Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:05:25 (267)


[14:05]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er náttúrlega eðlilegt að hæstv. fjmrh. sé hvumpinn þegar þessi vaxtamál ber á góma og ókyrr mjög eins og gefur að sjá og heyra. Staðreyndin er náttúrlega sú að sú yfirlýsing sem hann gaf í fréttum í gær var alveg dæmalaus. Það var stundum sagt hér á árunum að menn væru að fella gengið með blaðri um væntanlegar gengisfellingar og auðvitað er það alveg eins með vaxtahækkanir. Ef sjálfur fjmrh. gefur það út í fjölmiðlum að nú megi búast við vaxtahækkunum þá hækka vextirnir jafnvel þó ekkert annað kæmi til. Síðan er það auðvitað þannig að hæstv. fjmrh. á í miklu baksi með sögu ríkisstjórnarinnar í þessum vaxtamálum því að það veit öll þjóðin að hans fyrsta verk og ríkisstjórnarinnar fyrsta verk á þessu sviði var að hækka vaxtastigið í landinu um hartnær fjórðung, bara að drífa upp vextina, hækka einhliða vextina á ríkispappírunum, sem teymdu síðan allt vaxtastigið í landinu á eftir sér. Þetta veit öll þjóðin. Við það sat í ein tvö ár að vaxtastigið hér var alveg óheyrilega hátt og þó svo að vextirnir hafi núna lækkað á nýjan leik þá er það auðvitað ekki nema vonum síðar að þeir kæmust á nýjan leik

niður á við úr þeim hæðum sem ríkisstjórnin sjálf setti þá upp í. Og talandi um það hvort hér sé á ferðinni handafl eða markaður, handleiðsla eins og ég datt nú niður í að orða það í fyrra eða hvað skiptir auðvitað ekki öllu máli. Það er hin efnislega niðurstaða sem telur. Menn geta kallað þetta handaflsmarkað eða hvað sem er mín vegna, (Gripið fram í.) það breytir ekki máli, hæstv. umhvrh., sem ég held að ætti nú að hugsa um skordýrin og láta þessa vaxtaumræðu í friði.
    Hæstv. forseti. Auðvitað er það þannig að þetta fjárlagafrv. ber miklu metnaðarleysi vitni. Og satt best að segja er mér til efs að menn hafi reynt að rumpa saman fjárlagafrv. og ná svona eitthvað utan um halla í fjárlagafrv. með jafnaumingjalegum hætti eða billegum eins og hér gefur að líta. Staðreyndin er sú að þegar farið er yfir forsendur þessa frv. eins og ég mun gera í nokkrum liðum á eftir, þá er það satt best að segja mikil sorgarsmíð, bæði vegna þess að það er svo bjálfalegt en líka vegna þess auðvitað að pólitíkin sem í því felst er mjög grimmúðleg því að þar eru fyrst og fremst velferðarmálin lögð undir með algerlega fráleitum frágangi á því hvernig eigi að sjá fyrir útgjöldum til þeirra mála á næsta ári.
    Ég vil þó fyrst auðvitað nefna aumingjaskapinn gagnvart tekjuöflun sem er dæmalaus við þær aðstæður sem hæstv. fjmrh. hefur búið við, að vera þegar orðinn Íslandsmeistari í hallarekstri á einu kjörtímabili. Að hæstv. fjmrh. skuli þá ekki reyna eitthvað til tekjuöflunar. Ná a.m.k. að einhverju leyti þannig upp í þennan vanda. Nei, það má ekki. Frjálshyggjukreddan bannar að það séu lagðir á skattar eða aflað tekna jafnvel á þá sem þó mega sín einhvers. Þess vegna situr fjmrh. uppi með þá dæmalausu niðurstöðu að vera að missa út mörg hundruð milljónir króna vegna þess að það á að hætta að leggja á hátekjuskatt. Möguleikar til þess að skattleggja fjármagnstekjur og fá kannski tekjur upp á 1---2 milljarða svo vægt sé reiknað með því móti eru lagðir til hliðar. Það er ljóst að skatttekjur af fyrirtækjum gætu verið mörg hundruð milljónum króna meiri ef notaðar væru álagningareglur frá t.d. fyrra ári en ekki haldið áfram á þeirri braut að lækka til að mynda tekjuskattinn á gróðafyrirtækjunum. Það mætti halda að hæstv. fjmrh. væri bara arabískur olíufursti og peningarnir stæðu út úr eyrunum á honum eins og hann umgengst tekjumöguleika ríkisins. Þetta er alveg með ólíkindum við þær aðstæður að hér á hvort tveggja í senn, að reka ríkissjóð áfram með miklum halla og skuldasöfnun og skera niður marga viðkvæma málaflokka í velferðarkerfinu. Þetta er alveg dæmalaust.
