Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 14:19:47 (134)


[14:19]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan strax í upphafi ræðu minnar til að forðast að skapa nokkra spennu í salnum svara síðustu spurningunni strax. Það stendur ekki til að ríkisstjórnin fari frá og það stendur ekki til að efnt verði til kosninga fyrr en í vor, þannig að því sé svarað þegar í upphafi. Á hinn bóginn vil ég nefna að mér finnst málatilbúnaðurinn og aðdragandinn að þessari umræðu athyglisverður, sérstæður um margt. Ég hygg, að það séu liðnir á þriðja tug daga síðan einn af stjórnarandstöðuflokkunum hér á Alþingi tilkynnti að hann mundi bera fram vantraust á ríkisstjórnina. Það hefur ekki bólað á þessari vantrauststillögu frá stjórnarandstöðunni eða frá þessum flokki og ég hygg að það sé einsdæmi að vantrauststillaga sé svo lengi á leiðinni. Kannski felst í þessari staðreynd óbeint traust á ríkisstjórninni að meira að segja flokkur sem hefur lýst því yfir að nú verði lagt fram vantraust á ríkisstjórnina geti ekki komið sér til þess og þarf til þess næstum því 30 daga. Það má vel vera að hinir flokkarnir hafi ekki kunnað að meta það að Kvennalistinn tók frumkvæði með þessum hætti í málinu, þess vegna hafi Kvennalistinn hægt á sér og ekki haft sig í að bera fram vantraust á ríkisstjórnina.
    Ég hygg að það hafi verið eitt fyrsta verkefni nýkjörins formanns þingflokks Framsfl., ég vil nota tækifærið til að óska honum til hamingju með það kjör um leið og ég þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir mjög traust og ánægjulegt samstarf en hann gegndi því starfi, en ég hygg að það hafi verið fyrsta embættisverk eða eitt af því fyrsta hjá núv. formanni þingflokks Framsfl. að hafa samband við mig og orða þessa umræðu. Og ég hygg að ég sé ekki að ljósta upp neinu leyndarmáli úr tveggja manna tali að ég sagði við hann: Viltu ekki bara flytja vantraust á ríkisstjórnina? Nei, hann vildi það nú ekki, hann vildi bíða eitthvað með það þannig að Kvennalistinn kemur sér ekki til að flytja vantraust á ríkisstjórnina, Framsfl. meira að segja er með hálfgerða beiðni frá forsrh. en það dugir ekki til. Hér hefst hins vegar eins konar vantraustsumræða án tillögu. Það er afar sérkennileg málsmeðferð svo að ekki sé nú meira sagt. Ef ég skildi útvarpsfréttirnar rétt, þá ætlar síðan stjórnarandstaðan að meta það eftir þessar umræður, hvort efni og ástæður séu til að flytja vantraust á ríkisstjórnina. Það liggur sem sagt ekki fyrir nægjanleg þekking stjórnarandstöðunnar á störfum ríkisstjórnarinnar eftir þrjú og hálft ár til þess að hún geti gert upp við sig að flytja vantraust á ríkisstjórnina. Hún þarf að fá þessa umræðu líka til þess og svo væntanlega þá aðra vantraustsumræðu eins og við erum stödd í núna eins og ég skil málið. ( Gripið fram í: Þeir þurfa önnur fjögur ár.)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
    Hv. 1. þm. Austurl., málshefjandi þessarar umræðu, sagði hins vegar að ástæðan fyrir umræðunni væri vaxandi vantrú á ríkisstjórninni og að stjórnarandstaðan vildi hafa mál á hreinu. Það væri hluti af aðdragandanum að einn af ráðherrum úr ríkisstjórninni, hæstv. fyrrv félmrh., hafi gefist upp á ríkisstjórnarsamstarfinu eins og hv. þm. orðaði það. Ég kannast reyndar ekki við að hæstv. fyrrv. félmrh. hafi lýst ástæðum brottfarar sinnar úr ríkisstjórninni með þessum hætti og þar sem mikið er nú rætt um trúnaðarbrest á milli ráðherra, þá get ég a.m.k. fullyrt að ástæðan fyrir því að fyrrv. félmrh. fór úr ríkisstjórninni var ekki trúnaðarbrestur á milli mín og ráðherrans. Engum slíkum trúnaðarbresti var til að dreifa og ég tel að ég og hæstv. fyrrv. félmrh. höfum ætíð haft fullan trúnað og traust á milli okkar og við höfum bæði getað treyst þeim orðum sem við sögðum hvort við annað og vonandi verður það þannig í framtíðinni.
