Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:37:01 (149)


[17:37]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að Alþfl. hafi beitt sér fyrir því eða tekið þátt í því að afnema hátekjuskattinn. Eins og hv. þm. veit þá voru sólarlagsákvæði í lögunum sem um þann skatt fjölluðu. Það þarf þess vegna að setja ný lög til þess að framlengja hann. Ég viðurkenni það, hv. þm. Svavar Gestsson, að ég vil skoða þennan skatt. Hvers vegna? Vegna þess að það hafa heyrst raddir sem halda því fram að þeir sem helst lenda í hátekjuskatti sé fólk með þunga framfærslubyrði, sé ungt fólk sem er að koma yfir sig þaki. Sumir kalla þetta ekki hátekjuskatt heldur millitekjuskatt. Og ég segi fyrir sjálfan mig: Ég er reiðubúinn til þess að skoða útfærslu þessa skatts, en það er hins vegar algjörlega rangt að Alþfl. hafi tekið um það ákvörðun að falla frá þessum skatti, þetta mál er einfaldlega ekki útrætt milli stjórnarflokkanna. Og ég vek eftirtekt á því, virðulegi forseti, að fjölmargir þingmenn úr liði stjórnarflokkanna, úr liðum beggja flokkanna, hafa einmitt lýst sig fylgjandi hátekjuskatti.