé kannski ekki alveg viss um það að við þurfum langar orðræður. En ég held að fengsælli skipstjórar en formaður Alþfl. gætu átt það til að þurfa að taka pokann sinn á þessum árum Íslandssögunnar heldur en það sem gerist hér eftir næstu kosningar og kemur í hlut Alþfl.
    En sem sagt, hæstv. forseti, ég gæti svo sem eftir því sem þörf krefur lengt þessa umræðu en ég nenni ekki að sitja þegjandi undir orðaleppum af því tagi sem hæstv. viðskrh., alveg eins og út úr kú, sletti inn í þessa umræðu og beindi að Alþb. Það voru engin efni til slíks og það er alveg mál til komið að alþýðuflokksmenn átti sig á því að þeir hafa nógar hendur að verja í stjórnmálaumræðunni á Íslandi þessa mánuðina og hafa ekki efni á því að umgangast aðra flokka með þeim hætti sem hér var gerð tilraun til gagnvart Alþb. Ég tel satt best að segja að Alþfl. hafi verið tekinn silkihönskum í stjórnmálaumræðunni á Íslandi síðustu missirin þannig að ef eitthvað er er ámælisvert að aðrir flokkar skuli ekki hafa staðið betur í stykkinu gagnvart því að halda Alþfl. við efnið eins og hann hefur birst þjóðinni upp úr sínu spillingardíki á síðustu missirum. Hans framganga öll í þeim efnum og umgengni hans við valdið á þessu kjörtímabili er ekki þannig að hann hafi efni á því að kasta miklum steinum, það eru það þunnir veggirnir á því húsi sem hann byggir um þessar mundir.