    Þá er hitt eftir hvort nú sé komin upp slík staða og slíkt vantraust innan ríkisstjórnarinnar og milli manna að ríkisstjórninni sé ekki vært af þeim sökum. Hv. 1. þm. Austurl. rakti nokkur ummæli úr úrklippusafni sínu til þess að ýta undir þá röksemd að vantraust milli manna væri orðið slíkt að þeim væri ekki fært að sitja saman í stjórninni. Reyndar vantaði nú nokkur ummæli í úrklippusafnið sem hefðu getað gengið í þveröfuga átt. Til að mynda ein ummæli sem ég viðhafði aðspurður í sjónvarpinu varðandi

hæstv. félmrh. núv. þar sem ég sagðist hafa persónulega á honum traust. En hv. þm. sagði hér að ég hefði ekki lýst neinu slíku yfir. Ég gerði það og sé ekki ástæðu til þess að draga fjöður yfir það.
    Þá sagði hv. þm. að ein ástæðan enn fyrir vaxandi vantrausti á ríkisstjórninni væri sú að einstakir ráðherrar hefðu staðið fyrir eins og hann orðaði það embættislegum veitingum af pólitískum toga. Það er alveg örugglega rétt hjá hv. þm. að það hafa ráðherrar gert og það hafa allir ráðherrar gert fyrr og síðar í þessu landi og í öllum löndum, staðið að embættaveitingum af pólitískum toga. Það er ekki hægt að minnast á neina ríkisstjórn eða neinn ráðherra sem ekki hafi staðið fyrir embættaveitingum af pólitískum toga. Reyndar er það gert í stærri stíl og víðar annars staðar heldur en hér á landi, til að mynda í Bandaríkjunum þar sem gert er ráð fyrir að það sé skipt um, sumir tala um allt að 200 þús. manns, eftir hverjar forsetakosningar af hreinum pólitískum toga.
    Ég sá eftir fræðimanni haft við háskólann að erlendis hefðu ráðherrar ekki með mannaráðningar að gera. Þetta er ekki merkileg fræðimennska. Til að mynda hefur breski forsætisráðherrann persónulega með ráðningar á hunduðum manna að gera, meira að segja biskup, hvað þá heldur annað. Auðvitað er það svo að ráðherrar standa fyrir embættaveitingum af pólitískum toga. En það er auðvitað spurning, það er rétt hjá hv. þm. að slíkar veitingar geta út í öfgar gengið, en það getur ekki verið gagnrýnisatriði af hálfu formanns Framsfl. að menn séu með embættaveitingar af pólitískum toga. Það hefur Framsfl. svo sannarlega í gegnum tíðina gert og oft ráðið ágæta menn þó pólitísk sjónarmið hafi verið höfð þar til hliðsjónar og mætti nefna mörg dæmi um það.
    Að þessu frátöldu taldi hv. 1. þm. Austurl., formaður Framsfl., að slíkt vantraust væri komið upp á milli mín og hæstv. utanrrh. að við gætum ekki saman starfað og það væri þá meginröksemdin fyrir því að stjórnin ætti að fara frá. Ég hef átt mjög gott samstarf við hæstv. utanrrh. Það breytir ekki hinu að okkur greinir á um nokkur mál og allmörg mál sem kemur engum á óvart. Hann er formaður í einum stjórnmálaflokki og ég í öðrum. Jafnvel innan stjórnmálaflokks greinir menn á, hvað þá milli flokka og auðvitað greinir menn á. En sá ágreiningur er ekki í því fari og fjarri því að hann ætti að leiða til þess að þessir flokkar gætu ekki saman starfað. Ég held nefnilega að það séu ekki einstök ummæli sem tekin eru úr ræðum manna eða viðtölum sem segja til um það hvort nægilegur trúnaður sé milli manna og traust til samstarfs að þeir geti áfram unnið heldur þau verk sem þeir skila og auðvitað er ágreiningur milli mín og hv. 1. þm. Austurl., formanns Framsfl., um það hvort ríkisstjórnin hafi skilað góðu eða slæmu starfi, en ég leyfi mér að fullyrða að árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sé einhver sé besti og mesti sem nokkur ríkisstjórn hafi náð við jafnerfiðar aðstæður. Og ég segi: Ríkisstjórn sem nær slíkum árangri hlýtur að hafa andrúmsloft til vinnufriðar innan sinna raða ella næði hún ekki slíkum árangri. Það er ekki hægt að taka einhver ummæli héðan og hvaðan og reyna að láta þau sannfæra menn um að það sé ekki nægilega góður starfsandi innan þessarar ríkisstjórnar.
