Afgreiðsla frv. um tóbaksvarnir

108. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 20:17:49 (5227)


[20:17]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Orðum mun vera beint að mér í þessu tilfelli. Ég vil aðeins í upphafi fá að svara þeim þrem hv. þm. sem hér hafa talað. Í fyrsta lagi hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og þá óska ég eftir að hún útskýri frekar hver þau ólýðræðislegu vinnubrögð eru sem hún talaði um hér áðan þar sem hún krafðist lýðræðislegrar afgreiðslu málsins. Ég skal fara aðeins betur yfir afgreiðslu málsins rétt á eftir.
    Ég vil einnig biðja hv. þm. Tómas Inga Olrich að færa orðum sínum stað þegar hann talar um að ótakmarkaður ræðutími sé nýttur með þessum hætti. Ég vil minna þingmanninn á að 2. umr. stendur yfir og það hefur verið flutt ein ræða fyrir utan framsögu fyrir nál. Sú ræða stóð í 40 mínútur og vil ég biðja þingmanninn að líta yfir sögu þingsins og yfir hversu langar ræður hafa yfirleitt verið.
    Síðan kom hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og gagnrýndi á svipuðum nótum. Hv. þm. sem fyrir örfáum dögum undir málinu náttúruvernd, hygg ég að það hafi heitið á þskj., talaði í fimm tíma. Eru þessir þingmenn sammála um það að þessar 40 mínútur séu misnotkun á ræðutíma? Ég bið menn aðeins að færa orðum sínum stað.
    Nú ætla ég aðeins að fara yfir gang þessa máls. Það var mælt fyrir málinu 31. jan., fyrir rétt rúmum þremur vikum. Það kom til 2. umr. í dag. Það var flutt stutt framsaga fyrir nál. af varamanni í heilbr.- og trn. og það var einn þingmaður sem talaði. Það var sá sem hér er. Hann talaði í 40 mínútur og þá frestaði hann ræðu sinni að beiðni forseta. Síðan hefur málið verið á dagskrá í allan dag. Sá sem hér stendur ræður ekki störfum þingsins, hann ræður ekki hvenær málin eru tekin fyrir. Hann gat ekki klárað sína ræðu vegna þess að málið var aldrei tekið fyrir. Hvað eru þessir hv. þm. eiginlega að gagnrýna? Eru þeir að gagnrýna þessar 40 mínútur?
    Ég bið velflesta hv. þm. að líta í eigin barm. Ætli þeir hafi aldrei farið yfir 40 mínútna markið? Mig minnir að stundum sé talað um eitt ,,hjörl`` og mér er sagt að það séu 45 mínútur. ( Gripið fram í: Nei, það eru þrjú, það er kortér.) Ég bið menn aðeins að gæta sín hvað þeir eru að tala um. Ég við biðja hv. þm. Tómas Inga Olrich sem talar af heilagleik að líta í eigin barm varðandi sjúkraliðamálið til að mynda eða störf hans í hv. menntmn. þar sem fyrir tveimur og þremur árum lá fyrir frv. um sjóð fyrir unga afreksmenn þar sem 26 þingmenn voru á skjalinu. Og hvað gerði hv. nefnd? Hún misbauð þinginu ár eftir ár með því að hleypa málinu ekki út þó að greinilegur meiri hluti væri fyrir því.