Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:30:55 (5083)


[01:30]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vildi bara halda áfram mínum útskýringum frá því áðan, virðulegi forseti.
    Það er eitt sem skiptir máli í þessu sambandi. Auðvitað ganga stjfrv. fyrir stjórnarflokkana áður en þeim er útbýtt á Alþingi. En í þessu tilfelli, þegar var verið að ganga frá þessum kjarasamningi, þá gáfu ráðherrarnir þetta fyrirheit án þess að hafa áður haft tækifæri til þess að bera það undir sína þingflokka og auðvitað var það ekki síst þess vegna sem þeir gátu ekki gefið fyrirheit um að málið yrði endanlega afgreitt á Alþingi heldur gátu þeir eingöngu gefið fyrirheit um að málið yrði lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar og það var síðan fallist á það af hálfu stjórnarflokkanna.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson spurði líka að því hvort það ætti ekki að felast í því þingleg meðferð að málið yrði lagt fyrir þingið. Auðvitað er það þingleg meðferð þegar mál fer til nefndar og nefndin síðan tekur afstöðu til þess hvort hún afgreiðir málið eða ekki. Það er hin þinglega meðferð, en það er ekki þar með sagt að nefndin þurfi að afgreiða mál frá sér. Og allar getgátur í þá átt að öll mál beri að afgreiða úr nefndum eru auðvitað fjarstæðukenndar, eins og menn vita sem lesa þingsköpin öðruvísi heldur en skrattinn Biblíuna.