Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 16:45:27 (143)


[16:45]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það er sannarlega ekki að ástæðulausu að hér hefur verið óskað eftir umræðu um stöðu ríkisstjórnarinnar. Og það er kannski ekki að undra það heldur þótt hæstv. ráðherrar, forsrh. og utanrrh., séu nokkuð undrandi á því hvernig þá umræðu ber að og virðast helst óska eftir því að hún væri með öðru móti, það væri talað hér um vantrauststillögu, vegna þess að þeir vona það auðvitað og telja að með slíkri tillögu væri líklega hægt að berja stjórnarliðið, sem er nú alltætt, saman til stuðnings við þessa ríkisstjórn sem er nú ekki að verða mikils virði. Mér fannst reyndar einnig að svör hæstv. forsrh. við þeim fyrirspurnum sem málshefjandi lagði fyrir hann með spurningum vera heldur veigalítil.
    Það er margt sem við stjórnarandstæðingar hljótum að vekja athygli á og spyrja um. Eitt af því var t.d. uppgjöf fyrrv. hæstv. félmrh., uppgjöf hæstv. ráðherra við að sitja í þessari ríkisstjórn og að fylgja fram stefnumálum hennar. Forsrh. hæstv. svaraði því nánast þannig að þeim hefði alla tíð verið vel til vina, forsrh. Hæstv. forsrh. svaraði því nánast þannig að þeim hefði alla tíð verið vel til vina, forsrh. og félmrh., og er vissulega gott til þess að vita að svo hafi verið. En einhverra hluta vegna gafst hæstv. ráðherra, sem fór með félagsmálin, upp á því að sitja í ríkisstjórn með vini sínum forsætisráðherranum og vænti ég

þó að hún hafi kannski átt einhverja aðra ( Umhvrh.: Hún gafst upp á mér.) innan ríkisstjórnar sem ekki voru jafnmiklir vinir hennar, t.d. hæstv. umhvrh. sem hér kallar fram í. Þó held ég að það hljóti að hafa verið ýmislegt í störfum og stefnu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. fyrrv. félmrh. gat ekki sætt sig við enda hefur það komið mjög vel fram í máli hennar, bæði í þingræðum og í ýmsum ummælum sem höfð hafa verið eftir hv. þm. í fjölmiðlum að undanförnu. Þetta vitum við vel, þetta veit öll þjóðin og þó að hæstv. forsrh. og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið vel til vina þá á það út af fyrir sig ekkert skylt við það hver staða ríkisstjórnarinnar er í dag og hversu veik hún er í raun.
    Í öðru lagi var spurt um trúnaðarbrest milli hæstv. forsrh. og utanrrh. og hæstv. forsrh. svaraði því eitthvað á þá leið, ef ég tók rétt niður eftir honum, að það þýddi ekki að byggja slíkt á einhverjum ummælum héðan og hvaðan. Þessi ummæli, sem verið er að vitna til, eru þó ummæli hæstv. forsrh. um hæstv. utanrrh. í hans eigin ríkisstjórn. Við hljótum að spyrja: Er það virkilega svo að hæstv. forsrh. geti talað þannig til utanrrh., þó það sé á fundi hjá ungum sjálfstæðismönnum, að hann sé ekki þess trausts verður að semja fyrir hönd Íslands um utanríkismál? Við hljótum að telja að þetta séu ekki bara einhver ummæli héðan og hvaðan. Þetta eru ummæli sem hæstv. forsrh. hefur um formann samstarfsflokksins í sinni ríkisstjórn, hæstv. utanrrh.
