Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 22:19:49 (335)


[22:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til að stytta umræðuna þá freista ég þess að svara örlitlu hér í andsvari.
    Ég vil segja frá því að á útboðinu í dag voru tekin bréf fyrir u.þ.b. 300 millj. kr. á vöxtum sem eru 8,54 sem er mjög svipað og LIBOR-vextir á ECU-markaðnum þannig að boðin sem komu fram voru frá 8,40 upp í 9,40 upp á 1.200 millj. kr.
    Eins og hefur gerst ævinlega þegar við höfum byrjað með nýja flokka þá hafa vextir verið hærri fyrst og lækkað síðan og ég bind vonir við það að það geti enn fremur gerst á þessum nýja flokki. ( Gripið fram í: 8--9% raunvextir.) Það eru sömu vextir og eru greiddir LIBOR.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um bankana þá finnst mér full ástæða til þess að benda á að bankarnir eru enn þá með mun hærri vexti en verðbréfamarkaðurinn. Þrátt fyrir þetta eru bankarnir að bjóða innlán, a.m.k. einn ríkisbanki er að bjóða innlán frá lífeyrissjóðum upp á 5,3 meðan við erum að selja ríkisskuldabréf upp á 5. Þetta hefur leitt til þess, þessir háu vextir bankakerfisins að flestir bestu viðskiptamenn bankanna eru að fara út á verðbréfamarkaðinn. Sveitarfélögin, stór ríkisfyrirtæki, lánastofnanir og fleiri fara út á markaðinn og fá þar betri vaxtakjör en fást í bönkunum. Þetta veldur því að bankarnir sitja uppi með ekki eins góða viðskiptamenn og einangrast dálítið með sína háu vexti. Þessi þróun hlýtur að breytast.
    Loks vil ég benda á sem mér finnst vera of lítið rætt hér í umræðunni að á bls. 365 og blaðsíðunum þar á eftir í fjárlagafrv. er fjallað mjög ítarlega um lánamálin, mun ítarlegar í þessu frv. en í fyrri frumvörpum.