Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 15:48:20 (139)


[15:48]

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að ræða störf hæstv. ríkisstjórnar nú í upphafi þings og gera upp störf hennar, þar sem hún hefur í raun lokið störfum. Ég heyri að það fer mjög í taugarnar á hæstv. ráðherrum og hv. forustumönnum stjórnarflokkanna að ræða þessi mál hér á hv. Alþingi, en miðað við ræðu síðasta hv. ræðumanns, hv. 12. þm. Reykv., fyrrv. félmrh., þá staðfesti hún í raun að það er djúpstæður ágreiningur, það er djúpstæður trúnaðarbrestur, eins og hv. þm. orðaði það, á milli forustumanna stjórnarflokkanna. Ég hjó líka eftir því að hún er efins um það að ríkisstjórnin hafi meiri hluta hér á hv. Alþingi. Þannig að það sýnir kannski betur heldur en margt annað, þar sem sá hv. þm. hefur þó nokkra reynslu af því að sitja í þessari hæstv. ríkisstjórn, að umræðan er svo sannarlega tímabær.
    Hæstv. forsrh. gerði sér raunar grein fyrir því í haust að ríkisstjórnin væri illa starfhæf og vildi fara í kosningar. Þegar á reyndi ákvað hann að beygja sig undir vald hæstv. utanrrh. og láta hann ráða ferðinni og sitja til vors og staðfesti hann það í sinni ræðu áðan að hann sé enn með það á prjónunum. Mér heyrðist hæstv. forsrh. vera hér þó nokkuð að vitna í fortíðina, eins og hans er von og vísa, og hann vitnaði m.a. í Ólaf heitinn Jóhannesson og þá ríkisstjórn sem hann sat í sem reyndar mun hafa verið ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Samlíkingin var náttúrlega ekki alveg nógu góð hjá hæstv. ráðherra vegna þess að Ólafur Jóhannesson var ekki forsrh. í þeirri ríkisstjórn og þess vegna gat hann illa borið sig saman við hann hvað það snertir að hann mun hafa haft orð um samstarfsflokk sem þá var Alþb., en hann sagði það ekki sem forsrh. þeirrar ríkisstjórnar.
    Mér er það ofarlega í huga að í haust var það skoðun ungra sjálfstæðismanna að það ættu að fara fram haustkosningar. Það var vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefði lokið við þau verk sem hún ætlaði sér að vinna þannig að hún væri bara búin og gæti bara farið frá og það væri rétt að kjósa. Það er hins vegar ekki alveg í samræmi við það að hæstv. ríkisstjórn leggur nú fram --- í opinberum plöggum kemur fram að hún hyggst leggja hér fram á þinginu um 150 þingmál. En auðvitað er staðreyndin sú að hæstv. ríkisstjórn hefur litlu áorkað og það má a.m.k. fullyrða það að kjör fólksins í landinu eru óviðunandi og þar tek ég undir orð síðasta ræðumanns.
    Ég ætla, eins og reyndar hæstv. forsrh., aðeins að fara svolítið aftur í tímann, ekki mörg ár, en mér er það ákaflega minnisstætt þegar ríkisstjórnin tók við og það birtust glaðhlakkalegir stjórnmálaforingjar á skjánum og höfðu hist í Viðey á vordögum. Það sem mér er hvað minnisstæðast er að hæstv. ríkisstjórn ætlaði ekki að tala saman í fjölmiðlum. Það var komin ný ríkisstjórn sem ætlaði ekki að tala saman í fjölmiðlum. Og Sjálfstfl. var svo hamingjusamur með þetta nýja samstarf að hann færði Alþfl., samstarfsflokknum, fimm ráðherrastóla á silfurfati. Það má því segja það að Alþfl. hefur mikil áhrif og völd í skjóli Sjálfstfl. Nú finnst mér hins vegar vera þannig komið að Alþfl. hefur fengið það hlutskipti að vera eins konar skóþurrka Sjálfstfl. Sjálfstfl. nærist á óförum Alþfl. sem eru allveruleg, það fer ekkert á milli mála.
