Átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:41:11 (121)


[13:41]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um að gera átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi og hún komst það langt í afgreiðslu iðnn. að það átti rétt aðeins eftir að kalla til viðtals nokkra aðila til að ganga frá málinu. Ég reikna með að því ljúki fljótlega á þessum vetri.
    Tillagan er flutt af mér og hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, Eggert Haukdal, Steingrími J. Sigfússyni, Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni og Sigbirni Gunnarssyni.
    Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir að gert verði sérstakt átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína í dreifikerfi á þeim svæðum þar sem mest veðurálag er eða æskilegt er frá umhverfissjónarmiði að þær hverfi. Ríkisstjórnin leggi fram, sem lið í atvinnuátaki, sérstakt fjármagn til þessara framkvæmda.``
    Greinargerð með tillögunni er svohljóðandi:
    ,,Mjög mikið tjón hefur orðið á raflínum á undanförnum árum og hefur það valdið miklu tjóni, sérstaklega í sveitum og dreifðum byggðakjörnum. Varla þarf að lýsa þeim erfiðleikum og hættum sem viðgerðarmenn hafa búið við og verið samfara viðgerðum við hrikalegar veðurfarsaðstæður.
    Þar til fyrir 2--3 árum hefur ekki verið fjárhagslegur grundvöllur fyrir framkvæmdum af þessum toga en samkvæmt upplýsingum Rarik er orðið ódýrara að leggja jarðstreng en reisa nýjar loftlínur.
    Jarðstrengir hafa lækkað umtalsvert í verði og er heildarkostnaður um 80--90% af kostnaði við tréstauralínur.`` --- Það er rétt að ítreka að það er ekki meira. Þetta er hámark sem þarna er getið um.
    ,,Rafdreifilínur eru um 7.000 km langar á Íslandi. Mjög víða hagar þannig til að auðvelt er að plægja niður strengi jafnvel þótt jarðvegur sé grýttur og væri þannig auðvelt að koma fyrir jarðstrengjum

því að meginhluti lína liggur á þannig svæðum.
    Íbúar í sveitum hafa orðið að búa við kulda og ljósleysi vegna rafmagnsleysis allt að 7--8 dögum þegar verstu veður hafa gengið yfir.`` --- Við getum hugsað okkur það ef íbúar í þéttbýli þyrftu að búa við rafmagnsleysi í sjö til átta daga. Ég vona að menn geri sér grein fyrir því hvað um er að ræða þegar slíkt ástand er. Þetta hefur verið þannig þegar verstu veður hafa gengið yfir. --- ,,Mikil tæknivæðing við meðferð mjólkur og gripafóðrun hefur átt sér stað tengd raforku og skapast mikil vandamál einnig af þeim sökum þegar rafmagnsleysi verður eins og kunnugt er. Af þessum ástæðum, svo og af fjölmörgum öðrum, er eðlilegt að ríkisstjórnin setji fjármagn til þessa verks sem yrði tengt atvinnuátaki sem skilar sér sem trygging fyrir öruggari búsetu á landinu.
    Hlutföll milli vinnu og efnis við framkvæmd þá sem hér er um rætt eru: Efni 65--70%, vélavinna 15--20% og mannvinna 10--20%. Í þessari tillögu er miðað við að vinnulaunaþáttur verði fjármagnaður af ríkisfé enda verði verkefnið atvinnuátakstengt.
    Oft er rætt um að sjónmengun sé af raflínum og að þær séu lýti á landslagi. Á það er ekki lagður dómur með þessari tillögu en hún kemur þó til móts við sjónarmið þar að lútandi. Fyrst og fremst er verið að hugsa um öryggismál, hagkvæmni og atvinnuaukningu og má benda á að miðað við núverandi vaxtakjör stendur jákvæður mismunur á kostnaði við að leggja rafstreng í jörð undir kostnaði af lántöku vegna framkvæmdanna.``
    Ég vil aðeins til viðbótar vitna til þess sem er síðast í fylgiskjali á bls. 3, í kaflanum Samantekt og niðurstöður, með leyfi forseta:
    ,,Fram undan er síðan endurnýjun á dreifikerfunum, en ljóst er að á útsettum stöðum er komið að því að endurnýja þarf kerfishluta sem eru orðnir úr sér gengnir vegna tæringar, áraunar og slits. Til þessa verkefnis hafa Rafmagnsveitur ríkisins varið 164 millj. kr. á undanförnum þremur árum til viðbótar við almennt viðhald. Upp úr næstu aldamótum má gera ráð fyrir að verja þurfi árlega a.m.k. 168 millj. kr. í þessu skyni.``
    Frú forseti. Ég mælist til að tillögunni verði að lokinni umræðu vísað til hv. iðnn.