    Það vita allir um það og ekkert er undan dregið að það er meginágreiningur milli mín og hæstv. utanrrh. um það hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég held því fram og reyndar heldur Evrópusambandið því fram líka að það sé ekkert inni í neinni mynd fyrr en upp úr aldamótum. Ég held því fram að ríkisstjórnin og reyndar Alþingi hafi árið 1992 tekið ákvörðun um það að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Ég held því fram að þessi spurning rísi ekki á ný fyrr en árið 2000, hið fyrsta. Ég held þessu fram --- og reyndar halda allir forráðamenn Evrópusambandsins slíku fram líka --- þannig að ég lít svo til að ágreiningur okkar hæstv. utanrrh. um þetta efni sé ekki ríkisstjórninni skaðlegur, tefji ekkert fyrir störfum hennar eða skaði þau á neinn veg, af því að á þetta mun ekki reyna fyrr en um aldamótin þannig að ég hef ekki áhyggjur af þessum þætti málsins. ( Gripið fram í: Utanrrh. er í ríkisstjórninni.) Ja, það skal ég segja þér, hv. þm., hann er það. Ég vona að það séu ekki fleiri slík augljós atriði sem hafa farið fram hjá hv. þm. því að þá hlýtur hann að eiga erfitt um störf.
    Hv. 1. þm. Austurl. nefndi það að vegna þessa ósamlyndis sem hann vildi meina að væri í ríkisstjórninni þá gengju menn ekki fram í að undirbúa þau þýðingarmiklu mál sem snertu breytingar í tilefni þess að hinar norrænu þjóðir þrjár, sem um aðild sækja nú, mundu hugsanlega, jafnvel væntanlega ganga inn í Evrópusambandið eftir þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég fullyrði að þetta undirbúningsstarf er í góðum gangi og ég tek mark á fullyrðingum forráðamanna Evrópusambandsins um að við þurfum ekki að hafa af þessum málum áhyggjur, þessi mál verði leyst. Þeir hafa fullvissað okkur um það, en það verður ekki gert fyrr en menn sjá niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunum.
    Það er mikið talað um síldina og þetta hefur orðið stórmál í heilmörgum fréttatímum. Ef allt færi á versta veg með síldina þá eru það hagsmunir upp á 34 millj. kr. En það eru engar líkur að allt fari á hinn vesta veg með síldina. Þvert á móti standa allar líkur til þess að það mál verði leyst en við fáum ekki úr því skorið endanlega fyrr en í formlegum viðræðum sem hefjast ekki fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar í Skandinavíulöndunum.
    Ég hef tekið eftir því sem hv. þm. og málshefjandi nefndi að norskir stjórmálamenn halda því fram núna á lokadögum baráttunnar um aðild eða ekki aðild að EES-samningarnir muni ekki halda. Ég er sammála hv. þm. um að þetta er rangt og ég er undrandi á því hversu norskir stjórnmálamenn leyfa sér að ganga langt í kappsmáli og baráttu sinni fyrir ESB-aðild. Ég hef á hinn bóginn verið viðstaddur blaðamannafund þar sem Gro Harlem Brundtland var spurð um þessi atriði og svaraði aðgerlega hinu gagnstæða til, að ef þetta yrði fellt í Noregi þá hefðu þeir EES-samninginn og hann væri í fullu gildi, yrði í

fullu gildi og þeir hefðu þar samning þannig að að því leyti væri engin katastrófa fram undan hjá Norðmönnum. Því kemur mér þessi áróður í kosningabaráttunni vissulega á óvart.