    Ég hef setið á fundi í utanrmn. á liðnu sumri þar sem forsrh. tók það fram að hann vildi ekki sitja undir ummælum um það að ríkisstjórnin sé að hafa af þjóðinni til lengri tíma litið tekjur og tækifæri ef ekki verði sótt um aðild að Evrópusambandinu. Hver skyldi hafa viðhaft þessi ummæli sem hæstv. forsrh. vildi ekki sitja undir? Það var hæstv. utanrrh. Ég man ekki eftir því að annar hafi talað hærra um það að með því að sækja ekki nú þegar um aðild að Evrópusambandinu væri ríkisstjórnin að hafa af þjóðinni tækifæri til frambúðar til lengri tíma litið og undir slíkum ummæli vildi hæstv. forsrh. ekki sitja. Ég tek alveg undir það með honum út af fyrir sig, ég er alveg sammála honum í því. Þetta hlýtur einnig að sýna okkur að það er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar milli þessara tveggja forustumanna hennar og því hljótum við að vera undrandi á því að ríkisstjórnin skuli ætla sér að reyna að sitja heilt þing og halda þessu tætingsliði saman og stefna að kosningum í vor. Slíkt hefði auðvitað átt að gerast fyrr.
    Í þriðja lagi var hér rætt um pólitískar embættisveitingar sem hafa verið mjög til umræðu að undanförnu. Þá líkti forsrh. því við stjórnarfarslegt skipulag í öðrum ríkjum sem mér finnst ekkert eiga skylt við þá umræðu sem hefur farið fram í þjóðfélaginu hjá okkur að undanförnu. Auðvitað er það með ýmsum hætti. Ef stjórnarskrá og stjórnskipulag gera ráð fyrir því að embættismenn víki þegar ný ríkisstjórn tekur við og nýir embættismenn eru valdir þá hljóta þeir að vera valdir í pólitískum tilgangi og þá er gert ráð fyrir því. Hér hafa menn verið að tala um annars konar pólitískar ráðningar og ég eyði ekki tíma mínum, hæstv. forseti, í að rekja það. Bæði er hv. þm. öllum vel kunnugt um það svo og þjóðinni allri.
    Að lokum langar mig að nefna eitt mál enn sem hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og alþjóð orðið vitni að og sennilega nánast orðin leið á. Það er umræðan um siðferði en þó má alþjóð ekki verða leið á slíkri umræðu því eitt það mikilvægasta sem við þingmenn allir og allir stjórnmálamenn þurfa að gæta sín á er að þeir fari fram með réttu siðferði í öllum sínum embættis- og trúnaðarstörfum.
    Það er erfitt að gerast dómari í siðferðismálum og hefur verið haft eftir hæstv. ráðherrum og sjálfsagt hv. þm. einnig að rétti dómarinn í slíkri umræðu sé kjósandinn, það séu kosningarnar sem við allir þurfum að gangast undir á fjögurra ára fresti hið minnsta. Þar fáum við þann dóm sem okkur ber fyrir þau störf sem við höfum verið að vinna og væntanlega í samræmi við það hvernig við höfum farið með þann trúnað sem kjósendurnir hafa veitt okkur.
    Ég ætla því ekki að gerast dómari frekari en aðrir sem hafa komið í þennan ræðustól í umræðunni um siðferði hæstv. ráðherra sem hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. En eitt atriði langar mig þó að nefna sem mér finnst hafa verið sérstaklega ámælisvert í störfum hæstv. núv. félmrh., sem hefur legið mjög undir ámæli í þessari umræðu og þessari gagnrýni og ég ætla ekki að nefna neina aðra þætti en þennan eina, að ráðherra sveitarstjórnarmála má ekki kveða upp vafasama dóma um fjárhagslega skýrslugerð sem unnin er af löggiltum endurskoðendum. Ég tel að þó að viðkomandi hæstv. ráðherra hafi áður verið sveitarstjórnarmaður í sveitarfélagi þá verði hann að gæta sín fyrst og fremst í þessu tilfelli í því hlutverki sem hann gegnir nú sem ráðherra sveitarstjórnarmála. Það verður erfitt fyrir aðra sveitarstjórnarmenn í öðrum sveitarfélögum að leggja ágreiningsmál í dóm þess ráðherra sem ég tel að hafi farið illa með sitt vald þegar hann kvað upp þennan dóm sem ég hygg að hafi verið vafasamur og hafi mótast af hita umræðunnar en hafi ekki verið kveðinn upp af hæstv. ráðherra í því embætti sem hann nú situr í, þ.e. í hlutverki hans sem ráðherra félagsmála og þar með talinna sveitarstjórnarmála.
