Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 15:33:11 (138)


[15:33]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Við þær umræður sem hér fara fram þá er vegin og metin staða ríkisstjórnarinnar og þá hvort ástæða sé til að hún fari frá. Það er auðvitað hægt að vega og meta stöðu ríkisstjórnarinnar út frá ýmsum hliðum og ég vil staðnæmast hér við nokkra þætti.
    Spurningin er: Hvaða árangri hefur þessi ríkisstjórn náð? Og kannski einnig út frá því: Hefur þessi ríkisstjórn meiri hluta fyrir sínum málum sem hún vill ná fram á þessu þingi fyrir fjárlagafrv. til að mynda og fleirum málum sem ég vil koma hér að á eftir? Það er líka spurt hvort trúnaðarbresturinn og sundurlyndið sé það mikið innan og milli stjórnarflokkanna að hún sé óstarfhæf og hafi þá ekki burði til að takast á við brýnustu úrlausnarefni landsmálanna. Og er málefnastaða hennar slík og þær aðgerðir sem hún leggur upp með til að bæta lífskjörin að það sé kannski betra fyrir þjóðarhagsmuni að hún fari frá strax?
    Ég vil aðeins fara inn á þessa þætti og ég vil segja það fyrst að það er ekki með neinni sanngirni hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi ekki náð árangri til að mynda í efnahagsmálum. Við vitum að varðandi verðbólguna hefur náðst umtalsverður árangur. Viðskiptajöfnuð má nefna þar sem hefur náðst verulegur árangur, sem er forsenda þess að það hefur verið hægt að lækka hér vexti. Varðandi erlendar skuldir þá hefur skuldasöfnun verið stöðvuð og orðið reyndar nokkur raunlækkun á erlendum skuldum og það hefur náðst verulegur árangur í vaxtamálunum. Varðandi atvinnumálin og atvinnuleysið þá má segja að þarna hafi unnist ákveðinn varnarsigur þó vissulega sé atvinnuleysi enn þá mjög mikið. Við munum að það er ekkert langt síðan, tvö ár, síðan spáð var að atvinnuleysi gæti farið í 15 eða 20%.
    En mér finnst reyndar að í spá ríkisstjórnarinnar fyrir þetta og næsta ár þá sé spáin reist á mjög veikum grunni. Við höfum náð niður atvinnuleysinu til að mynda vegna átaksverkefna milli ríkis og sveitarfélaga, vegna fjármagns sem hefur farið í vegaframkvæmdir og viðhaldsverkefni, sem hefur skapað um 3.000 störf á þessu og sl. ári og spurning hvort framhald verði á þessum átaksverkefnum ríkis og sveitarfélaga. Það er alveg ljóst að það á ekki að setja peninga í þessar vegaframkvæmdir eða viðhaldsverkefni áfram. Þvert á móti er talað um mikla lækkun á fjárfestingu, 25% niðurskurð sem er um 3 milljarðar kr. og það er alveg ljóst að það mun magna upp samdráttareinkennin í þjóðfélaginu og auka hér atvinnuleysi. Þess vegna tek ég með mikilli varfærni því sem haldið er hér fram að við munum hafa atvinnuleysi hér sem verður innan við 5% á næsta ári. Ég held að það sé miklu nær því að verða 6 eða 7%.
    Síðan þarf að vega það og meta hvernig þessi árangur er fenginn sem við erum að tala um. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna þeirrar þjóðarsáttar sem komst á milli aðila vinnumarkaðarins og reyndar ríkisvaldsins og það hefur orðið veruleg fjármunatilfærsla í þessu þjóðfélagi frá launafólki yfir til atvinnulífsins. Við erum að tala um að það er flutt skattbyrði frá fyrirtækjum sem nemur sennilega 5--6 milljörðum kr. yfir til launafólks og það er auðvitað stærsti hlutinn af því að hér hefur náðst árangur. Við vitum og það er ekkert hægt að mótmæla því að það hefur verið þrengt að velferðarkerfinu á ýmsum sviðum, ekki síst í heilbrigðis- og menntakerfinu og árangurinn er líka fenginn með þeirri búbót sem verið hefur í Smuguveiðunum, sennilega upp á 3--4 milljarða. Útflutningur hefur aukist og bati í alþjóðlegum efnahagsmálum sem hér hefur m.a. skilað sér í verulega auknum tekjum í ferðamannaþjónustunni. Þetta eru nú helstu þættirnir og hitann og þungann af þessu öllu hefur launafólkið borið. Ýmislegt má benda á annað sem ríkisstjórnin hefur náð árangri í, m.a. sem hæstv. utanrrh. nefndi varðandi EES-samninga og ýmis umbótamál hafa náð fram á kjörtímabilinu.
    En spurningin er, hefur ríkisstjórnin meiri hluta fyrir þeim málum sem hún leggur upp með nú á þessu síðasta ári sínu? Þar tala ég um fjárlagafrv. og auðvitað kemur það ekki í ljós fyrr en tekist er á um einstök mál í ríkisstjórninni, ekki síst þeirri stefnumörkum sem birtist fjárlögum. Stjórnarliðar hafa ekki enn sem komið er lýst yfir andstöðu við þá stefnumörkun eða einstaka þætti fjárlaga eða einstaka mál sem boðuð hafa verið og það er auðvitað æskilegt að það komi sem fyrst fram hvort meiri hluti ríkisstjórnarinnar sé svo tæpur að ástæða sé til að ætla að hún hafi ekki alla stjórnarliða á bak við sig.