    Varðandi aðra þá þætti sem hv. þm. nefndi þá vil ég víkja nokkrum orðum að vinnunni varðandi undirbúning staðfestingar okkar á GATT-samkomulaginu. Starfshópur ráðuneytanna sem að mállinu koma hafa verið í fullri vinnu við að undirbúa það mál. Það var lengi mjög á huldu hvort lykilþjóð í þessari samningsgerð allri, Bandaríki Norður-Ameríku, mundu staðfesta þennan samning eða ekki. Nú er almennt talið að þau muni staðfesta samninginn fyrir áramót. Þó að málinu verði frestað fram yfir kosningar, þingið verður kallað saman á nýjan leik, þá muni verða meginsátt milli stóru flokkanna bandarísku um að afgreiða málið fyrir áramót samkvæmt þeim heimildum sem við höfum. Ég tel mikilvægt að við fyrir okkar leyti afgreiðum málið líka fyrir áramót. Ég tel að á því eigi ekki að þurfa að vera nein vandræði, þau eigi að geta gengið fram. Nefndastarfið að undirbúningi gengur vel og ég á von á því að þau mál verði kynnt fyrir ríkisstjórninni á næstu dögum.
    Varðandi matarskattinn sem hv. þm. nefndi, þá verð ég nú að segja eins og er að ég tel að í þessari löngu skýrslu Ríkisendurskoðunar komi nú ekki margt nýtt fram sem ekki var vitað áður. Það er vitað um ýmsa þá annmarka sem á framkvæmdinni væru. Það var vitað að menn gætu gefið sér, að hinir efnameiri fengju jafnvel fleiri krónur út úr breytingunni heldur en hinir tekjulægstu, það var allt vitað. En það var líka vitað að breytingin væri miklu þýðingarmeiri fyrir hina tekjulægstu heldur en hina tekjumeiri, miklu stærri hluti tekna þeirra færu í matarkaup þannig að þeir stæðu miklu betur eftir en áður. Og meginniðurstaðan í skýrslunni sem máli skiptir er sú að lækkunin skilaði sér, hún gekk fram, en það voru miklar efasemdir á lofti um það að matarskattslækkunin mundi skila sér, en það er meginniðurstaðan að hún skilaði sér, það er meginniðurstaðan.
    Mér þykir mjög merkilegt ef Framsfl. ætlar að fara með það sem sitt höfuðbaráttumál fyrir næstu kosningar að hækka matarskattinn. Mér finnst afar sérstætt ef það verður höfuðbaráttumál Framsfl. fyrir næstu kosningar að hann muni berjast fyrir því að hækka matarskattinn, það fyndist mér afar sérstætt, en það verður fróðlegt að heyra það, hvort það verður eitt af þeim málum sem Framsfl. muni setja á oddinn.
    Varðandi atvinnuleysið sem hv. þm. nefndi, þá er það auðvitað þannig að sérhver maður, jafnt stjórnarsinnar sem stjórnarandstæðingar sem allur almenningur í landinu hefur auðvitað áhyggjur af atvinnuleysi. Sama er með öðrum þjóðum þar sem atvinnuleysi er margfalt á við það sem hér gerist. Ég er viss um það að stjórnmálamennirnir þar, hvaða flokkar sem eru þar í stjórnarforustu, hafa miklar áhyggjur af atvinnuleysinu þó þeim hafi ekki tekist að koma því niður fyrir 14--15% eins og í Belgíu þar sem reyndar höfuðstöðvar Evrópusambandsins eru, en Háskóli Íslands telur að til að tryggja atvinnustigið eigum við einmitt að ganga í Evrópusambandið. Það er dálítið merkileg skoðun það. En auðvitað hafa allir þessir aðilar miklar áhyggjur af atvinnuleysinu. Það höfum við, en það dregur ekki úr því að það gleður auðvitað okkar huga og okkar hjarta þegar varnarbaráttan gegn atvinnuleysinu heppnast, þegar tekst að minnka atvinnuleysið frá því sem spáð var, þegar tekst að minnka atvinnuleysið frá því sem spáð var, þegar tekst að mæta vaxandi fjölda á vinnumarkaði þannig að atvinnuleysið eykst ekki af þeim sökum. Og þegar sést núna í könnunum, í fyrsta sinn í langan tíma þegar forráðamenn fyrirtækja eru spurðir eru þeir ekki að fara að fækka hjá sér fólki eins og þeir hafa svarað í öllum könnunum fram að þessu, heldur að fjölga hjá sér fólki. Það er alveg ljóst að sá efnahagsbati sem þegar er orðinn hefur verið nýttur til þess að grynnka á skuldum fyrirtækjanna. Það sést á öllum tölum. Í framhaldinu munu fyrirtækin auðvitað fara í fjárfestingar og sú staðreynd mun styrkja atvinnustigið. Þess vegna erum við bjartsýn hvað það varðar.
