Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 16:19:03 (141)


[16:19]
     Gísli S. Einarsson :
    Herra forseti. Ég vil taka þátt í þessari umræðu vegna þeirra dóma sem hafa verið látnir falla í umræðunni af hálfu stjórnarandstöðunnar. Mig langar að minna á að það eru ekki nema örfáir dagar frá þingsetningu þar sem við kirkjuathöfn var beint til þingmanna tilmælum um að dæma á þann hátt sem þeir sjálfir vilja vera dæmdir. Ég minni menn á þessi orð sem presturinn las þeim.
    Mig langar að ræða málin út frá hluta af þeim verkum sem unnin hafa verið á vegum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ég bið um að landsmenn meti hvort ekki hafi vel áunnist í ljósi þeirra orða sem hér á eftir fara. Ég hlýt að taka undir orð hæstv. forsrh. að mikill árangur hafi náðst í stjórn efnahagsmála. En að líkum erum við nokkuð ósammála um hvernig standa skal að undirbúningi að umsókn um ESB-aðild. Ég tel að í því máli þurfi að gera grein fyrir niðurstöðum úr úttektarskýrslum Háskóla Íslands. Ef þær eru á þann veg sem heyrst hefur að vænta megi mjög bættrar stöðu bænda með ESB-aðild, ólíkt betri möguleikar munu verða til að útrýma atvinnuleysi með fullvinnslu framleiddra vara á Íslandi og fleiri atriða sem mætti telja þá þurfum við að skoða okkar huga.
    Ég hef þá trú að Íslendingar hafi besta stöðu á jafnréttisgrundvelli meðal okkar helstu viðskiptaþjóða og samstöðu með frændþjóðum okkar, Finnum, Svíum og Norðmönnum. Ég tel að ríkisstjórnin sem nú situr eigi að halda áfram og klára sín verk og leggja þau síðan í dóm kjósenda á réttum tíma. Það hefur komið áður fram í mínu máli að ég tel að rétt sé að málum staðið.
    Ég vil reyndar til þess að taka undir með þeim mönnum sem hér hafa talað að brýnustu verkefni á næstu mánuðum eru að bæta kjör fólks á lægstu launum launastéttanna. Ég tel að það verði að afnema tvísköttun lífeyris, ég tel að skattleysismörkum verði að breyta til samræmis við framfærslukostnað. Ríkisstjórnin hefur tækifæri til inngrips í þessi mál með því að klára sitt kjörtímabil og hún á að gera það.
    Ég vil nú víkja nokkrum orðum að stöðu í efnahagsmálum. Með ábyrgri efnahagsstjórn og sátt í kjaramálum þá hefur tekist að varðveita stöðugleika í efnahagsmálum og koma verðbólgu á lægra stig en undanfarna þrjá áratugi og lægra stig en í helstu viðskiptalöndum. Núna er spáð hækkun á framfærsluvísitölu milli áranna 1993 og 1994 um 1--1,5% sem er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Verðbólga á Íslandi hefur aldrei verið lág --- og takið eftir því --- nema þegar Alþfl. hefur verið í ríkisstjórn. Þá hefur einnig tekist að tryggja jafnvægi í viðskiptum við útlönd og stöðva skuldasöfnun erlendis. Útflutningsgreinar hafa ekki búið við betri samkeppnisskilyrði um áratuga skeið, þar sem saman fara lágir tollar erlendis og það eru áhrif EES-samningsins, það er lágt raungengi, lækkandi vextir og lægri skattar fyrirtækja. Og það vita þeir sem eru að reka fyrirtæki, hv. þm., sem við mér brosir. Þessi árangur hefur náðst að nokkru leyti á kostnað jafnvægis í ríkisfjármálum, með lækkun virðisaukaskatts og auknum framlögum til atvinnuskapandi aðgerða til að stuðla að friði á vinnumarkaðnum með kjarasamninga til langs tíma.
    Það hefur verið sett ný nútímaleg löggjöf um nær öll svið fjármagnsmarkaðarins. Almennar leikreglur hafa verið færðar til þess horfs sem algengast er í nágrannaríkjunum. Það hafa verið sett ný lög um innflutning, ný gjaldeyrislög og nýjar gjaldeyrisreglur á grundvelli þeirra. Það hafa verið afnumin fjölmörgt höft á gjaldeyrisviðskiptum og leiðin vörðuð til afnáms síðustu haftanna í árslok 1994. Ég vil minna á það að Alþfl. hefur verið í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur, bændum og neytendum til hagsbóta.
