Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:39:14 (157)


[18:39]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þá umhyggju sem fram kom í minn garð í máli síðasta ræðumanns og þær áhyggjur sem hann hefur af pólitískri velferð minni vegna þess að ég hafi ekki látið sverfa til stáls og efna til haustkosninga. Það þarf út af fyrir sig ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Ég vil þó segja vegna orða hv. 1. þm. Austurl. um síldina að það var ekki svo að ég væri að gera lítið úr því máli, alls ekki, en vildi þó vegna þeirrar umræðu sem verið hafði í fjölmiðlum draga upp umfang þess. Ég varð m.a. var við það að sumir lögðu þetta mál út á þann veg að það væri eins gott fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið því að síldarmálið væri í hættu. Þess vegna fannst mér rétt að menn áttuðu sig á því að hér eru menn að tala um 34 millj. kr. ef allt fer á hinn versta veg. Ég sagði jafnframt að það væru engar líkur á því að að allt færi á hinn versta veg. Þvert á móti benda flestar líkur til þess að þetta mál fái farsæla niðurstöðu. Ég tel því að menn þurfi ekki að hafa af því verulegar áhyggjur.
    Ég vil aðeins nefna út af öðru sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi í fyrri ræðu sinni um það að menn væru með þá óskammfeilni, ef ég skildi hann rétt, að gera pólitíska aðstoðarmenn síðar að ráðuneytisstjórum eða starfsmönnum ráðuneyta. Sjálfsagt er að fara varlega í slíkt eins og í alla aðra slíka þætti en ég hlýt þó að vekja athygli á því að við sem stjórnmálamenn eigum ekki að gefa okkur það að slíkir pólitískir aðstoðarmenn séu með öllu vanhæfir til þess að geta síðar reynst farsælir embættismenn. Ég vek athygli á því að þegar ég kom til starfa í forsrn. hafði minn fyrirrennari þar skipað sinn aðstoðarmann sem

skrifstofustjóra í ráðuneytinu, Helgu Jónsdóttur, afskaplega færan starfsmann og ég varð aldrei var við annað, aldrei, en að ég gæti hundrað prósent sem forsrh. treyst vinnubrögðum hennar. Það er ekki endilega gefið að jafnvel menn sem hafa pólitískan áhuga geti ekki síðan af heilindum unnið fyrir hvern þann yfirmann sem rekur á þeirra fjörur. Þessi er reynsla mín af þessum tiltekna aðstoðarmanni stjórnmálamanns og ég held að hver ráðherra yrði fullsæmdur af slíkum starfsmanni. Og ég vona að í öðrum dæmum sem hafa komið upp þá geti menn sagt hið sama.
    Ég vil aðeins vegna þeirra orða sem hv. 9. þm. Reykv. lét falla þegar hann var að ræða um það að við forustumenn stjórnarflokkanna værum nokkuð sáttir við þann árangur sem hefði orðið og þann efnahagsbata. Þá spurði hv. þm.: Hver hefur borgað þann bata? Hann taldi síðan upp ýmsa þá í þjóðfélaginu sem eiga undir högg að sækja. Því miður hefur ætíð verið svo að ákveðinn hluti þjóðfélagsins á undir högg að sækja, stundum verr en aðrir. Alltaf eru einhverjir sem eru lægst launaðir í þjóðfélaginu. Oftast hafa kjör hinna lægst launuðu verið mjög erfið, á öllum tímum. Ég þekki engan tíma þar sem kjör þeirra sem við lökust laun þurfa að búa eru ekki mjög erfið. Þá er bara spursmálið þetta: Stendur þetta fólk betur, sem lökust kjörin hefur, í stöðugleika eða óðaverðbólgu? Efnahagsbatann, stöðugleikinn, lægri vextir, vinnufriður, kannski græðir það fólk mest sem minnst ber úr býtum einmitt við stöðugleika. Það borgar ekki stöðugleikann, það hagnast á honum. En ég geri ekki lítið úr því að það eru ætíð í þjóðfélaginu hópar sem standa lakar en aðrir, í öllum þjóðfélögum, því verður ekki breytt. En það er sá efnahagsárangur sem hefur náðst engu að síður sem tryggir jafnframt stöðu þessa fólks.
