Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:38:54 (323)


[21:38]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessi síðustu orð hjá hv. þm. voru nú alveg sérlega ómerkileg. Því auðvitað veit og man hv. þm. að hann átti enga betri og öflugri stuðningsmenn í því í tíð fyrri ríkisstjórnar að taka upp húsaleigubætur en einmitt ráðherra og þingmenn Alþb. Það hefur allan tímann legið fyrir. Við höfum haft þetta mál á okkar stefnuskrá og barist fyrir því og það hefur strandað á öðrum en okkur. Og ég leyfi mér nú að minna hæstv. fyrrv. félmrh., núv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, á það að hún getur auðvitað ekki skotið sér undan ábyrgð á framkvæmd mála í einni ríkisstjórn með því að benda á einhverja sökudólga, einhverja vonda menn. Það leysir menn ekki undan sinni stjórnskipulegu ábyrgð þegar þeir fara með málaflokk í ráðuneyti. Það er ekki þannig.
    Í öðru lagi verð ég að segja að mér finnast þessi svör um að það hafi verið mikið byggt af félagslegum íbúðum og þess vegna sé það allt í lagi að skera þetta niður mjög skrýtin. Ég kannast ekki við annað en það að fjölmargar sveitarstjórnir hringinn í kringum landið séu sáróánægðar með það hversu mikið beiðnir þeirra um félagslegar íbúðir eru skornar niður ár eftir ár eftir ár. Ég hef fylgst grannt með þessu í mínu sveitarfélagi og ég veit að til að mynda búsetuhreyfingin hefur fengið harkalegan niðurskurð ár eftir ár á þeim íbúðum sem hún hefur sótt um. Ég er alveg sannfærður um að það væri búið að byggja hér mun meira af búseturéttaríbúðum ef þarna hefði verið meira fjármagn til ráðstöfunar. Sama á við um fleiri tegundir af félagslegu húsnæði. Það er að vísu rétt að eftir að hv. þm., þáv. hæstv. félmrh., hækkaði vextina á félagslegu íbúðarhúsnæði þá dró nokkuð úr eftirspurninni vegna þess að það fækkaði því fólki sem réð við þær byrðar sem því var samfara að búa í því húsnæði. En framkvæmdin á þessum húsaleigubótum, góðar og þarfar sem þær eru eða a.m.k. væru ef það væri staðið með skynsamlegum hætti að framkvæmd þeirra og útfærslu, þá er þetta mjög gölluð niðurstaða, hæstv. félmrh. Og það sem nú er að koma í ljós um það hvernig á að fjármagna þessi útgjöld gerir það auðvitað að verkum að það renna tvær grímur á ýmsa. Ekki bara sveitarfélögin sem unnvörpum eru að gefast upp á því að greiða bæturnar samkvæmt þessum meingölluðu lögum sem hér voru sett heldur ósköp einfaldlega þá sem eru að velta fyrir sér hvort þetta sé þá orðin skynsamleg ráðstöfun fjármuna þegar hún bitnar einfaldlega annars staðar á einhverjum í velferðarkerfinu.