    Eins eru, hæstv. forseti, ákveðnir liðir í greinargerð með frv. náttúrlega alveg kostulegir. Ég vil til að mynda spyrja hæstv. fjmrh. hvort orðalag á bls. 240 sé brandari. Er þetta gamansemi í texta greinargerðar fjárlagafrv. þar sem segir neðarlega á blaðsíðu 240, með leyfi forseta:
    ,,Allt eru þetta merki um að þáttaskil hafi orðið í efnahagsmálum hér á landi.`` Það sem hefur verið farið yfir það á undan. Svo segir: ,,Þau má að verulegu leyti rekja til umbóta í hagstjórn í tíð ríkisstjórnarinnar.``
    Ég spyr aftur, hæstv. fjmrh.: Er þetta gamansemi? Eða er virkilega ætlast til að menn taki mark á þessu? Þegar það liggur fyrir að það sem helst er hægt að telja til jákvæðra hluta eru utanaðkomandi ástæður sem koma hagstjórn þessarar ríkisstjórnar, ef því nafni skyldi kalla, ekkert við. Eins og afli í Smugunni og batnandi efnahagsástand í viðskiptalöndum okkar eða fjölgun erlendra ferðamanna. Er það hagstjórn fjmrh. að þakka að hingað koma fleiri Þjóðverjar? Ég hef ekki orðið var við það.
    Sama má segja um orðalag á bls. 242. Hvaða innstæður, hæstv. fjmrh., eru fyrir því orðalagi að besta leiðin til að tryggja breytingar í sambandi við ríkisábyrgð og fleira hjá hinu opinbera sé að breyta ríkisbönkum og fjárfestingarlánasjóðum í hlutafélög og selja hlutabréfin? Hvaða innstæða er á bak við þetta? Er ríkisstjórnin búin að taka um það einhverja nýja ákvörðun að gera þetta? Og ef ekki til hvers er þá verið að setja þetta á blað eina ferðina enn? Er það af því að hæstv. fjmrh. hafi gaman af því að verða til athlægis ár eftir ár eftir ár? Fjmrh. setti 1.200 millj. inn í teknahlið frv. fyrstu ár sín í embætti því hann ætlaði alltaf að selja heilu og hálfu bankana, þess vegna á útsölu ef ekki vildi betur til, og hafði svo upp úr krafsinu 50--70 millj. kr. á ári. Ég sé að vísu að hæstv. fjmrh. hefur lært af þessu og setur núna af allri hógværð inn í teknahliðina einungis 100 millj. kr. í sölu eigna, úr 1.200 millj. niður í 100 millj. Svona hefur nú reynslan kennt hæstv. fjmrh. bitran sannleika. En til hvers þá þessa þvælu einu sinni enn um að selja ríkisbankana og fjárfestingarlánasjóðina þegar ljóst er að það verður ekki neitt úr neinu hjá ríkisstjórninni og hún hefur ekkert komist áfram með þessi áform?
    Ég hefði, hæstv. forseti, óskað eftir því að sjútvrh., félmrh. og samgrh. væru hér viðstaddir. Ég ætlaði að koma lítillega inn á málaflokka sem undir þá falla.
    Í fyrsta lagi spyr ég hæstv. sjútvrh. út í orðalag á bls. 316, ítreka spurningu sem hefur komið fram: Hvaða áform eru þar á ferðinni um að breytra lögum um stjórn fiskveiða og hefja innheimtu á sérstöku gjaldi af afla báta sem stunda veiðar með línu og handfærum? Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að opna upp fiskveiðistjórnunarlögin nokkrum mánuðum eftir að þau voru hér afgreidd og innleiða nýja gjaldtöku á krókaleyfisbáta? Er það það sem stendur þarna? Hver er réttlætingin eða röksemdafærslan fyrir þeirri gjaldtöku? Hvers vegna var þetta þá ekki boðað eða gert í tengslum við gildistöku þessara frv. hér á sl. vetri?
    Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. komi inn í umræðuna síðar og svari til um þetta orðalag sem reyndar fleiri en ég hafa spurt um. Það er ekki hægt að afgreiða málin með hálfkveðnum vísum af þessu tagi. Hæstv. ráðherrar eiga auðvitað ekki að komast upp með að sleppa svo billega í gegnum þessa umræðu.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, í fjórða lagi koma inn á það sem reyndar hefur líka verið nefnt af fleirum en mér og það er hinn dæmalausi frágangur á fjármögnun húsaleigubótanna. Er það virkilega svo að það sé niðurstaða sem ekki verði um breytt að fjármögnun húsaleigubótanna verði að öllu leyti með samsvarandi niðurskurði í félagslega húsnæðiskerfinu?
    Nú liggur það fyrir að hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. félmrh., nú hv. þm. utan flokka, Jóhanna Sigurðardóttir, gerðu með sér tiltekið samkomulag um þetta efni. En ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. núv. félmrh.: Telur hann sig bundinn af þessu samkomulagi? Er það hluti af óumbreytanlegri stefnu ríkisstjórnarinnar að húsaleigubæturnar skuli allar fjármagnaðar með jafngildum niðurskurði í byggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis eða þá í tryggingakerfinu? Forsendur fjárlagafrv. eru þær að íbúðarbyggingar verði skornar niður um 100, úr 500 í 400, og einnig er þarna á ferðinni, eins og vitnað var til í umræðunni í gær, mjög sérkennilegt orðalag um að í tryggingakerfinu verði sparað eða skorið niður til móts við það sem húsaleigubætur kunna að koma viðskiptamönnum tryggingakerfisins til góða. Hver er þá uppskeran? Hver er þá uppskeran fyrir fólkið ef hver einasta króna sem fer í greiðslu húsaleigubóta verður skorin niður í velferðarkerfinu einhvers staðar annars staðar? Í félagslegu íbúarhúsnæði eða tryggingagreiðslum? Þá er uppskeran sú að menn sitja uppi með þetta meingallaða frv., þessa meingölluðu útfærslu á húsaleigubótunum, sem sveitarfélögin í landinu eru unnvörpum þessa dagana að afsegja og neita að framkvæma eins og til var stofnað. Það er kannski ætlunin að hafa lögin svo vitlaus og útfærsluna svo ómögulega að menn treysti sér ekki almennt til að taka upp þessar bætur.
    Ég held að hæstv. núv. félmrh. verði að gera grein fyrir hver er hans staða í þessu máli. Telur hann sig bundinn af samningi fyrrv. félmrh. og fjmrh. um þessa fjármögnun eða er þetta eitthvað sem kemur til álita að skoða hér í meðförum frv.?
    Auðvitað mætti, hæstv. forseti, segja margt fleira um þessa dæmalausu afgreiðslu á húsaleigubótunum í frv. og þennan sorglega samning sem hæstv. fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur því miður gert að því er virðist, um að fjármögnun húsaleigubótanna verði öll á þann veg að skorið verði niður á móti annars staðar í velferðarkerfinu.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, gera að umræðuefni útreiðina á Atvinnuleysistryggingasjóði og spyrja hæstv. félmrh. um það mál því þangað hafa þær bætur nú verið færðar. Það er alveg með endemum hvernig ríkisstjórnin hyggst ganga frá þeim málum. Þar er í fyrsta lagi einhliða fært á sveitarfélögin að greiða 600 millj. kr. í þann sjóð, þvert á gerðan samning um að slíkri þátttöku sveitarfélaganna í átaksverkefnunum lyki á þessu ári. Hvers konar framkoma er það gagnvart þessu sjálfstæða stjórnsýslustigi í landinu, sem hefur sér til varnar m.a. undirritaðan Evrópusáttmála um að löggjafarvaldinu beri að virða sjálfstæði sveitarstjórnarvaldsins, að ætla því svona einhliða að taka á sig þessar byrðar og rjúfa þannig samning og samkomulag sem við það hefur verið gert?
