Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 10:55:25 (345)


[10:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kem nú fyrst og fremst til að taka undir að það er nauðsynlegt að leysa úr þessu máli sem upp er komið. Það verður náttúrlega að segja það eins og er að hér hafa gerst hlutir sem eru alls ekki nógu góðir og eru alls ekki í lagi. Þetta minnir okkur enn einu sinni á það að það eru alveg ótæk vinnubrögð að hér sé verið að troða í gegn viðamiklum frumvörpum af því tagi sem lyfjalögin eru við þær aðstæður sem voru á þinginu sl. vor. Það var bútað í sundur og búið til eitthvert samkomulag og menn voru með þetta á hlaupum í höndunum á síðustu sólarhringum þinghaldsins ef ég man rétt og útkoman er svo þessi sem raun ber vitni. Það er ekki nokkur leið að framkvæma lögin og menn verða að grípa til þess að setja bráðabirgðalög fáeinum vikum eða kannski einum eða tveimur mánuðum eftir að þingið fer heim til þess að bjarga því sem bjargað verður svona í horn. Svo kemur þar á ofan á daginn að í lögunum felst breyting sem alls ekki var ætlunin að gera, eða a.m.k. eru þau túlkuð þannig. Það verður svo til stórkostlegs trafala fyrir eðlilega dýralæknisþjónustu í landinu og þau viðskipti sem átt hafa sér stað á vegum dýralæknanna með lyf.
    Þetta er náttúrlega einfaldlega klúður á mannamáli sagt. Ég held að þar verði allir að líta í eigin barm, bæði ráðuneytið sem undirbjó lögin og kannski að einhverju leyti hv. þingnefnd. Ég hefði þess vegna talið að mörgu leyti eðlilegast að heilbr.- og trn. flytti frv. sem nefnd til að lagfæra þessa ágalla og gerði það fljótt vegna þess að auðvitað er ekki hægt að láta þetta standa svona.
    Ég ætla svo sem ekki að tjá mig um það hvernig útfærslan sem hér er á ferðinni er til þess fallin að leysa úr þessu. Ég hef skilið það svo að hér væri stuðst við upphaflegt orðalag sem ætlunin hafði verið að hafa í lögunum með hliðsjón af eldri ákvæðum sem gilt hafa um þetta. Ég veit ekki til annars en að það hafi verið vandræðalaust þannig að mönnum ætti svo sem ekki að vera skotaskuld úr því að hverfa aftur til þess forms sem var á þessu áður en þessi mislukkaða lagabreyting átti sér stað í fyrra. Það held ég að sé ætlun flm. En að sjálfsögðu getur hv. nefnd skoðað það hvort þarna ætti að miða við héraðsdýralæknana eða starfandi dýralækna, þ.e. þá sem hafa dýralækningar að fullu starfi og starfa sem slíkir.

Það skal ég ósagt látið. Mér finnst það koma alveg til álita að takmarka þetta þannig. En aðalatriðið er og það sem er mikilvægast að lyfjaviðskiptin geti gengið eðlilega fyrir sig í samskiptum dýralækna og bænda og það er sérstaklega mikilvægt í þeim byggðalögum þar sem alls engin önnur úrræði eru til lyfjaútvegunar. Það er náttúrlega svo fráleitt sem nokkuð getur verið að það geti þjónað nokkrum skynsamlegum tilgangi að koma í veg fyrir að dýralæknirinn, sem er á ferðinni um sitt hérað og á viðskipti við bændurna og á erindi við þá hvort sem er, geti jafnframt afgreitt lyfin. Ég veit ekki hvaða tilgangi menn ætla eiginlega að þjóna með því að brjóta upp það fyrirkomulag. Það er gjörsamlega út í hött og getur ekkert annað haft í för með sér en óhagræði, óþægindi og kostnað.
    Ég legg því til að hv. nefnd taki þetta snarlega til athugunar og annaðhvort lagfæri þetta frv. ef ástæða þykir til eða flytji bara nýtt frv. sem nefnd sem ekki þyrfti þá að ganga til nefndar og mætti þá taka á þeim atriðum ef mönnum sýnist svo sem hv. síðasti ræðumaður gerði hér að umtalsefni.
    Að lokum, hæstv. forseti, vil ég aftur koma að því sem ég nefndi í upphafi að þessi vinnubrögð verða að vera mönnum nokkur lærdómur. Þetta hefur gerst núna nokkur skipti, því miður, og mér finnst því miður hafa borið miklu meira á þessari hroðvirkni núna sl. tvö, þrjú ár af einhverjum ástæðum. Hvort þessir hlutir eru farnir að koma almennt miklu verr undirbúnir þegar frv. eru lögð fram eða vinnubrögðin á Alþingi og í nefndum eru ekki lengur sem skyldi skal ósagt látið en við verðum að horfast í augu við að það hafa endurtekið gerst svona hlutir, að hér hafa verið afgreidd svo meingölluð lög og lagabálkar frá þinginu að menn hafa orðið að bjarga þeim málum við með bráðabirgðalagasetningu á næstu mánuðum á eftir. Það er auðvitað alveg ótækt. Við getum ekki látið það ganga þannig trekk í trekk að þetta sé niðurstaðan. Það er þvílíkur áfellisdómur yfir vinnubrögðunum sem að baki lagasetningunni liggja að það er ekki nokkur kostur.
    Svo vil ég spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé farið að nálgast eða komið fram yfir þau tímamörk sem eru á staðfestingu bráðabirgðalaga varðandi framlagningu þeirra við upphaf þings. Ég held að hæstv. forseti þyrfti að athuga það svo ekki verði enn bitið höfuðið af skömminni með því að brotin verði lög með því að ekki komi fram frv. til staðfestingar bráðabirgðalögunum innan tilskilins frests.