Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:08:53 (5199)



[18:08]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Herra forseti. Frá því hlé var gert á umræðum um þetta mál fyrr í dag hefur verið unnið að því að móta tillögur sem gætu orðið grunnur að samkomulagi um afgreiðslu þessa máls á þessu þingi. Ég ásamt fleirum hef rætt við ýmsa hv. þm. og niðurstaðan varð sú að meiri hluti samgn. flytur tillögur um breytingu á vegáætlun sem birtast á þskj. 905. Þessar tillögur eru ætlaðar til þess að það geti orðið friður um að afgreiða málið hér í þinglokin og vonast ég til að svo megi verða. Tillögurnar fela það í sér að koma til móts við tillögur minni hluta samgn. að verulegu leyti. Þær fela það í sér að færðar eru 100 millj. kr. til Austurlands, 64 millj. kr. til Vestfjarða og 32 millj. kr. til Vesturlands. Þetta gerist með tvennum hætti: Í fyrsta lagi er um að ræða tilfærslu á fé til stórverkefna þannig að ekki er lengur um framlag að ræða sem þessari fjárhæð nemur af hinu almenna vegafé heldur er þetta hluti kjördæmisins og bætir þannig hlut þessara kjördæma um þær tölur sem hér eru nefndar.
    Varðandi það sem hér hefur verið sagt um þessar 50 millj. kr. til Austurlands, þá er það rétt að það hafi verið gert þannig að það fé hafi verið lánað til Austurlandskjördæmis og því lánsfé skipt til tiltekinna vega þar, en með þeim hætti er það afdráttarlaust í tillögum nefndarinnar, og vonandi afgreiðslu Alþingis, þannig að þetta sé orðið að fé sem ekki verður frá Austurlandi tekið.
    Í öðru lagi er helmingi þessarar fjárhæðar í hverju kjördæmi fyrir sig náð með því að taka það af óráðstöfuðum liðum stofnvega og skiptist eins og í fyrri liðnum, þ.e. 16 millj. til Vesturlands, 32 til Vestfjarða og 50 til Austurlands og eru þessar fjárhæðir færðar óskiptar á verkefni árin 1997 og 1998.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að óskiptu fé af tengivegum verði ráðstafað að verulegu leyti þannig að 36 millj. kr. samtals komi í hlut fjögurra kjördæma, þ.e. 13 millj. til Suðurlands, 6 millj. til Reykjaness, 9 millj. til Norðurlandskjördæmis vestra og 8 millj. til Norðurlandskjördæmis eystra.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess vegna þess að hér eru þinglok fram undan og með tilliti til þess samkomulags sem ég tel að hafi náðst um þetta mál þá stytti menn almennar umræður og leitist við að ganga til afgreiðslu á þessu máli.