    Það er ýmislegt sem mér kemur á óvart í fjárlagafrv. og í málum reyndar sem boðað er að verði flutt af hæstv. ríksstjórn, að Alþfl. og einstaka þingmenn hans ætli að standa að. Ég nefni hér að flokksþing Alþfl. lagði á það áherslu í sumar, þunga áherslu, eins og það er orðað í ályktun flokksþingsins, að það eigi að skattleggja fjármagnstekjur. Flokksþingið ályktaði um það að strax á þessu haustþingi yrði lagt fram frv. um fjármagnstekjuskatt sem kæmi til framkvæmda um nk. áramót. Og spurningin er sú í mínum huga: Mun Alþfl. beita sér fyrir því að lagt verði fram frv. um fjármagnstekjuskatt eða ætlar flokkurinn að sætta sig við að Sjálfstfl. ráði ferðinni í þessu máli? Er ágreiningur uppi milli stjórnarflokkanna varðandi fjármagnstekjuskattinn? Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að við höfum það fyrir okkur að það væri hægt frá og með næstu áramótum að fá töluverða fjármögnun til þess að skila þá yfir til láglaunafólksins með því að lækka skattbyrði á því ef það næðist samstaða um það mál. Það er alltaf borið fyrir sig tæknilegum erfiðleikum og að það hafi óæskileg áhrif á vaxtastig að taka hér upp fjármagnstekjuskatt. Ef svo hefur verið þá hefði flokksþing Alþfl. átt að gera sér grein fyrir því í sumar þegar var ályktað um þetta mál. Þess vegna spyr ég um það mál. Það eru öll lönd innan OECD sem hafa tekið upp fjármagnstekjuskatt í einni eða annarri mynd. Alþfl. hefur talað fyrir því að breikka t.d. eignarskattsstofninn, það sé auðveldasta leiðin og því er ástæða til að spyrja um það. Það kemur fram í fjárlögunum að það á enn þá að þrengja að velferðarkerfinu á ýmsum sviðum og þá spyr ég: Vill Alþfl. frekar standa að þeirri skerðingu í velferðarkerfinu en að berjast fyrir fjármagnstekjuskatti?     Sama má má spyrja varðandi hátekjuskattinn. Flokksþingið ályktaði t.d. um það að við ríkjandi aðstæður bæri að framlengja hátekjuskattinn. Hefur Alþfl. fallist á það með Sjálfstfl. að hátekjuskattur verði ekki framlengdur? Hv. formaður fjárln. hefur m.a. lýst þeirri skoðun sinni að hann telji að það eigi að framlengja hátekjuskattinn. Verður þetta mál tekið upp á síðari stigum eða er þetta endanlega afgreitt af hálfu stjórnarflokkanna?
    Ég spyr um annað mál. Það er það sem boðað er í málaskrá ríkisstjórnarinnar að það eigi að breyta Landsbankanum og Búnaðarbankanum í hlutafélagabanka. Er samstaða um það milli stjórnarflokkanna?

Hefur Alþfl. fallist á að það mál verði lagt fram á þessu þingi og það verði samþykkt? Það er ástæða til að spyrja um það vegna þess að öllum er ljóst að það er fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar ríkisbankanna og í stefnu ríkisstjórnarinnar, sem birtist í fjárlögum, er sett fram sú stefna að rétt sé að selja hlutabréfin. Um það mál hefur verið ágreiningur í þingflokki Alþfl. og þess vegna spyr ég um það þegar við erum að vega og meta hvort þessi ríkisstjórn hafi meiri hluta, hvort það sé samstaða um þetta mál. Einnig væri hægt að spyrja um það sem Alþfl. lagðist gegn á síðasta þingi, þ.e. að takmarka aðgang að háskólanum. Er samstaða um það milli flokkanna að slíkt frv. verði lagt fram og hefur slíkt frv. meiri hluta hér á þingi?
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að ýmislegt hefur komið fram sem staðfestir að það er djúpstæður trúnaðarbrestur í samskiptum forustumanna flokkanna og það hefur verið rætt í þessari umræðu og það eitt út af fyrir sig gerir ríkisstjórninni erfitt í því að takast á við brýnustu úrlausnarefni sem eru fram undan. Og þegar verið er að spyrja um meiri hluta þá er náttúrlega reynslan sú á þessu kjörtímabili að það er frekar Alþfl. sem hefur komið fram sem ein heild í erfiðum málum en Sjálfstfl., þannig að það er líka ástæða til að spyrja um það hvort þinglið Sjálfstfl. haldi í ýmsum málum. Það eru miklu frekar þingmenn þeirra sem hafa ekki stutt ríkisstjórnina í veigamiklum málum. En spurningin snýr að mínum gamla flokki um afstöðu þeirra til grundvallarmála sem ég hef nefnt, fjármagnstekjuskattsins, einkavæðingu banka í bankakerfinu, hátekjuskattinn. Við erum þannig stödd að skattfrelsismörk eru bara 57 þús. en ættu að vera 71 þús. kr. ef þau hefðu haldið í við verðlag og þess vegna er ástæða til að spyrja, hvort ekki sé eðlilegt að þessir skattar séu lagðir á sem ég hér nefndi.