    Mig langar aðeins, af því að ég er að ræða þessi siðferðismál, að nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, og fara örlítið yfir þátt sem hefur verið í umræðum í fjölmiðlum að undanförnu og mitt nafn hefur verið bendlað við, þ.e. ráðning og starfskjör eins af okkar opinberu embættismönnum, Guðjóns Magnússonar, skrifstofustjóra í heilbr.- og trmrn. Ég var heilbr.- og trmrh. þegar þessi umræddi starfsmaður var ráðinn skrifstofustjóri í ráðuneytinu. Það var mitt verk. Ég lagði áherslu á það að fá hann í það starf og taldi mig vera að ráða þar hæfan og duglegan mann til starfa. Hann setti nokkrar forsendur fyrir umsókn sinni þegar hann sótti um þetta starf. Mig langar að nefna --- ég hef varla tíma til að lesa það upp en nefna þau atriði. Hann bað um það að fá áfram að gegna þeirri ábyrgð sem hann hafði tekið á sig sem varaformaður Alþjóðasambands Rauða krossins. Hann bað um að fá áfram að þiggja laun samkvæmt sama kjarasamningi og hann hefði haft áður, þ.e. kjarasamningi við Læknafélagið, þó hann færi úr starfi aðstoðarlandlæknis yfir í starf skrifstofustjóra. Hann bað um það að mega áfram gegna hlutastarfi sem dósent við læknadeild háskólans. Þetta voru forsendur sem hann setti. Síðan gat hann þess í lok umsóknar sinnar og með leyfi hæstv. forseta þá ætla ég að lesa þá setningu: ,,Þá vek ég athygli ráðuneytisins á því að ég hefi til þessa ekki átt þess kost að nýta mér námsleyfi samkvæmt kjarasamningum.``
    Þess umsókn sendir Guðjón til ráðuneytisins 31. maí 1990. Um miðjan ágúst er hann settur í þetta starf af því að hann fékk launalaust leyfi í tvö ár sem aðstoðarlandlæknir en var settur í starf skrifstofustjóra í ráðuneytinu og þá skrifaði ég honum svofellt bréf sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta. Það er dagsett 15. ágúst 1990:
    ,,Með vísun til umsóknar yðar um starf deildarstjóra í heilbr.- og trmrn.`` --- sem var undanfari þess að hann var síðan settur sem skrifstofustjóri --- ,,og setningar yðar í það starf, samanber bréf dagsett 15. ágúst 1990, tekur ráðuneytið fram: Um laun yðar fer samkvæmt kjarasamningi Læknafélags Íslands og fjármálaráðuneytisins þannig að laun yðar verða þau sömu og aðstoðarlandlæknis. Ráðuneytið veitir yður leyfi til þess að gegna áfram hlutastarfi dósents í félagsfræði við læknadeild Háskóla Íslands og tekið mun tillit til þeirrar ábyrgðar sem þér hafið tekist á herðar sem varaformaður Alþjóðasambands Rauða kross félaganna. Um áunninn námsleyfisrétt vegna starfa yðar sem aðstoðarlandlæknir fer samkvæmt samningum.`` --- Ég ætla að leyfa mér að endurtaka þessa síðustu setningu: ,,Um áunninn námsleyfisrétt vegna starfa yðar sem aðstoðarlandlæknir fer samkvæmt samningum.``
    Það var sem sagt kirfilega undirstrikað af minni hálfu að það er fallist á önnur skilyrði sem sett eru fyrir umsókninni, þar á meðal kjarasamningar. Varðandi það atriði var haft samráð við launadeild fjmrn. þannig að það fari ekkert á milli mála. Það var engin ákvörðun tekin af heilbrrh. sérstaklega heldur í samráði við launadeild fjmrn. en um námsleyfisrétt yrði farið samkvæmt samningum.
