Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:41:45 (200)


[16:41]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umræðuefni nokkur mál sem sérstaklega heyra undir menntmrn. við 1. umr. fjárlaga.
    Það er í fyrsta lagi mál sem varða Háskóla Íslands. Á fundi hv. menntmn. í morgun fengum við gesti frá háskólanum sem hafa miklar áhyggjur af því hvernig fjárlagafrv. lítur út og það sem að þeim snýr. En framlög á nemanda hafa lækkað um 10% frá árinu 1991, sem sagt í tíð þessarar ríkisstjórnar og það vantar í raun 300 millj. til að hægt sé að tala um að reka háskólann á sómasamlegan hátt. En þeir fara ekki fram á þá upphæð á fjárlögum 1995 heldur að fá 100 millj. til viðbótar.
    Það er svipuð upphæð og nú innheimtist af skólagjöldum í háskólanum en háskólinn hefur þurft að fara þá leið að innheimta háar upphæðir í skólagjöldum. Hver nemandi greiðir 18 þús. kr. til reksturs háskólans. Háskólamenn svöruðu því aðspurðir að þeir treystu sér ekki til þess að hækka skólagjöldin um helming enda held ég að þá heyrðist hljóð úr horni. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann ætli virkilega að standa þannig að málum að Háskóli Íslands verði nánast óstarfhæfur.
    Það kom einnig fram hjá háskólamönnum að miðað við þá bjartsýni sem ríkir hjá hæstv. forsrh. þá undrast þeir mjög að svona skuli vera staðið að málum gagnvart þeim.
    Þá má nefna Lánasjóð ísl. námsmanna sem er skertur um 50 millj. kr. og meira að segja formaður sjóðsins telur að það sé ekki hægt að ganga lengra í skerðingu við námsmenn og það verði þá að fara út í auknar lántökur sem er nánast þversögn við það sem talað var um þegar lögunum var breytt á hv. Alþingi fyrir örfáum árum.
    Ég vil þá spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann muni beita sér fyrir auknu framlagi til Lánasjóðs ísl. námsmanna á árinu 1995 eða hvernig hann sjái fyrir sér að málefni sjóðsins verði leyst á annan hátt.
    Það vekur athygli, svo ég víki að grunnskólanum næst, að miðað við framsetninguna í fjárlagafrv. er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir því að grunnskólinn færist yfir til sveitarfélaganna 1. ágúst 1995. Þess vegna leiðir maður hugann að því hvort það sé kannski bara grín að hér eigi að taka upp mikla umræðu um skólamál og breyta lögum bæði um grunnskóla og framhaldsskóla. Ég hefði haft ánægju af því ef hæstv. menntmrh. vildi fræða okkur um hvernig stendur á þessu ósamræmi sem þarna er á milli.
    Það er enn reiknað með því að skerða grunnskólann vegna þess að gert er ráð fyrir hagræðingu í rekstri upp á 1% sem mun gefa um 40 millj. kr. og ég get ekki séð hvernig er hægt að ná þeim sparnaði fram eftir allan þann niðurskurð sem hefur átt sér stað á síðustu árum. Það væri hægt að hafa mörg orð um grunnskólann og hvernig þau mál hafa öll þróast á síðustu árum. Hæstv. menntmrh. sagði reyndar í sinni ræðu undir stefnuræðu forsrh. að hann ætlaði að standa sig mjög vel og skila þessum kennslustundum aftur þegar hann hætti og má kannski segja að það sé virðingarvert. En ég veit ekki hvernig hann ætlar að skila því til þeirra nemenda sem hafa verið svo óheppnir að vera einmitt í grunnskólanámi þessi síðustu ár. Ég er hrædd um að þau ár komi aldrei aftur, hæstv. menntmrh.
