Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:02:33 (289)


[16:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sjö ár sat hv. þm. í ríkisstjórn og er nú alheilagur, nýkominn úr stjórninni og ber ekki ábyrgð á einum einasta hlut sem hefur gerst í Íslandssögunni á síðustu árum. Ég vil svara hv. þm. með því að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að ræða á morgun um lánsfjáraukalögin og við leggjum áherslu á að fá lögin í gegnum þingið. Ég hef talað við formann nefndarinnar sem ætlar að ræða málið í fyrramálið í nefndinni.

    Ég minni hv. þm. á það að þegar hann var félmrh. í maí þá gerði hann ráð fyrir að það þyrfti 1 milljarð til viðbótar í húsbréfakerfið í ár. Það vantar 3,7. Það var ekki brugðist nægilega fljótt við og hv. þm. getur ekki kennt öðrum um, það er ekki hægt. Það var ekki ætlunin þegar hæstv. fyrrv. félmrh. sat í ríkisstjórninni að gefa út bréf fyrr en eftir að þing kæmi saman. Það var talað um 1 milljarð en þeir urðu 3,7.
    Svo vil ég segja við hv. þm., ef það hefur farið fram hjá honum, að mælingar hafa farið fram á því hvort lækkun á virðisaukaskatti af matvælum hafi komið fram í matvælaverði og niðurstaðan er sú að það hafi gerst. Þannig gerðum við það í sameiningu ég og hv. þm. að reyna að auka kaupmátt þeirra lægst launuðu sem eru fyrir neðan skattleysismörkin. Hv. þm., eins og ríkisstjórnin öll, bar ábyrgð á því. Það er aðgerð sem hefur tekist jafnvel þótt hv. þm. hafi skipt um skoðun á ágæti ríkisstjórnarinnar eftir að hafa setið í henni í þrjú ár og fjögur ár á undan í ríkisstjórninni á undan þessari.