Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:33:25 (199)


[16:33]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það hefði verið æskilegt að hæstv. heilbrrh. hefði getað verið viðstadur umræðuna hér í dag, en mig langar til að leggja nokkur orð í belg um málaflokk hans.
    Í athugasemdum með því frv. til fjárlaga sem við ræðum í dag kemur fram að hæstv. heilbrrh. hyggst ná fram sparnaði í sérfræðiþjónustu með endurupptöku á tilvísunarkerfinu svokallaða. Fyrir tveimur árum var sami ráðherra með svipaðar hugmyndir uppi á borði og var þeim mótmælt bæði af almenningi í fjölmiðlum og hér á hinu háa Alþingi, m.a. af mér og hv. þm. Pálma Jónssyni. Rökin voru bæði að ekki væri sýnt fram á að sparnaður fælist í slíku kerfi og að tilvísanakerfið skerti valfrelsi fólks til læknisþjónustu.
    Ég vil að gefnu tilefni við 1. umr. um frv. til fjárlaga endurtaka umfjöllun mína um þessa þrálátu hugmynd núv. hæstv. heilbrrh. að unnt verði að ná sparnaði í heilbrigðiskerfinu með endurupptöku þessa kerfis og spara þannig um 100 millj. kr. Svo virðist sem rökin fyrir endurinnleiðingu tilvísanakerfis séu þau sömu og sami ráðherra hafði fyrir tveimur árum, þ.e. að sparnaður náist í heilbrigðiskerfinu ef

sjúklingar leita eingöngu til sérfræðinga fyrir tilstilli heimilislækna. Þessu vil ég eindregið andmæla, enda hafa hvergi komið fram útreikningar frá heilbrrn. né fjmrn. sem styðja þessa hugmynd hæstv. ráðherra. Þvert á móti tel ég að endurinnleiðing tilvísanakerfis muni fremur leiða til aukinna útgjalda ríkisins nema það sé ætlun ráðherra að draga úr eftirspurn fólks eftir nauðsynlegri læknisþjónustu sem getur haft sínar afleiðingar. Ef við höfum í huga þær breytingar sem orðið hafa í sjúkrahúsþjónustu á undanförnum árum og að umtalsverður hluti þeirrar þjónustu hefur færst út á lækningastofu sérfræðinga þá má í raun segja að það sé ótrúlegt að hlutur sérfræðikostnaðar í heilbrigðisþjónustu hafi ekki vaxið enn meir á undanförnum árum. Raunin er sú að hlutfall sérfræðikostnaðar nam á sl. ári um 3,6% af heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustuna en var 3,3% árið 1989. Útgjöld vegna sérfræðikostnaðar 1993 nam um 1.020 millj. kr. en nam miðað við sama verðlag 1.132 millj. kr. árið 1989. Það er því varla unnt að halda því fram með réttu að sérfræðikostnaður utan sjúkrahúsa miðað við aukin afköst undanfarinna ára sé dragbítur í kostnaðarlegu tilliti. Þvert á móti tel ég að það kerfi sem viðgengst í dag og felst í því að fólk njóti valfrelsis og leiti til þeirra lækna sem það telur geta leyst sem skjótast og hagkvæmast úr vanda þess þegar á bjátar skili sér í lágmarkskostnaði fyrir ríkissjóð.
    Ég vil sérstaklega taka fram að að sjálfsögðu leitar fólk fyrst til síns heimilislæknis þegar þannig stendur á. Ég hef áður lýst því yfir að ég telji almenning vel færan um að meta sjálfan í langflestum tilvikum hvort það sé heppilegra að leita beint til sérfræðings eða fá um það ráð frá heimilislækni. Það hlýtur að gefa auga leið að ef fólk verður á einn eða annan hátt þvingað til að leita til tveggja lækna í stað eins þá leiðir það af sér óþarfa útgjöld ríkisjóðs auk óþæginda fyrir sjúklinga.
    Enn vil ég benda á að meðalgreiðsla ríkissjóðs vegna heimsókna til heimilislæknis er að öllum líkindum ekki lægri en að leitað sé sérfræðiaðstoðar því að sjúklingar greiða mun meira úr eigin vasa til sérfræðinga. Þannig á það ekki að skipta sköpum fyrir ríkissjóð til hvors sé leitað, heimilislæknis eða sérfræðings.