    Síðan er það það grundvallaratriði sem ekki síst vekur furðu mína. Ef þingflokkurinn ætlar að standa að þeirri stefnumörkun, og það tel ég það alvarlegasta sem fram kemur í fjárlögum og ég hefði aldrei staðið að fjárlögunum eins og þau eru lögð fram núna, ekki síst með tilliti til þeirrar forsögu sem við höfum hér talað um, að það er láglaunafólkið sem hefur borið hitann og þungann af því að viðhalda hér stöðugleika og það sést ekki ljós glæta í fjárlagafrv. um það að stjórnarflokkarnir ætli nú þegar betur árar og bati er boðaður í efnahagslífinu að umbuna láglaunafólki eða skila batanum til láglaunafólksins. Þvert á móti, það á ekki að létta skattbyrði á láglaunafólki, þess sér ekki stað í frv., og á ýmsum sviðum er þrengt enn að velferðarkerfinu þrátt fyrir að bati sé boðaður, svo sem í menntakerfinu, ekki síst í háskólanum og Lánasjóði ísl. námsmanna. Upptöku þjónustugjalda í heilbrigðiskerfinu er haldið áfram og það á að skerða réttindi atvinnulausra og raunlækkun er, það vekur furðu mína, á ýmsum framlögum til hópa sem höllum fæti standa eins og fatlaðra og það er ekki heldur gert ráð fyrir eingreiðslum til aldraðra eða atvinnulausra.
    Ég tel því að í ljósi þessarar stefnumörkunar sem fram kemur núna á síðasta ári þessarar ríkisstjórnar, þar sem batanum á með engum hætti að skila til láglaunafólks, þá væri ástæða til þess að ríkisstjórnin segði sem fyrst af sér og boðað yrði til kosninga. Og ekki síst þegar horft er til áætlunar sem ríkisstjórnin leggur fram varðandi næstu fjögur árin. Þar er áfram boðuð 7% lækkun eða 9% að raungildi á útgjöldum og tekjur eiga að standa í stað. Það segir okkur þá að þessi ríkisstjórn ætlar ekki að koma á fjármagnstekjuskatti ef hún fær umboð til að sitja næstu fjögur árin, a.m.k. á sá fjármagnstekjuskattur þá varla að skila sér til launafólks. Það á kannski að fara með hann eins og íhaldið vill, að hann fari þá til þess að lækka almennt eignarskatt.
    En það er alveg ljóst þegar skoðað er hvert þessi bati hefur skilað sér, eins og utanrrh. nefndi. Hann nefndi í batnandi afkomu fyrirtækja og það er auðvitað gott og vel og líka til fjármálastofnana. Við höfum það fyrir okkur að á síðustu 12 mánuðum hafa skuldir fyrirtækja við bankakerfið minnkað um 9 milljarða, en skuldir einstaklinga á sama tíma aukist um 4 milljarða. Þannig að það hlýtur að vera komið að láglaunafólkinu núna, að skila batanum til láglaunafólksins.
    Það má líka nefna það sem hefur verið rætt hér í þessari umræðu varðandi lækkunina á matvælum að ég held að það sé alveg ljóst að hún hafi ekki skilað sér til láglaunafólks. Ríkisstjórnin stóð að þessu og þar með talin sú sem hér stendur. Það var gert að kröfu verkalýðshreyfingarinnar, en ég held að fólk finni það og ég hef rætt við mikið af fólki á vinnustöðum á umliðnum vikum, að það segir að matarskattslækkunin hafi skilað sér á fyrstu vikunum og síðan ekki söguna meir. Þannig að það er ástæða til þess að fara ofan í það betur heldur en gert hefur verið, hvort þessi matarskattslækkun hafi skilað sér til láglaunafólksins.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð við þessa umræðu. Mér finnst að það komi mjög skýrt fram, og vil ítreka það, í fjárlagafrv., þeirri málaskrá sem ríkisstjórnin leggur fram, þeirri áætlun sem hún hefur sett fram um hvernig taka eigi á efnahagsmálunum til næstu fjögurra ára, að ríkisstjórnin ætlar sér ekki, og það sést ekki í fjárlagafrv. eða þeim málum sem hún leggur fram, að hún ætli að fara í aðgerðir sem breyti hér skiptingu þjóðarkökunnar eða sem ganga í þá átt að stokka upp tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og það finnst mér það alvarlegasta sem er núna hjá ríkisstjórninni að þess sér ekki nokkur merki. Og það væri á þeim grundvelli sem frekar ætti að skoða þann málatilbúnað að ríkisstjórnin ætti að fara frá fremur heldur en ýmislegt annað sem fram hefur komið í þessari umræðu.