    Hv. þm. sagði að ég hefði gefið til kynna að deilan um störf hæstv. félmrh. væri mál Alþfl. Hv. þm. var andvígur þeim skilningi mínum og sagði að auðvitað væri þetta mál ríkisstjórnarinnar allrar og mitt mál sérstaklega. Svona mál hafa komið upp áður, ekki algerlega samkynja. Þá var það viðhorf formanns Framsfl. þáv. að slík mál væru alfarið mál þess flokks sem þá var í stjórn með Framsfl. Hv. þm. sat í þeirri ríkisstjórn og ég man ekki til þess að hann hafi nokkurs staðar, a.m.k. ekki opinberlega, gert grein fyrir því að hann væri andvígur þeim skilningi fyrirrennara síns í formannsstól Framsfl., sem marglýsti því yfir að það mál sem þá var til umræðu væri algerlega mál samstarfsflokksins, ekki mál hans sem forsrh. né Framsfl., hann marglýsti því yfir. Ég hef því með mínum ummælum og sjónarmiðum algerlega fylgt því mati sem þáv. formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, hafði og ég hygg varaformaðurinn einnig, a.m.k. lét hann ekki afstöðu sína í ljós neins staðar eða aðra skoðun á málinu. Ég tel mikilvægt í íslenskri stjórnskipun að það sé samkvæmni í skilningi af þessu tagi. Það gildi ekki eitt í dag og annað á morgun, eitt í dag og annað í gær.
    Hv. þm. sagði það sitt mat að hæstv. utanrrh. nyti ekki trausts samstarfsflokksins. Ég tel að hann hafi ekki getað sýnt fram á í ræðu sinni að hæstv. utanrrh. nyti ekki trausts samstarfsflokksins. Það gerir hann auðvitað. Hins vegar eru dæmi um það að utanrrh. hafi setið í ríkisstjórn þó þeir nytu ekki trausts samstarfsflokksins þó það væri ótvírætt. Ég minni á einn formann Framsfl. til og ekki ómerkari mann en Ólaf Jóhannesson sem var utanrrh. Það var alveg ljóst að hann naut þá ekki trausts Alþb. þegar hæstv. fyrrv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, var að byggja flugskýli. Þá var nú aldeilis hljóð í einum strokki í samstarfsflokknum Alþb. Þeir fullyrtu að honum væri þetta óheimilt og Alþb. mundi aldrei samþykkja það að hann fengi að byggja þetta flugskýli. Hvað sagði Ólafur Jóhannesson: Þið étið það eins og allt annað. Hvað

gerði Alþb.? Þeir átu það eins og allt annað. Þegar málið kom til umræðu í þinginu vakti það ekki bara athygli að Alþb. æti málið, þeir töluðu ekki einu sinni. Þáv. formaður þingflokksins, Ólafur Ragnar Grímsson hv. þm., hafði skýringu á því af hverju stjórnarflokkurinn talaði ekki. Það segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Nokkra athygli vakti að þingmenn og ráðherrar Alþb. tóku ekki þátt í þessum umræðum`` --- um flugskýlið og allt átið. --- ,,Var Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokksins spurður hverju það sætti. Þær voru fyrir neðan okkar ,,standard``, sagði Ólafur. Morgunblaðið spurði þá Ólaf hvort það væri rétt skilið að umræður á Alþingi væru stundum fyrir neðan ,,standard`` Alþb.? Já, sagði formaðurinn. Yfirleitt þær umræður sem stjórnarandstaðan stendur fyrir.``
    Þetta er lýðræðissinninn sjálfur. En hvað ætli væri sagt við mig, hv. þm. og þingheimur, ef ég hefði sagt við hv. 1. þm. Austurl.: Nei, ég ætla að sitja hér og segja ekki eitt einasta orð því umræðan sem stjórnarandstaðan stendur fyrir er fyrir neðan minn ,,standard``. ( Gripið fram í: Prófaðu.) Nei, það eru bara sumir sem geta sagt þetta og það er hv. leiðtogi þinn, hv. þm., sem getur sagt þetta. ( ÓRG: Þig dauðlangar til þess.) Ég verð að segja það að þessar umræður hljóta að hafa verið afskaplega lélegar fyrst þær voru fyrir neðan ,,standard`` Alþb. miðað við þann standard sem sá flokkur hefur á umræðum. Hæstv. forseti, ég læt lokið máli mínu.