Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:35:43 (5085)


[01:35]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessum umræðum af hálfu talsmanna Sjálfstfl. að málið hafi ekki verið fullunnið í nefndinni að þeirra mati. það liggur fyrir og kom mjög glögglega fram, m.a. í máli hv. 5. þm. Norðurl. e., að þetta mál er mikið ágreiningsefni og þetta mál er mjög viðkvæmt að því leytinu að þetta er ágreiningsefni milli starfsstétta. Þetta er ágreiningsefni milli heilbrigðisstétta og þetta er ágreiningsefni milli annars vegar heilbrigðisstétta og hins vegar ófaglærðra starfsstétta sem vinna innan heilbrigðisstofnana. Þannig að það liggur fyrir að þetta mál er mjög vandmeðfarið. Þetta er ekki einfaldlega þannig, eins og mér hefur fundist sumir láta liggja að, að þetta mál sé einfalt að því leytinu að hér sé bara verið að fjalla um hagsmuni einnar stéttar inni á sjúkrahúsunum því að þetta mál snertir um leið starfssvið og starfskjör þar með annarra heilbrigðisstétta. Þess vegna mega menn ekki tala með þeim hætti að hér hafi bara verið að takast á viljinn um það hvort hægt væri að leysa mál gagnvart sjúkraliðum eða viljinn um það að leysa það ekki, vegna þess að málið er einfaldlega flóknara. Málið er eins og þeir vita sem

hafa kynnt sér það flóknara að því leytinu að það er verið að takast þarna á um hagsmuni fólks þar sem þessir hagsmunir fara ekki að öllu leyti saman.
    Annað atriði hefur líka komið fram mjög glögglega í þessari umræðu, sem hv. 4. þm. Austurl. dró fram, og það er sú staðreynd að það lá fyrir að ef stjórnarandstaðan hefði kært sig um þá gat hún auðvitað sameinuð ásamt fulltrúa Alþfl. í heilbr.- og trn. knúið fram þetta mál. ( Gripið fram í: Hún kærði sig ekki um það.) En hún kærði sig bara ekki um það, það er alveg rétt. Hún kærði sig ekki um það þannig að niðurstaðan varð þessi sem við þekkjum. (Gripið fram í.) Það er ekki undarlegt að hv. þm. Guðni Ágústsson sé orðinn órólegur þegar verið er að benda á svo augljósa hluti. Honum líður illa undir þessu. En þetta eru bara einfaldlega staðreyndirnar. Og ég veit að þó að hv. þm. sé stundum laginn við að hlaupa frá hlutum þá getur hann ekki hlaupið frá staðreyndum og þetta eru þær. ( GÁ: Þetta er ómerkilegt.) Staðreyndirnar eru ekki mjög ómerkilegar, hv. þm. ( GÁ: Farðu yfir þær.) Ég var að fara yfir þær og ég vil biðja hv. þm. um að reyna að hlusta, tala minna en hlusta aðeins meira. Það kæmi örugglega mjög að gagni í þessari umræðu. ( GÁ: Ekki þessa ræðu.)
    Málið snýst einfaldlega um tvennt. Það hefur ekki verið skorið úr ágreiningsatriðum í mjög viðkvæmu máli annars vegar og hins vegar hitt sem hv. 4. þm. Austurl. dró svona rækilega fram hérna áðan og skiptir mjög miklu máli, að ef stjórnarandstaðan hefði sameinuð viljað standa að því að knýja þetta mál fram þá liggur það fyrir að hún hafði til þess afl, en hún beitti því ekki og það er kjarni þessa máls.