    Álag á heimilislæknisþjónustu hefur einnig vaxið mjög á undanförnum árum og vil ég aftur benda á að auk tvöföldunar á kostnaði sem af hlytist í langflestum tilvikum við endurupptöku tilvísunarskyldu þá yrði viðbótarálag á heimilislækna umtalsvert. Heimilislæknar á landinu öllu eru nú um 400 talsins en gera má ráð fyrir að heimsóknir til sérfræðinga nemi um 400 þúsund heimsóknum á ári. Það yrði því heldur betur að fjölga í stétt heimilislækna til þess að ráða við tilvísanafarganið.
    Í frv. er enn fremur áformað að bjóða út meinefnarannsóknir fyrir sjúklinga sem þarfnast ekki innlagnar og lækka þannig útgjöld um 70 millj. kr. Ég er í grundvallaratriðum samþykk þeim aðferðum en þó tel ég að fara verði afar varlega með slíka samninga þannig að menn sitji við sama borð við útboð þeirra. Líklegt er að boðið verði í þjónustuna bæði af einstaklingum og opinberum stofnunum og því nauðsynlegt að gæta að skekkju sem valdið gæti mismun í hag opinberra rannsóknarstofa. Tryggja þarf að slíkar skekkjur liggi ekki í tilboðum aðilanna. Til nánari útskýringinar vil ég benda á að tilboð einkarekinna rannsóknarstofa munu miðast við allan reksturskostnað einkarekinna rannsóknarstofa að meðtöldum fjármagns- og stofnkostnaði. Hins vegar er enn þá erfitt að skilja að fjárhagsleg tengsl rannsóknarstofa opinberra stofnana við aðrar þjónustudeildir þeirra og þá ekki síst fjármagns- og stofnkostnað. Því gæti reynst erfitt að bera saman tilboð frá einkareknum aðilum og rannsóknarstofum á vegum hins opinbera.
    Enn fremur er nauðsynlegt að tryggja að útboð leiði ekki til rýrnunar á þjónustugæðum og hefti framfarir í heilbrigðisþjónustu.
    Enn fremur áformar hæstv. heilbrrh. að lækka útgjöld vegna sjúkraþjálfunar um 50 millj. kr. en ekki er nánar greint frá því hvernig þeim sparnaði verður náð.
    Hæstv. heilbrrh. áformar einnig að flýta seinni gildistöku nýrra lyfjalaga um heila tíu mánuði. Sl. vor náðist samkomulag milli stjórnarflokkanna um að skoða og meta áhrif þeirra þátta lyfjalaga sem væru bein afleiðing af gildistöku EES-samningsins sérstaklega og fá þannig á hreint hvaða áhrif EES-samningurinn hefði á lækkun á lyfjakostnaði. Reyndar var það skoðun margra að sú gildistaka, sem sátt varð um að lokum, kæmi of snemma, hálft ár til viðbótar væri mun eðlilegri tími með gildistöku 1. júlí 1996. Það gefur auga leið að sex mánaða reynsla á EES-samninginn með seinni gildistöku 1. jan. 1995 nægir engan veginn til að meta að fullu eða með nokkurri sanngirni áhrif samningsins á lyfjaverð í landinu og get ég því með engu móti fallist á flýtingu gildistöku seinni áfanga lyfjalaganna um nk. áramót, hvað þá heldur þau rök að sú flýting lækki á einu ári lyfjakostnaðinn um 200 millj. kr.
    Að lokum vil ég leyfa mér að nefna fyrirhugaðar breytingar á verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það er viss áherslubreyting í frv. þar sem ekki er minnst á sameiningarhugmyndir Borgarspítala og Landakotsspítala heldur einvörðungu er talað um flutning barnadeildar Landakotsspítala á Borgarspítala. Gert er ráð fyrir 50 millj. kr. viðbótarreksturskostnaði af þeim sökum. Hins vegar er ljóst að leggja þarf í framkvæmdir vegna flutnings á hjartadeild og breytingu á núverandi húsnæði hennar vegna barnadeildar. Það virðist ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum framlögum vegna þessara breytinga en stofnkostnaður er óbreyttur til spítalans.
    Ég vil hvetja til þess að fundin verði sem fyrst framtíðarlausn á sameiningarmálum Landakots og Borgarspítala og að horft verði til framtíðar með framþróun og faglegt og fjárhagslegt aðhald í huga.