Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:12:59 (198)


[16:12]

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég tel í það minnsta bæði æskilegt og nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræðuna og hefði reyndar ekki talið vanþörf á því að fleiri hæstv. ráðherrar væru viðstaddir. Meðan ég bíð a.m.k. eftir hæstv. fjmrh., ætla ég að biðja forseta að slökkva hér á klukkunni sem gengur á mig.
    ( Forseti (KE) : Fjmrh. er genginn í salinn.)
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir og ítreka að ég tel að það hefði verið ástæða til þess að hér sætu fleiri hæstv. ráðherrar og hlýddu á umræður um fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar sem er auðvitað ekki bara stefnumótun í ríkisfjármálum og stefnumótun í starfsemi ráðuneyta og ríkisstofnana heldur er einnig hið mikilvægasta frv. til umfjöllunar um stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum og stefnu hæstv. ríkisstjórnar á því sviði. Ég verð að segja það að þrátt fyrir að hæstv. fjmrh. virtist harla ánægður í framsöguræðu sinni með það verk sem hann hefur lagt fyrir Alþingi þá finnst mér varla ástæða til þess að fagna svo mjög. Við höfum að vísu líka heyrt hæstv. forsrh. blása kreppuna af aftur og aftur með miklum lúðrablæstri en það er eins og sá lúðrablástur hafi ekki heyrst inn í fjmrn. Einhverra hluta vegna er það a.m.k. svo að í þessu plaggi sem hæstv. ráðherra leggur fyrir okkur er enn spáð auknu atvinnuleysi. Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysið vaxi frá því sem er í ár og það getur varla verið fagnaðarefni. Að vísu er smáhuggun í greinargerðinni en þar er sagt að atvinnuleysið sé minna hér á landi en annars staðar. Ég segi nú eins og einhvers staðar hefur verið sagt áður: Litlu verður Vöggur feginn.
    Það er einhvers staðar rætt um það líka að svigrúm sé til frekari vaxtalækkana en hæstv. ríkisstjórn hefur hrósað sér mjög að hafa náð vöxtum nokkuð niður frá þeirri hækkun sem hún stóð fyrir í upphafi valdatíma síns en mér finnst ég hafa heyrt í fréttum í dag að vextir væru þvert á móti að hækka. Mig minnir að ég hafi hlýtt á það í fréttum Ríkisútvarps í morgun eða dagskrárþætti einhverjum að nú væru vextir að hækka og það væri m.a. vegna óvissu í ríkisfjármálum sem m.a. stafaði af óvissu í kjarasamningum og svo það að einhverjir --- ég veit ekki eiginlega hverjir eru svo bjartsýnir --- eru svo bjartsýnir að halda að einhverjar framkvæmdir eða fjárfestingar væru á döfinni. Þá fer auðvitað fjármagnseigendaliðið af stað og hækkar vextina til þess að geta þá e.t.v. komið í veg fyrir slíka þróun eða þá a.m.k. grætt eitthvað á henni ef hún skyldi nú þrátt fyrir allt eiga sér stað. Þetta stangast náttúrlega á við röksemdafærslu hæstv. fjmrh. og þá sem kemur fram í þessu frv. eins og öðrum frv. hæstv. ríkisstjórnar um ríkisfjármál, að meginröksemdin fyrir því að ná niður vöxtum sé sú að draga úr ríkissjóðshallanum og skera niður ríkisútgjöldin. Vissulega er þó nokkur tekjuauki í ríkisfjármálunum nú þegar í ár og stefnt að því --- hvað sem reynslan segir okkur til um --- að ríkissjóðshallinn verði minni á næsta ári. Í einni setningu í greinargerð þessa frv. segir, með leyfi forseta: ,,Afkoma ríkissjóðs 1994 er nær markmiðum fjárlaga en verið hefur um langt árabil.``
