Tekjuskattur og eignarskattur

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:31:33 (356)


[11:31]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni og 1. flm. þessa frv. fyrir að endurflytja það hér á þessu þingi. Ég held að hér sé hreyft mjög mikilvægu máli sem snertir í senn fjárhag ríkissjóðs, almenna skattheimtu í landinu og virðingu fyrir skattalögum og einnig hagsmuni alls almennings eins og fram kemur í hinni ágætu greinargerð sem frv. fylgir þar sem rakið er hversu viðhaldsþörf húsa er mikil hér á landi og mun fara vaxandi á komandi árum. Hér er verið að leitast við að móta reglu í lögum til þess að auðvelda mönnum að endurheimta eða fá skattafslátt út af framkvæmdum sem þeir standa fyrir við endurbætur og viðhald á eigin húsnæði. Ég vil af þessu tilefni aðeins minnast á þær reglur sem gilda nú í dag um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna framkvæmda- og viðhaldsverkefna við hús. Ég held að það væri mjög æskilegt að hv. efh.- og viðskn. liti á þær í meðferð sinni á þessu máli og skoðaði framkvæmd þeirra og hvernig þær hafi reynst og virkað í reynd. Ég tel t.d. að það sé hugsanlega þannig staðið að framkvæmd þeirra mála að of mikil skylda sé lögð á húseiganda og þann sem greiðir reikninga til iðnaðarmanna á að upplýsa hvað bak við reikningana standi og það kunni að spilla fyrir því að almenningur leggi það á sig ef þannig má að orði komast að eiga í samskiptum við skattyfirvöldin og ná fram þeim rétti sem honum er tryggður að þessu leyti. Það er t.d. gerður munur á endurgreiðslu á virðisaukaskatti eftir því hvort unnið er með vélum eða ekki og þeir sem standa í viðgerðum á húsnæði og ráða til þess t.d. múrara, kunna að þurfa að upplýsa skattyfirvöldin um það hvort múrarinn hafi unnið með háþrýstivél við að endurbæta húsið eða hvort hann hafi unnið með höndunum. Og ef þeir geta ekki gert greinarmun á því eða skýrt frá því hlutfalli við kostnað framkvæmdanna að því leyti sem unnið var með vélinni og það sem unnið var með höndunum þá kann að vera að þeir fái ekki að fá endurgreiðslu og lenda í vandræðum gagnvart skattyfirvöldunum. Einnig ef menn ráða menn til þess að brjóta niður einhvern hluta af mannvirkjum þá þurfa þeir að geta gert grein fyrir því hvað af vinnunni var unnið með vinnuvélum og hvað var unnið af mönnum sem báru grjót í fanginu t.d. og þurfa að upplýsa skattyfirvöldin um þetta og skila nákvæmum skýrslum til þess að endurgreiðslan komi til álita. Ég held að þarna sé um að ræða starfsreglur sem ekki séu til þess fallnar að menn sinni þessu eins og skyldi því að það hlýtur að vera akkur ríkisvaldsins að hafa þessar reglur einfaldar og skilvirkar þannig að almenningur sjái sér strax hag af því að starfa samkvæmt þeim, fá reikninga, senda þá og síðan að bíða endurgreiðslu en það verði ekki lagt síðan á viðkomandi húseiganda t.d. að afla frekari upplýsinga fyrir skattyfirvöldin hvernig var háttað starfsemi einstakra manna sem unnu að framkvæmdum í hans þágu. Ég held að það væri mjög gott fyrir nefndina að líta á þetta í heild, kanna hvernig framkvæmdinni er háttað og það væri þá e.t.v. unnt að einfalda þessar reglur og gera þær þar með skilvirkari.
    Það hefur komið fram í umræðum núna upp á síðkastið að það er síður en svo andstætt hagsmunum þeirra sem taka að sér að vinna þessi verk að þessar reglur séu einfaldar og skýrar, að reikningum sé skilað og öllu sé til skila haldið og ef ég man rétt þá hefur verið lagt af stað í sérstaka kynnisferð eða herferð til þess að hvetja fólk til þess að stunda þessi viðskipti með þeim hætti sem ber til þess að uppræta hugsanleg skattsvik eða svokallaða ,,svarta vinnu`` á þessu sviði. En ég held að leiðin til þess að gera það sé m.a. sú að reglurnar um endurgreiðslurnar séu skýrar og einfaldar og menn séu ekki settir í þá stöðu ef þeir senda reikninga til yfirvaldanna þar sem þeir upplýsa um þann kostnað sem þeir hafi greitt og æskja endurgreiðslu þá fái þeir bréf til baka þar sem þeir eru beðnir að upplýsa nánar um hvað þetta snúist og eigi að fara að hefja eins konar rannsóknarstörf í þágu skattyfirvaldanna. Og sjálfur tel ég að það eigi í því sambandi að huga sérstaklega að meðalhófsreglunni sem við settum í stjórnsýslulögunum og það séu ákveðin mörk í því til hvers er unnt að ætlast af hinum almenna borgara að upplýsa um slíka reikninga og hvernig þeim er skipt innbyrðis hjá verktaka sem hann á viðskipti við.
    Ég vildi nota þetta tækifæri um leið og ég lýsi stuðningi mínum við þetta ágæta mál sem hér hefur verið hreyft að hvetja til þess að þegar hv. efh.- og viðskn. tekur málið til skoðunar þá verði litið á þetta allt í þessu samhengi sem ég hef hér rakið.