    En þetta er ekki allt því miður. Ef menn líta á bls. 323 í greinargerð frv. og einnig á bls. 361 og 362 þá er þar að finna satt best að segja alveg ótrúlegan frágang á fjármögnun Atvinnuleysistryggasjóðs á næsta ári. Ég fullyrði, hæstv. forseti: Það vantar meira en milljarð í fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. Það er gat í frv. upp á á annan milljarð króna eins og ríkisstjórnin er að reyna að rumpa því saman. Ég skal fara yfir hvernig það gat er tilkomið.
    Það er í fyrsta lagi vegna þess að þessar 600 millj. munu ekki skila sér. Sveitarfélögin munu að sjálfsögðu ekki endalaust láta fara þannig með sig að þegar þau hafa gert samning um að taka þátt í þessum útgjöldum í tiltekinn tíma enda ljúki þá þeirri þátttöku þá láta þau væntanlega ekki valta yfir sig í lokin með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar að gera. Þar eru 600 millj. kr.
    Í öðru lagi segir að ætlunin sé að spara 200 millj. í framkvæmd atvinnuleysistryggingabóta. Hvernig? Það er ekki hægt að spara þær nema skera bæturnar niður. Halda menn að þeir komist upp með það? Þar eru komnar 200 millj. í viðbót, 800 millj. ( Landbrh.: Það er ekki hægt að spara það sem ekkert er.)
    Í þriðja lagi, hæstv. samgrh., gerir frv. ráð fyrir því að það verði ekki greiddar eingreiðslur til atvinnulausra á næsta ári. Dettur mönnum í hug að þeir komist upp með það að svíkja þennan hluta landsmanna um þessar greiðslur? Ég held ekki. Þar eru 130 millj. í viðbót.
    Í fjórða lagi er sjóðnum ætlað að ganga á eigin fé um 200 millj. kr. Þarna vantar því í raun til að Atvinnuleysistryggingasjóður geti sinnt sínu verkefni á næsta ári 600 millj. plús 200 millj. plús 200 millj. plús 130 millj. eða 1.130 millj. kr. Hvað segir hæstv. fjmrh. um þetta? Þetta er augljóslega gat í frv. upp á talsvert á annan milljarð. Hef ég þó ekki nefnt það að þessi útgjaldaáætlun gerir ráð fyrir bjartsýnisspá, því miður, um atvinnuleysið. Það eru flestir á því að það stefni í að verða meira en forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir, m.a. vegna þess að í fjárlagafrv. sjálfu felst 25% niðurskurður á fjárfestingum hins opinbera. Stórkostlegur niðurskurður í samgöngumálum eins og ég kem að á eftir. Það mun auðvitað þýða minni umsvif, minni atvinnu og hættuna á auknum útgjöldum til greiðslu atvinnuleysisbóta. Ef það svo bætist við gat upp á 1.130 millj. sem fyrir er í frv. þá erum við að tala hér um tölur sem fara eitthvað talsvert á annan milljarð króna. Svona er nú þessi spilaborg hæstv. fjmrh., hæstv. félmrh., sem þarna er byggt á.
    Þetta er aldeilis fráleitur frágangur og það er alveg jafnfráleitt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að láta sér detta í hug að hann komist upp með það að borga engar eingreiðslur til lífeyrisbótaþega á næsta ári. Vegna þess að verði láglaunabæturnar og orlofsuppbótin og aðrar eingreiðslur ekki umsamdar á næsta ári þá munu þær koma inn í hækkun grunnkaupsins. Dettur mönnum það virkilega í hug að verkalýðshreyfingin muni semja um kauplækkun sem nemur eingreiðslunum á næsta ári? Það er það sem fjárlagafrv. gengur út frá. Þetta er svo fráleitur frágangur að engu tali tekur. Þarna er verið að ljúga saman frv. svo nemur útgjöldum upp á milljarða króna. Eingreiðslurnar samtals, bæði til lífeyrisbótaþega og atvinnulausra, eru væntanlega á stærðargráðunni 600--700 millj. kr. á þessu ári þannig að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, koma aðeins að samgöngumálum. Þar er því miður um að ræða þvílíka útreið á