    Þetta er kannski ástæða til að skoða aðeins nánar. Að vísu segir að tekjur aukist um 2,5 milljarða kr. í ár og hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í framsöguræðu sinni að tekjuauka ætti að nýta til þess að lækka halla ríkissjóðs. En er það svo? Er það staðreyndin á yfirstandandi ári? Í frumvarpsgreinargerðinni er nefnilega líka greint frá því að útgjöldin hækki um tæpa 4 milljarða. Er það að halda sig við markmið fjárlaga, hæstv. fjmrh.? Tekjurnar aukast að vísu um 2,5 milljarða þannig að hallinn eykst þá ekki nema um 1,5. En útgjöldin fara auðvitað langt umfram það sem fjárlögin gerðu ráð fyrir og kemur sumum hér inni ekki á óvart, þó það kunni að koma hæstv. fjmrh. á óvart og e.t.v. öðrum hæstv. ráðherrum. Þetta er svo sem rökstutt með því að segja: Þetta eru sérstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ríkisstofnanir halda sig við fjárlög, þær hafa staðið við stefnumótunina og það sem þeim var markað og það er vissulega rétt, a.m.k. að hluta til. En í hverju eru þá ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fólgnar? T.d. nýjum kjarasamningum upp á 450 millj. kr. í nýjum útgjaldaauka. Datt engum það í hug? Var það eitthvað ófyrirséð? Vissi enginn að það væru lausir kjarasamningar og það þyrfti kannski að semja við það fólk og það gæti kostað einhverja fjármuni? Það leiðir til þess að eingreiðslur lífeyris- og atvinnuleysistrygginga eru hækkaðar um 400 millj. kr. Vissi enginn þetta heldur? Var þetta algerlega óvænt og ófyrirséð? Sjúkratryggingar hækka um 900 millj. kr. Þetta vissu auðvitað allir nema þá kannski hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. A.m.k. held ég að flestum öðrum hv. þm. hafi verið ljóst að markmiðin sem sett voru í fjárlagafrv. í fyrra voru algerlega óraunhæf. Og skólar og sjúkrahús og fleiri stofnanir hækka um 200 millj. kr. Þetta eru samtals 2 milljarðar af þessum 4 sem útgjöldin aukast í ár.
    Í fjárlagafrv. er gerð grein fyrir stefnumörkun til lengri tíma. Það er út af fyrir sig virðingarvert að setja sér stefnu og markmið til fleiri ára til þess að vinna að, en það hefði verið skynsamlegra af hæstv. ríkisstjórn að setja þennan boðskap fram í upphafi síns valdatíma en ekki í lok hans. Ég geri a.m.k. síður ráð fyrir því að það verði framlenging á lífi þessarar hæstv. ríkisstjórnar, kæmi það mjög á óvart ef svo yrði og þess vegna finnst mér að þó þessi fyrirheit séu út af fyrir sig í mörgu ágæt þá séu þau ekki mjög markviss.
    Ég get tekið undir sumt af því sem hér er sagt og reyndar höfum við framsóknarmenn ályktað um að það eigi að setja sér markmið og það sé mikilvægt að ná jöfnuði milli tekna og gjalda og koma í veg fyrir hallarekstur ríkissjóðs og slíkum markmiðum þurfi að ná í áföngum. Við höfum sett fram hugmyndir um hvernig það verði gert og m.a., með leyfi forseta, segir í samþykkt síðasta flokksþings framsóknarmanna fyrir tveimur árum síðan:
    ,,Samþykkt verði rammafjárlög til þriggja ára í senn þar sem rekstrarframlög til stofnana verði

ákvörðuð í meginatriðum. Einstökum stofnunum verði sett ákveðin markmið um aukna hagkvæmni í rekstri. Sjálfstæði stofnana verði aukið jafnframt því sem frumkvæði og ábyrgð stjórnenda verði meiri og skipulagsbreytingar verði í samráði við starfsfólk einstakra stofnana . . .  `` Svo dæmi séu tekin úr þessari stefnu. Um þetta get ég út af fyrir sig verið sammála hæstv. fjmrh.
