Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 22:08:06 (333)


[22:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit að þetta eru nýjar kröfur frá ríkisvaldinu og þess vegna nefndi ég það í mínu andsvari að það væri kannski tímabært að líta á það hvort ekki ætti að breyta þessum kröfum. Það heyrir ekki undir landbrn., hygg ég, heldur undir umhvrh. nú. Ég ætla ekki heldur að deila við hv. þm. um það hvort rétturinn hlaðist upp einfaldlega vegna þess að ég viðurkenni að hv. þm. þekkir þessa löggjöf sjálfsagt miklu betur en ég. Ég vil aðeins segja að ég mun að sjálfsögðu skýra hæstv. landbrh. frá þeim umræðum sem hér hafa farið fram.