hæstv. samgrh. að ég held að það sé leitun að öðru eins. Samgöngumálin eru skorin svo harkalega niður að það þarf væntanlega að fara langt aftur í tímann til að finna einhvern samjöfnuð í þeim efnum. Nú er veislunni því miður lokið hjá hæstv. samgrh. sem hefur haldið uppi framkvæmdum af svipaðri stærðargráðu og hér hafa verið um nokkurt árabil með lántökum. Nú er veislunni lokið. Lántökunum hætt og komið að skuldadögunum. Og hver er útkoman hjá hæstv. samgrh.? Hún er sú að nýframkvæmdir á næsta ári munu samkvæmt fjárlagafrv. skerðast um talsvert á annan milljarð króna. Ef menn taka þær tölur sem eru í fjárlögum yfirstandandi árs þá eru þær hverjar? Þær eru 2.280 millj. til nýframkvæmda plús 900 millj. í sérstakt framkvæmdaátak. Þetta gera 3.180 millj. sem eru færðar undir liðinn Nýframkvæmdir í lögunum eins og þau gilda á þessu ári. En hvað stendur í fjárlagafrv.? 2.103 millj. Með öðrum orðum er niðurskurðurinn eins og hann birtist í liðnum Nýframkvæmdir 1.077 millj. kr. Eða réttur þriðjungur, 3 milljarðar 180 millj. fara í 2 milljarða 103 millj. kr. Til viðbótar er svo niðurskurður á liðum eins og Fjallvegir, Sýsluvegir og Þéttbýlisvegir og þegar það er lagt saman er heildarniðurskurðurinn til Nýframkvæmda orðinn 1.122 millj. kr. Þess mun svo sannarlega sjá stað þegar svo við bætist að skuldagreiðslurnar vegna lántöku undanfarinna ára fara að þyngjast á næstu árum.
    Þessi útreið á hæstv. samgrh. er alveg skelfileg og þó er það kannski hvað alvarlegast hvernig hæstv. samgrh. hefur látið fara með hina mörkuðu tekjustofna Vegagerðarinnar á þessu tímabili því ríkið hefur gengið á lagið og tekið stærri hlut þessara tekna til sín ár frá ári auk þess sem nýjar byrðar hafa verið færðar yfir á Vegagerðina, henni að óbættum tekjum. Þar á ég við um hálfs milljarðs króna útgjöld í ferjurekstur. Þetta er ömurleg útreið sem hæstv. samgrh. verður fyrir.
    Um hafnirnar er svipaða sögu að segja. Þar er til nýframkvæmda samkvæmt frv. 441 millj. en voru 728 millj. í fyrra. Það munar um minna, niðurskurð upp á 287 millj. Síðan er vísað í Hafnabótasjóð í texta fjárlagafrv. og sagt að sterk staða hans geti komið á móti. Vita menn ekki hvað þeir eru að tala um? Hafnabótasjóður getur ekki gengið inn í það að kosta almennar hafnarframkvæmdir, það er bull. Hvað á þetta að þýða? Eru menn að reyna að dulbúa og fela að þarna er á ferðinni grímulaus niðurskurður upp á hátt í 300 millj. króna.
    Þannig að þegar saman er lagður niðurskurðurinn til vegamála og hafnargerðar er hann kominn í 1,5 milljarða. Ég gratúrlera, hæstv. samgrh., með þessi ósköp eða hitt þó heldur. Ég held að aldrei hafi einn samgrh. í lýðveldissögunni verið rassskelltur jafnhressilega á kosningaþingi og hæstv. núv. samgrh. Halldór Blöndal. Það er með endemum þegar sagan verður skrifuð hvernig útreið hans er á þessum tíma.
    Nei, hæstv. forseti, þetta fjárlagafrv., þessi glæsti kastali hæstv. fjmrh. er hinn hin argasta spilaborg og í raun og veru fauk hún um koll í gærkvöldi þegar hann boðaði vaxtahækkunina vegna þess að það er tuggið aftur og aftur og aftur í frv. að forsenda efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sé --- hver? Vaxtalækkun. Það stendur sex sinnum í einni málsgrrein á bls. 214, að ég held, að forsenda þess og hins sé vaxtalækkun, lægri vextir. Lykilatriði að lækka vexti, örva efnahagsstarfsemina með því að lækka vexti. Það stendur hér og stendur þar. Svo kemur hæstv. fjmrh. og blæs sína eigin spilaborg um koll með því að boða vaxtahækkun í sjónvarpinu í gærkvöldi.