    Ég vil líka vekja athygli á að stundum í umræðum, til að mynda hér í dag, þá ganga röksemdir, gagnrýnisraddir, þannig fram að fullyrðingar stangast verulega á. Í einu orði er talað um að ríkisstjórnin hafi ekki náð nægum árangri varðandi halla á ríkissjóði. Þar hefur töluverður árangur náðst, ekki fullnæjandi, má segja, jafnvel þó við getum sýnt fram á með samanburði við önnur sambærileg lönd að árangurinn sé þokkalegur. En sömu aðilar sem gagnrýna ríkisstjórnina fyrir þetta hafa nánast andmælt öllum úrræðum til sparnaðar, á öllum sviðum. Ef vilji þessara hv. þm. hefði gengið fram, andmæli þeirra við sparnaðartilraunum haft erindi, þá væri hallinn margfaldur á við það sem hann er núna því hv. þm. hafa ekki bent á aðrar leiðir eða vænlegri til að taka á þessum vanda. Á það hefur skort og það hefur vantað.
    Ég er sammála hv. 1. þm. Austurl. um að niðurstaðan af þessari umræðu er sú að ríkisstjórnin stendur traustum fótum. Hv. þm. gerði töluverða tilraun til þess að kalla menn hér upp til að fá fram aðra niðurstöðu. Það hefur ekki gengið fram. ( HÁ: Það kom einn.) Sá hv. þm. sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson vitnar væntanlega til lýsti því ekki yfir að hann mundi greiða atkvæði gegn ríkisstjórninni í vantrausti. Hann er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: Ekki utanrrh.) Hann hefur sér skoðanir á utanrrh.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi einkaskoðun og taldi það vera afskaplega skrýtinn málatilbúnað af minni hálfu að menn mættu hafa einkaskoðanir í ríkisstjórnarsamstarfi. Þetta sjónarmið er sérstakt úr hans munni komið því Alþb. hefur iðulega setið í ríkisstjórn með einkaskoðanir á öllum varnarmálum landsins og aðildinni að NATO, jafnvel spásserað Keflavíkurgöngur og setið í ríkisstjórn sem vill hafa varnarlið og aðildina að NATO, hefur haft þetta sem einkaskoðun. Algera einkaskoðun í stórum og miklum málaflokki. Og gert það bara léttilega, gengið glaðir í bragði, gengið léttir í lundu frá Keflavík í bæinn með þessa einkaskoðun á varnarmálum og NATO og setið í ríkisstjórnum sem hafa ekki haft það á stefnuskrá sinni að fara úr þeim ágæta félagsskap, NATO, eða láta varnarlið hverfa --- verið með sína einkaskoðun. Það hefur verið tekið gilt. Ég hugsa að þessi flokkur sé frægastur fyrir þetta af öllum flokkum sem hér hafa setið fyrr og síðar. ( Gripið fram í: Hafa stjórnmálaflokkar einkaskoðanir?) Innan ríkisstjórnar já, hv. þm., hefur það liðist að stjórnmálaflokkar hafi einkaskoðanir sem ganga þvert á meginstefnur ríkisstjórnar. Ef þetta fyrirkomulag væri bannað þá ætti Alþb. aldrei möguleika á að komast í ríkisstjórn þannig að það er nú eins gott að hafa þetta fyrirkomulag á áfram.
    Að öðru leyti held ég að þessar umræður hafi verið gagnlegar. Niðurstaðan er fengin eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson lýsti og það er út af fyrir sig fagnaðarefni að geta með hreint borð gengið á vit nýs þings og nýs vetrar.