    En það er annað sem kemur fram í þessari stefnumótun hans sem ég er ekki jafnsammála um. Það eru þær forsendur sem hann gefur sér við þessa stefnumótun. Má t.d. nefna í fyrsta lagi að það er sagt: ,,Verulegur samdráttur verður í fjárfestingu, a.m.k. í upphafi tímabilsins . . .  `` sem þýðir þá líklega næsta ár og kannski þar næsta. Í öðru lagi segir: ,,Stefnt er að 7% útgjaldalækkun, raunlækkun á tímabilinu.`` Í þriðja lagi segir: ,,Þeir sem njóta þjónustu taki meiri þátt í kostnaði henni samfara.`` Hefði nú kannski sumum fundist að nóg væri komið af því. Og í fjórða lagi segir hér að upp skuli tekin ný forgangsröðun og væri fróðlegt að vita í hverju hún á að vera fólgin.
    Það er nauðsynlegt að fá svör við þeim spurningum, helst við 1. umr. fjárlaga frá hæstv. fjmrh., hvernig hann hugsar sér að ná þessum markmiðum fram.
    Mig langar aðeins að fara nánar yfir þessi fjögur atriði sem ég nefndi. Í fyrsta lagi þann verulega samdrátt sem boðaður er í fjárfestingu sem hlýtur að hafa áhrif á atvinnustigið og vera áhyggjuefni, bæði þingheims og svo þeirra fjölmörgu launþega sem annaðhvort hafa litla atvinnu eða óvissa atvinnu og ég tala nú ekki um alls þess fjölda sem hefur enga atvinnu. Ég hefði frekar viljað sjá boðaða stefnu í þessu fjárlagafrv. sem benti til þess að það væri von á betri tíð.
    Í öðru lagi var þetta með útgjaldalækkunina á tímabilinu. Það er sett upp nokkuð sem kallað er annars vegar halladæmi og hins vegar jafnaðardæmi og gerð grein fyrir því í greinargerð fjárlagafrv. hvernig þetta er reiknað út og hugsað. Annars vegar er sagt að það skuli stefnt að þessari 7% útgjaldalækkun að raungildi yfir tímabilið sem ég nefndi áðan. Hins vegar ef ekki verður gripið til aðgerða eða tekið í taumana muni útgjöldin aukast um 11%. Ég hefði viljað sjá dæmi og hugmyndir frá hæstv. ríkisstjórn og ég mundi gjarnan vilja láta skoða slíka hluti, hvort ekki væri hægt að setja sér markmið til þriggja eða fjögurra ára eða eins kjörtímabils þar sem stefnt væri að því að jafna tekjur og gjöld ríkissjóðs með því að binda útgjaldahliðina. Það er þegar nokkuð búið að skera hana á undanförnum árum og þykir sjálfsagt sumum nóg komið, a.m.k. í ýmsum málaflokkum --- við höfum oft rætt um bæði menntamál og heilbrigðismál og ætla ég ekki að taka langa umræðu um það hér, það gefst betri tími til þess síðar --- en leggja síðan alla áherslu á það að auka ríkissjóðstekjurnar með aukinni þjóðarframleiðslu, með meiri veltu í þjóðfélaginu og aðgerðum sem ríkisvaldið getur vissulega gripið til til þess að ná jöfnuðinum á þann hátt frekar en ganga enn lengra í niðurskurði. Auðvitað er sjálfsagt að ganga eins langt og hægt er í skynsamlegri hagræðingu og koma í veg fyrir eyðslu og bruðl en ég hygg að flestar ríkisstofnanir hafi lagt hart að sér á undanförnum árum og kemur það e.t.v. fram í því sem ég nefndi áðan að ríkisstofnanirnar standa flestar við fjárlögin og þann útgjaldaramma sem þeim hefur verið settur.
    Síðan langar mig að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hvað er átt við með því þegar hann segir í grg. frv.: ,,Þeir sem njóta þjónustu taki meiri þátt í kostnaði henni samfara``? Erum við þá enn að tala um að hækka þjónustugjöld í menntakerfinu, í heilbrigðiskerfinu eða erum við að tala um kannski sölu á þjónustu ýmissa annarra stofnana, rannsóknastofnana, sem er nú ein af skrautfjöðrunum í frv., og á nú að verja auknum fjármunum til þróunar- og rannsóknarstarfsemi til þess að efla atvinnulífið? Það er allt saman af hinu góða ef rétt er en hvað þýðir þá þetta? Á þá aftur að ætla þessum sömu stofnunum að selja þjónustu sína og eru það kannski auknu framlögin sem stofnanirnar eru að fá? Eru það auknar sértekjur, hæstv. fjmrh.?