    Síðar gerist það þegar Guðjón hefur nýlega hafið störf við ráðuneytið að honum býðst staða sem prófessor við heilsuháskóla í Gautaborg. Þetta var tímabundin staða en ég taldi mikilvægt að hann gegndi áfram störfum sem skrifstofustjóri í ráðuneytinu, þá nýlega tekinn við því veigamikla embætti og var að vinna að mörgum mikilvægum störfum. Ég nefni t.d. frv. um ný lyfjalög sem lagt var fram á hv. Alþingi rétt fyrir þinglok 1991. Ég taldi afar brýnt að Guðjón ynni áfram þau verkefni. Ég taldi hins vegar líka að það væri ekki bara fyrir hann mikill heiður að þiggja þetta starf heldur einnig fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og íslenska heilbrigðisstjórnun, sem hann var sannarlega orðinn aðili að sem skrifstofustjóri í ráðuneytinu, að fara í þetta starf og gegna þessu prófessorsembætti í nokkra mánuði. Við gerðum um það samkomulag hvernig að því yrði staðið, hvernig það mætti falla að störfum hans í ráðuneytinu og hvernig hægt væri að sinna þessum störfum báðum samtímis. Það kann að vera umdeilanlegt að ráða menn til þess að gegna tveimur störfum eða heimila mönnum að gegna tveimur störfum á sama tíma. Það er þó ekki óþekkt í íslensku samfélagi og ég hygg að það sé meira um það talað í dag að menn hafi ekki nema eitt starf og menn geti varla lifað af því að hafa aðeins eitt starf. Flestir vildu hafa a.m.k. eitt og hálft ef ekki tvö störf til þess að komast af í þessu þjóðfélagi hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í dag. Í þessu tilfelli kann það reyndar alltaf að vera umdeilanlegt hvort þetta er rétt. En af þeim ástæðum sem ég hef rakið þá taldi ég það vera og samþykkti þá ráðningu. Ég tel að Guðjón hafi fyllilega skilað sínu hlutverki til heilbrrn. á þessum tíma sem hann gegndi stöðunum báðum meðan ég var í ráðuneytinu, sem var reyndar ekki nema skamman tíma eftir að þetta nýja starf hans hófst, þ.e. um mánaðamótin febrúar/mars 1991 en úr ráðuneytinu fór ég um mánaðamótin apríl/maí eins og alþjóð veit. Alla vega verður varla sagt að þarna hafi verið um að ræða ráðningu af pólitískum toga. Ég veit að vísu ekki hvar eða hvort Guðjón Magnússon er einhvers staðar skráður í stjórnmálaflokk en ég veit að hann er ekki skráður í Framsfl. og ég man ekki eftir því að hafa séð hann á neinum flokkslegum eða pólitískum samkomum. Ráðning hans í þetta starf var því a.m.k. ekki af pólitískum toga heldur af því að þar taldi ég mig vera að ráða góðan mann til starfa.
    Aðeins að lokum, virðulegur forseti, af því að tími minn er að renna út, þá er það ekki og getur ekki verið á verksviði eða á borði ráðherra á hverjum tíma að fara yfir ferðakostnaðarreikninga. Þeir hljóta að verða að greiðast og meðhöndlast eins og kjarasamningar kveða á um og það hlýtur að vera yfirmanna hinna daglegu starfa í hverju ráðuneyti að sjá um uppgjör ferðareikninga á hverjum tíma. Séu þeir eitthvað athugaverðir þá hlýtur það að vera ríkisféhirðir og launadeild sem gerir við það athugasemdir.