    Mig langar til þess að snúa mér að öðru málefni sem er listskreytingasjóður ríkisins, hæstv. forseti. Eitt af því sem vekur athygli í frv. til fjárlaga er að ekki er gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til listskreytingasjóðs en framlög á þessu ári voru 12 millj. kr. En í frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Allt frá því að lögin um listskreytingasjóð voru sett hafa fjárveitingar til sjóðsins verið skertar. Menntmrn. vinnur nú að endurskoðun laga um listskreytingasjóð.``
    Þar sem núv. hæstv. menntmrh., Ólafur G. Einarsson, var einn þriggja flm. að frv. til laga um listskreytingar opinberra bygginga langar mig til þess að spyrja hann hvaða þættir það eru í lögunum, sem samþykkt voru árið 1982, sem hann er ósáttur við. Eða er hann e.t.v. aðeins ósáttur við það að lögunum var ekki framfylgt? Ef svo er þá legg ég til að sjóðurinn verði ekki settur í algjört fjársvelti heldur fái nokkurt fjármagn þannig að hann hjari áfram þangað til ný lög hafa verið samþykkt. Það er engin ástæða til að höggva algjörlega á fjárveitingar meðan beðið er eftir nýjum lögum ef eina markmið þeirra er að tryggja betur en tekist hefur að sjóðurinn fái það sem honum ber. Þau lög sem nú gilda voru sett í tíð Ingvars Gíslasonar sem menntmrh. og þó að þeim hafi ekki verið framfylgt sem skyldi þá er ég sannfærð um að þau hafa gert mikið gagn og orðið til þess að opinberar byggingar hafa verið listskreyttar.
    Mér finnst það mjög alvarlegt mál sem hér blasir við okkur og hæstv. menntmrh. getur ekki komist hjá því að segja okkur frá því í þessari umræðu hvernig hann ætlar að leysa þessi mál ef engin verði framlögin.
    Hæstv. forseti. Það er ekki langur tími sem hver ræðumaður hefur þannig að ég ætla að venda mínu kvæði í kross og koma aðeins að öðru máli sem er Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn, en það mun verða vígt þann 1. des. 1994 og er þá lokið langri byggingarsögu sem ekki er að öllu vansalaus eins og þingheimur veit. Það er trúlega óþarfi að rifja upp þá sögu svo kunn sem hún er en af því að rannsókn á fortíðinni getur oft forðað okkur frá því að gera aftur sams konar mistök þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um sögu safnsins áður en ég vík að ætluðum framlögum til safnsins á fjárlögum.
    Það má eiginlega rekja söguna a.m.k. til ársins 1957 er Alþingi samþykkti þáltill. þess efnis að sameina bæri Háskólabókasafn Landsbókasafni eins fljótt og unnt væri.

    Frv. til laga um þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu var samþykkt á Alþingi 22. apríl 1986 og skyldi sérstakur eignarskattsauki fyrir árið 1987--1989 verða varið í því skyni að ljúka smíði bókhlöðunnar. Ekki urðu efndirnar þó með sama stórhug sem loforðin. Álagning eignarskattsaukans árið 1987--1989 nam samtals 687 millj. Af þeim skiluðu sér 540 millj. á verðlagi september 1989. Ef maður færir það til verðlags í dag þá má reikna með að það sé yfir 700 millj. Þarna hefur því ekki verið staðið vel að málum.
    Á hinn bóginn samþykkti Alþingi 19. maí 1989 lög um áframhald álagningu eignarskattsaukans og skyldi honum að þessu sinni verða varið til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana, stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins og ljúka byggingu Þjóðarbókhlöðunnar. Til að taka af allan vafa að í upphafi skyldi lokið smíði bókhlöðunnar var eftirfarandi ákvæði sett í lok laganna, með leyfi forseta: ,,Þar til byggingu Þjóðarbókhlöðu er lokið skal sérstakur eignarskattur samkvæmt lögum þessum renna til þeirrar framkvæmdar eftir því sem þörf krefur.``
    Þrátt fyrir þessi ákvæði var jafnnaumt skammtað til bókhlöðunnar næstu árin og áður hafði verið og það var ekki fyrr en árið 1992 sem þau umskipti urðu á framkvæmdum laga um eignarskattsaukann að meginþorri hans rann til framkvæmda á bókhlöðunni.
    Á þeim langa tíma sem liðinn er frá því að fyrst var ýtt úr vör með hugmyndir um sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns hefur margt breyst. Ég hygg að í dag mundi ekki verða farið af stað með byggingu eins safns yfir svo margþætta starfsemi en það er annað mál.