    Ég nefndi síðan í fjórða lagi varðandi þessa nýju langtímastefnumörkun hina nýju forgangsröðun. Mér er auðvitað alveg ljóst að við búum við sjálfvirkar hækkanir af ýmsum máta, t.d. vegna fjölgunar þjóðarinnar og vegna breyttrar aldursskiptingar aukast lífeyrisgreiðslurnar og er sjálfsagt ýmis annar sjálfvirkur kostnaðarauki sem þarf að taka tillit til. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er þessi nýja forgangsröðun? Hvað á að draga saman á móti? Eða er það kannski rétt skilið hjá mér, sem mér fannst ég hafa séð í greinargerðinni einhvers staðar, ég fann það ekki í fljótheitum, og held að ég hafi heyrt hæstv. fjmrh. nefna sérstaklega áðan í framsöguræðu sinni, að það ætti að afnema sjálfvirkar hækkanir á bótagreiðslum? Það þýðir sem sagt það að lífeyrisþegar þessa lands geta ekki lengur átt það nokkuð öruggt að bætur hins opinbera til þeirra fylgi því sem gerist á hinum almenna markaði, fylgi því sem gerist í kjarasamningum og þeirri þróun sem að öðru leyti kann að vera í þjóðfélaginu og þeir hafa þó getað reitt sig nokkuð á að undanförnu.
    Mér finnst því miður í þessu frv. vera mest áberandi að ríkisstjórnin hafi gefist upp í baráttu sinni við atvinnuleysið, gefist upp í baráttunni við það að draga úr atvinnuleysinu og hún sé um það bil að sætta sig við viðvarandi kannski 5% eða, sem enn væri verra, vaxandi atvinnuleysi. Og mér sýnist á því að kreppan, sem hæstv. forsrh. hefur þó reynt að blása af, sé enn við lýði, sé enn viðvarandi. Ég ítreka þess vegna að það hefði verið nær að ríkisstjórnin setti sér skýr markmið um fjölgun starfa, um að auka hagvöxt í þjóðfélaginu og skapa ný atvinnutækifæri. Héðan af verður það trúlega verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fást við það.
    Ríkisstjórnin hefur einblínt á stöðugleikann, sem er auðvitað mikilvægur, það er mikilvægt að halda stöðugleika í efnahagslífinu, og hún hefur hælt sér af lítilli verðbólgu eða engri. En er það nú nóg? Er nóg

fyrir ríkisstjórn að ná þessum markmiðum eða vita hæstv. ráðherrar og hv. stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar ekkert um það ástand sem ríkir á fjölmörgum heimilum í landinu vegna atvinnuleysis og vegna samdráttar í atvinnulífinu? Veit hæstv. ríkisstjórn ekkert um það að í landinu er því miður vaxandi fátækt og það er átakanleg alvörufátækt til á fjölmörgum heimilum? Veit hæstv. ríkisstjórn ekkert um þá gífurlegu eignatilfærslu sem orðið hefur sem afleiðing af hinni óheftu markaðshyggjustefnu sem ríkisstjórnin hefur framfylgt? Og veit hæstv. ríkisstjórn ekki um það vaxandi óréttlæti sem er í tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu, sem m.a. stafar af röngum áherslum í skattkerfinu? Ég gæti nefnt t.d. hátekjuskattinn, sem hefur verið nokkuð ræddur hér áður og hv. formaður fjárln. gerði að umræðuefni áðan. Ég gæti nefnt fjármagnstekjuskatt en nú hefur verið upplýst af starfsmönnum fjmrn. að sú vinna er ekkert lengur í gangi. Menn eru hættir að hugsa til þess að koma á fjármagnstekjuskatti. Menn eru ekkert lengur að velta því fyrir sér. Hæstv. ríkisstjórn virðist því vera hætt við það markmið sitt. Auðvitað þarf að leggja enn aukna áherslu á bætt skatteftirlit. Ég veit þó að hæstv. fjmrh. hefur verið að vinna á því sviði allnokkurt starf og verið með nýjar áherslur sem eru þakkarverðar en ég hygg að þar þurfi að gera enn betur.