    Nýr GATT-samningur heimilar frjálsan innflutning á búvörum frá árinu 1995. Á móti koma há jöfnunargjöld til að auðvelda innlendum framleiðendum og vinnslustöðvum þessa tímabæru aðlögun að eðlilegum viðskiptaháttum. Ég vil minna á það að að frumkvæði Alþfl. hafa verið sett samkeppnislög sem stuðla að virkri samkeppni. Lögin banna fyrirtækjum sem eru ráðandi á markaðnum að misnota aðstöðu sína. Jafnframt er lögunum ætlað að skapa eðlilega umgjörð fyrir fyrirtæki í opinberri eign þannig að þau geta ekki notað einangrunaraðstöðu sína á einu sviði til að niðurgreiða starfsemi á öðru sviði þar sem samkeppni við einkafyrirtæki er fyrir hendi.
    Ég vil minna á að það var ráðherra Alþfl. sem hafði forustu í vaxtalækkunaraðgerð ríkisstjórnarinnar í október 1993. Sú aðgerð hefur nú borið ríkulegan árangur. Vextir ýmissa ríkisverðbréfa eru nú jafnlágir eða lægri á Íslandi en í grannlöndum og seðlbankavextir sömuleiðis. Bankavextir hafa lækkað og vextir fjárfestingarlánasjóða fara lækkandi. Varanleg vaxtalækkun --- ég segi varanleg vaxtalækkun er mesta kjarabót sem hægt er að tryggja skuldugum fjölskyldum. Þetta er líka öflugasta aðgerðin til að fyrirbyggja vaxandi aðgerðarleysi, treysta afkomu fyrirtækja og þar með atvinnuöryggi.
    Herra forseti. Síðastliðinn fimmtudag bar ég fram fyrirspurn og taldi að ég þyrfti að fá að vita og þingið hver væru áhrif af jöfnunaraðgerðum varðandi skipasmíðaiðnað á árinu 1994. Ég hef á þessum dögum sem liðnir eru síðan þá aflað mér upplýsinga um hvernig til hefur tekist með þær aðgerðir sem menn voru hér sammála um að þyrfti að grípa til á vordögum. Það er búið að veita jöfnunaraðstoð í skipaiðnaði frá ársbyrjun 1994. Ég hef hér yfirlit þar sem finna má niðurstöður á ráðstöfunum þess fjármagns eftir verkefnum og fyrirtækjum sem það hafa hlotið. Iðnlánasjóður sér um framkvæmd jöfnunaraðstoðarinnar og það var óskað eftir því í apríl að það yrði lagt mat á árangur jöfnunaraðstoðarinnar fram að þeim tíma. Þetta mat er ég kominn með í hendur og tel ástæðu til að greina frá því.
    Það hefur verið stuðlað að hagræðingu innan greinarinnar með því að auðvelda fyrirtækjum aðgang að ráðgjafarþjónustu vegna hagræðingarverkefna. Fyrirtæki hafa getað fengið greitt allt að 80 ráðgjafartímum. Það hefur einnig verið veitt ráðgjöf til endurskipulagningar iðngreinarinnar í heild. Varið hefur verið til þessa verkefnis um 3 millj. kr. Það hefur verið unnið að verkefninu Skipasmíðaiðnaður 1994, þar sem miðar að því að efla vöruþróun og markaðsmál fyrirtækja. Verkefnið nær til 12 verkefna í skipasmíða- og málmiðnaði og auglýst var eftir þátttöku að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Iðntæknistofnun, sem sér um framkvæmdir verkefnisins, hefur þegar skilað þeim afurðum sem komnar eru í framleiðslu. Það hefur verið veitt 12 millj. til þessa verkefnis og er þá talinn með kostnaður vegna sjálfs verkefnisins. Það er búið að veita jöfnunaraðstoð í skipasmíðaiðnaði frá ársbyrjun 1994. Rétt er að minna á hverjir hafa fengið þessa jöfnunaraðstoð. Það eru fyrirtæki sem eru að vinna við þetta verk, þ.e. Ósey hf., Landsmiðjan hf., Stálsmiðjan hf., Skipalyftan hf., Þorgeir og Ellert hf., Slippstöðin Oddi hf. og Marel hf., svo nokkrir séu nefndir. Upphæðirnar sem þessi fyrirtæki hafa fengið í styrki til að efla atvinnu eru frá 400 þús. kr. upp í 16 millj. kr. sem hafa fallið í hlut Odda hf. Það er ljóst að það hefur verið unnið á þessu ári fyrir u.þ.b. 350 millj. kr. meira í skipasmíðaiðnaði árið 1994 það sem af er ársins heldur en á öllu sl. ári. Ef menn telja ekki að það hafi verið gripið til aðgerða í ljósi þessara staðreynda þá eru menn blindir eins og hér var sagt áðan, þeir vita ekki hvað er verið að gera í landinu. Og eins og var nefnt hér, menn eru firrtir því að fylgjast með hvað er að gerast í kringum þá.