Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:24:25 (216)


[18:24]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það skiptir náttúrlega mestu máli í sambandi við háskólann hver staða hans er nú. Stöðu hans metur háskólarektor, Sveinbjörn Björnsson, þannig í viðtali við sjónvarpið þann 5. þessa mánaðar, svo ég hafi það eftir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar við reiknum kostnað hér og notum íslensk launakjör þá kemur samt svo út að okkur vantar um 20% á okkar fjárveitingar til að vinna með sama lagi og evrópskir skólar vinna.``
    Þetta eru auðvitað alvarleg tíðindi, hæstv. menntmrh., og ástæða til að staldra við.
    Skerðing Kvikmyndasjóðs verður auðvitað ekkert léttbærari þó hann hafi verið skertur áður. Það er náttúrlega alveg einkennileg ráðstöfun af því að þessi sjóður aflar gjaldeyristekna og mokar peningum inn í landið eins og hæstv. menntmrh. viðurkennir að þá skuli vera notað tækifærið til að skerða hann.