    Og að lokum langar mig til að spyrja: Veit hæstv. ríkisstjórn ekkert um þær breyttu áherslur annarra þjóða sem eru í baráttunni við atvinnuleysið, um þá miklu áherslu hjá öllum þjóðum sem búa við það böl sem atvinnuleysið er og er að verða eitt aðalviðfangsefni þjóða um allan heim? Ég heyrði að hv. formaður fjárln. gat um umræðu á þingi Evrópuráðsins sem haldið var í síðustu viku um starfsemi OECD-ríkjanna. Þar voru fulltrúar fleiri ríkja en Evrópuríkjanna. Þar voru t.d. fulltrúar frá Kanada og ég hjó sérstaklega eftir því að fulltrúi Kanada gerði það að umtalsefni að hin félagslegu viðfangsefni verða ekki lengur skilin frá hinum efnahagslegu. Hann taldi að þessi viðfangsefni bæði, efnahagsleg og félagsleg, yrðu að leysast í sameiningu og í sátt og menn yrðu að finna leið til þess. Og það var álit fleiri ræðumanna í þessari umræðu, sem mér þótti mjög athyglisverð og merkileg og hafði gaman af að hlýða á, að markaðslögmálið eitt og sér gæti ekki lengur leyst allan vanda í þjóðfélögunum. Hin félagslegu vandamál sem því miður fylgja oft þessu markaðslögmáli, ef það á eitt og sér að rétta af stefnuna, séu svo stór að nauðsynlegt sé að taka þau með inn í dæmið og fjalla um það samhliða settum markmiðum í efnahagsmálum.
    Ég hefði gaman af því að vita, hvað hæstv. núv. ríkisstjórn hefur fjallað um í þessu sambandi og sett sér í þessu sambandi. Mér finnst því miður að það sé ekki boðskapurinn sem við lesum út úr þessu fjárlagafrv. frekar en öðrum fjárlagafrumvörpum hennar og þó að ég geti út af fyrir sig tekið undir með hv. formanni fjárln. þegar hann var að tala um nauðsyn þess að forvarnastarf ætti sér stað víðar heldur en í heilbrigðiskerfinu, forvarnastarf þyrfti líka að eiga sér stað í efnahagskerfinu, í efnahagsmálunum og í fjárlögum ríkisstjórnar á hverjum tíma, þá þarf það forvarnastarf að vera þess eðlis og með þeim hætti að við séum í alvöru að leysa öll mál og sjáum yfir allt sviðið en horfum ekki á mál einangruð og sér og segjum: Þetta mál ætlum við að leysa núna og búa með því til ný vandamál. Það höfum við því miður verið að gera. Það höfum við verið að gera með því að ráðast t.d. á ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar á þann hátt að forvarnastarfi þar hefur verið hent fyrir borð, ef það má orða það þannig. Ég óttast að við séum einnig að gera það í sambandi við efnahagsstefnuna að með því að byggja hana upp svo einangrað og afmarkað á markaðslögmálinu eins og þessi ríkisstjórn hefur gert allan tímann í sinni stjórnartíð séum við að kasta félagslegum markmiðum fyrir róða. Þá er forvarnastarfið lítils virði. Ég er hræddur um að þá sitjum við uppi með fortíðarvanda frá núv. ríkisstjórn sem sú ríkisstjórn, sem kann og verður að taka við af þeirri sem nú situr, verður að takast á við.
    Þetta eru þau atriði, virðulegur forseti, sem ég vildi leggja áherslu á við 1. umr. um fjárlagafrv. Ég sé að minn tími er alveg á þrotum og mig langar aðeins í lokin að segja það um einstaka efnisþætti frv. og athugasemdir um tekju- og gjaldahlið verður fjallað nánar við 2. umr. frv. eftir að hv. fjárln. hefur haft það til meðhöndlunar Þar á ég sæti og hef því kost á að fylgjast með því og gera athugasemdir og reyna að koma fram þeim lagfæringum eða úrbótum sem ég tel vera þörf, en það verður að bíða síns tíma.