    Man nokkur eftir fréttatíma þegar við lítum daga og vikur aftur í tímann þar sem ekki hefur verið einhver forustumaður, annar forustumaður stjórnarflokkanna, að gefa álit á einhverju sem hinn hefur sagt? Þetta hélt ég að væri sú skilgreining sem við köllum að tala saman í fjölmiðlum. Það er ekki talað saman nema í fjölmiðlum og hv. 12. þm. Reykv. staðfesti það hér áðan að það er djúpstæður trúnaðarbrestur á milli forustumanna stjórnarflokkanna.
    Hæstv. forseti. Ég álít að þessi vetur sem nú fer í hönd muni ganga þannig fyrir sig að Sjálfstfl. muni halda áfram þegar tækifæri gefst til að sparka svolítið í Alþfl. í fréttatímum og það verði ekki mikið aðhafst. Það eru ýmis vandamál sem þyrfti að taka á og það er því dýr tími fram undan og illa farið með þann tíma ef hv. Alþingi fær ekki önnur verkefn en þau að nánast bíða þess að vorið komi því þá megi fyrst kjósa.
    Hæstv. forsrh. hafði hér mörg orð í sinni stefnuræðu um það hvað ástandið væri gott og það væri náttúrlega honum að þakka að hér hefði verið sveigt af Færeyjaleiðinni. Ég verð að segja það að ég óttast því miður að hæstv. forsrh. vanti tengsl við þetta þjóðfélag og ég hef áður haldið því fram. Ég óttast að hann einblíni á tölur sem segja aldrei allan sannleikann. Ég óttast að hann fari ekki um landið til að tala við fólk. Það virtist t.d. hafa haft mjög góð áhrif á fyrrv. félmrh. að fara um landið og tala við fólk og eftir orðum hæstv. forsrh. áðan þá virðist vera og hafa verið gott samstarf á milli þeirra þannig að ég held að hann ætti að taka fyrrv. félmrh. sér til fyrirmyndar og ferðast um landið og fræðast um það hvernig fólkið hefur það í landinu, hver kjör fólksins eru. ( SJS: Og segja svo af sér.) Það var innskot frá hv. 4. þm. Norðurl. e. að hann mundi þá sennilega segja af sér á eftir og það getur verið að það yrði einmitt raunin. Það er nefnilega þannig að fólkið í landinu fer algjörlega á mis við þessa miklu velgengni sem hæstv. forsrh. hælir sér mjög af.
    Mér eru minnisstæð orð hæstv. fjmrh., sem heiðrar okkur með nærveru sinni, sem hann lét falla fyrir nokkrum dögum í fjölmiðlum og voru þess efnis að skattleysismörkin hér væru alls ekki lág vegna þess að það væru svo margir innan skattleysismarka og þess vegna hlytu þau bara að vera nógu há. Það var eins og hæstv. fjmrh. léti sér ekki detta í hug að ástæðan gæti verið sú að hér væru svo margir á lágum launum. En það er með þetta eins og annað að það eru súluritin og línuritin sem eru látin ráða ferðinni en ekki fólkið.