    Fjárveitingar til starfsmanna Landsbókasafns og Háskólabókasafns á árinu 1994 eru áætlaðar tæpar 68 millj. og eru þá ótalin átta störf sem greidd eru af stofnkostnaði Þjóðarbókhlöðu. Fjárveitingin byggir á 55 störfum. Samkvæmt fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir er vafasamt hvort unnt verði að ráða allt fastráðið starfsfólk til hinnar nýju stofnunar enda þótt í athugasemdum við frv. til laga um Þjóðarbókhlöðu hafi verið sagt um starfsmannamál, með leyfi forseta:
    ,,En rétt er að benda á að sökum hinnar auknu og víðfeðmu starfsemi bókasafnsins samkvæmt þessu frv. eru ekki líkur á að fækka megi starfsmönnum safnsins heldur hið gagnstæða.``
    Þá er enn fremur ástæða til þess að benda á að fjmrn. hefur veitt umsögn sína og birtist hún í fskj. I um frv. til laga um Þjóðarbókhlöðu og verður að ætla að niðurstaða fjmrn. eigi að geta orðið viðmiðunartölur um að ekki verði komist lægra án þess að stefna þeim markmiðum sem menn setja sér í hættu.
    Um launamál og starfsmannahald farast ráðuneytinu svo orð, með leyfi forseta:
    ,,Samstarfsnefndin [þ.e. samstarfsnefnd um nýtt þjóðbókasafn] telur að miðað við fullan rekstur verði störfum að fjölga í 107. Fjmrn. telur óhjákvæmilegt að nokkur fjölgun verði á starfsmönnum við það að söfnin tvö sameinast og flytja í nýtt húsnæði. Við sameininguna eykst þjónustuhlutverk safnanna og umfang hins nýja húss kallar á aukið starfslið. Telja verður ásættanlegt að starfsliði fjölgi í 82, en viðbót um frekari 25 starfsmenn eftir hugmyndum samstarfsnefndarinnar verður að bíða síðari tíma og kosta það eftir því sem fé fæst á fjárlögum.``
    Um rekstrarkostnað safnsins segir fjmrn. í áður tilgreindu fskj., með leyfi forseta:
    ,,Heildaraðföng bóka, tímarita og nýsigagna beggja safnanna eru talin kosta 52 millj. kr. á árinu 1994 á verðlagi þess árs en samstarfsnefndin telur að auka þurfi fjármuni til aðfanga um 18 millj. kr. . . .   Fjmrn. telur ásættanlegt að sú fjárhæð verði óbreytt milli ára.`` --- Litlu síðar segir: ,,Áætlun samstarfsnefndar um rekstur húsnæðis upp á 44 millj. kr. er að mati fjmrn. vel unnin og endurspeglar væntanlegan rekstrarkostnað á raunsæjan hátt.`` --- Og litlu síðar segir: ,,Önnur rekstrargjöld eru talin nema 49 millj. kr. . . .  Að mati fjmrn. mætti komast af með lægri fjárhæð.``
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann muni ekki beita sér af alefli í þá veru að í stað áætlunar upp á 161 millj. kr. til Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns verði niðurstaða Alþingis a.m.k. í samræmi við álit fjmrn. í umsögn sinni um frv. Með leyfi forseta vil ég enn vitna í umsögn ráðuneytisins þar sem segir:
    ,,Samandregin niðurstaða fjmrn. er því á þann veg að launakostnaður verði 101 millj. kr. á fyrsta ári og annar rekstur kosti 141 millj. kr.`` Alls 242 millj. kr. --- Er hæstv. menntmrh. bara algjörlega horfinn undir þessari ræðu? ( Gripið fram í: Honum ofbauð.) Honum ofbauð. Ég vona að hann sé samt einhvers staðar hér í grenndinni. En ég var að hafa það yfir að þetta væru alls 242 millj. kr. í staðinn fyrir 161 sem er í frv.
    Ég vil einnig árétta að niðurstaða fjmrn. er umtalsverð lækkun frá upphaflegri áætlun eða um 50 millj. kr. Ég treysti því að hæstv. menntmrh. sé hér einhvers staðar í hliðarsölum og heyri mál mitt og muni svara þessari spurningu minni.
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki hugsað mér að hafa hér lengra mál að þessu sinni, en ég hef að sjálfsögðu tækifæri til þess að koma aftur inn í þessa umræðu síðar þegar hæstv. menntmrh. er viðstaddur.