Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:51:58 (5062)


[00:51]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég sat þennan fund hv. heilbr.- og trn. vegna þess að fulltrúi okkar alþýðubandalagsmanna var ekki til staðar og ég verð að segja alveg eins og er að ég sá ekki annað en formaður nefndarinnar hefði rétt fyrir sér í því að það væri ekki meiri hluti fyrir afgreiðslu málsins því það kom fram hjá fjórum þingmönnum Sjálfstfl. á fundinum að þeir teldu að það ætti ekki að afgreiða málið og það kom skýrt fram frá öðrum fulltrúa Framsfl. að hann ætlaði að sitja hjá í þessu efni þannig að formaður átti engan annan kost en hætta við að afgreiða málið á þessum fundi.
    Ég vildi að þetta kæmi hér fram. Ég lagði það til ásamt formanni nefndarinnar að málið yrði afgreitt, hreinlega af þeim ástæðum að það lá fyrir að þannig var litið á, a.m.k. frá hendi sjúkraliða, að þarna væri á ferðinni mál sem tengdist beinlínis lausn kjarasamninganna. Það er þess vegna mjög mikilvægt, og ég tek undir með þeim sem það hafa sagt hér í kvöld, að auðvitað er eðlilegt að málið verði afgreitt frá þinginu. Það er enginn bundinn af því með hvernig hann greiðir atkvæði ef málið kemur til afgreiðslu þingsins. Það verður auðvitað að fara eins og fara vill með það. En það er ekki eðlilegt að málið dagi upp í nefnd, ekki mál sem kemur til meðferðar þingsins eins og hér hefur gerst.
    Ég vil líka taka það fram vegna þeirrar yfirlýsingar sem var lesin upp frá framsóknarmönnum sem sátu þarna og kvennalistakonum að sú yfirlýsing kom ekki fram á fundinum sjálfum. Það kom fram að þau ætluðu að búa til einhverja yfirlýsingu, en ég heyrði hana ekki fyrr en nú og ég held að hún hljóti að hafa verið samin alfarið eftir að fundinum lauk. Ég ætla ekkert að setja út á þá yfirlýsingu, en ég vildi bara að að kæmi fram að hún var ekki rædd á fundinum og kom ekki þar fram.
    Ég vona að hv. formaður nefndarinnar treysti sér til þess að skoða það hvort ekki sé hægt að fá

málið til afgreiðslu í sölum þingsins.