    Siðferði í stjórnmálum hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og ég get sagt það að mér hefur ekki áður fundist eins niðurdrepandi að vera atvinnupólitíkus og síðustu vikurnar. Auðvitað er eitthvað töluvert að hjá okkur í þessum efnum og við eigum að vera manneskjur til þess að viðurkenna það og taka á þessum málum. Þetta verðum við að gera. Það er alltaf erfitt að setjast í dómarasæti og ég ætla mér ekki að gera það, hef engan áhuga á því en mín skoðun er þó sú að hæstv. félmrh. hefði átt að segja af sér og hefði átt að vera búinn að því. Eins og ég segi ætla ég mér ekki að setjast í neitt dómarasæti en ég tel að svo sé komið að hæstv. ráðherra njóti ekki trausts þannig að það væri honum fyrir bestu og kannski okkur öllum þegar ég horfi til framtíðarinnar. Hann hefur sýnt ákveðið dómgreindarleysi, ég held að það fari ekkert á milli mála. Þjóðin verður að hafa traust á stjórnvöldum og stjórnmálamönnum. Hvers vegna svo er ekki í nægilegum mæli er erfitt að segja til um en ein ástæðan er sú að það eru of mörg dæmi þess að hæstv. ráðherrar hafi misnotað vald sitt. Ég leyfi mér að fullyrða að þó að ýmislegt hafi gerst í tíð fyrri ríkisstjórnar sem ekki er til fyrirmyndar þá keyri um þverbak í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. forseti. Mig langar að segja örfá orð um landbúnaðinn sem geta verið í góðu samhengi við það sem kom fram hjá hæstv. utanrrh., m.a. í ræðu hans áðan. Það er skaði að hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu en maður efast stundum um að hann hafi öll völd í landbúnaðarmálum þannig að það er kannski allt í lagi að tala um þau líka við hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þannig er að landbúnaðurinn, eins og allir vita, er að ganga í gegnum mikið breytingarskeið og það mætti kalla það allt að því byltingu. En hvaða vinna skyldi vera í gangi í landbrn. í sambandi við það? Sannleikurinn er sá að það er engin vinna í gangi. Aðrar þjóðir taka öðruvísi á þessum málum og þar er unnið að því að aðlaga starfsgreinar að breyttum starfsháttum. En hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessum málum eða eru ástæðurnar kannski aðrar? Eru ástæðurnar kannski þær að það er vitað að það náist ekki samstaða um neitt landbúnaðarmál og þess vegna sé ekki óhætt að leggja slíkt mál fram á hv. Alþingi?
    Til að rökstyðja þetta örlítið þá ætla ég að koma með dæmi. Í framhaldi af lögum sem sett voru í desember á síðasta ári var gert ráð fyrir því að hæstv. landbrh. gæfi út reglugerð um jöfnunargjöld sem snertu útflutning. Á hátíðarstundum tölum við og hæstv. ráðherrar tala gjarnan um útflutning Íslendinga á matvælum. En þessi útflutningur getur hins vegar ekki átt sér stað vegna þess að hæstv. landbrh. kemur ekki frá sér þessari reglugerð. Hæstv. utanrrh. sagði áðan að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs væri betri en um langt skeið. Skyldi það varða landbúnað líka?
    Ég veit ekki hvort það þarf að útskýra það frekar fyrir þingheimi út á hvað sú reglugerð á að ganga sem ekki lítur dagsins ljós. Í stuttu máli er það að hráefni landbúnaðarins til útflutnings á að fást á sama verði og lægst þekkist á ESB-svæðinu. Svona tækifæri nota aðrar þjóðir sér til fullnustu en það gerum við greinilega ekki því ekkert bólar á þessari reglugerð. Kannski hæstv. utanrrh. geti sagt okkur eitthvað frá því hvað veldur ef hann tekur til máls aftur?
    Minn tími er senn á þrotum en ég hafði hugsað mér að hafa nokkur orð um menntamálin. Eftir því sem mér skilst þá er meiningin að hér fari fram umræður um menntamál í vetur og verða lögð fram frumvörp sem kveða á um breytingar á lögum, bæði um grunnskóla og framhaldsskóla. Róttækasta breytingin hvað varðar grunnskólann er kannski sú að það er meiningin að flytja hann til sveitarfélaganna og það strax 1. ágúst á næsta ári. Undirbúningur sem þarf að fara fram áður en þetta getur átt sér stað er allur í skötulíki. Það er t.d. ekki ljóst hvernig á að vera með eftirlitsþátt þess máls þegar grunnskólinn er kominn til sveitarfélaganna. Geta sveitarfélögin fækkað kennslustundum eins og þeim sýnist án þess að nokkur fái því breytt? Þetta er mál sem hefur t.d. verið í umræðunni í Noregi og óljóst um réttarstöðu sveitarfélaga hvað þetta varðar.
    Það hafa ekki farið fram viðræður við kennarafélögin varðandi kjara- og réttindamál. Sveitarfélögin hafa ályktað og sett ákveðin skilyrði til þess að af þessu geti orðið 1. ágúst á næsta ári og mér finnst að þau skilyrði séu mjög eðlileg en það heyrist lítið frá hæstv. ríkisstjórn um þetta mál eins og svo mörg önnur.