Tekjuskattur og eignarskattur

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:38:01 (357)


[11:38]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta mál er hið þarfasta og ég tek raunar undir orð beggja ræðumanna hér á undan, flm. og hv. þm. Björns Bjarnasonar. Orð þeirra beggja eru sannarlega í fullu gildi. Ég tel samt að það væri hugsanlegt að þetta ætti að vera heldur hærri prósenta heldur en 10 til þess að ná þeim árangri sem áætlaður er eða sem miðað er að, a.m.k. 15%. Ég sé það ekki á þessari grein hvort hér er eingöngu átt við vinnukostnað við endurbæturnar eða hvort það er líka átt við efniskostnað. Ég tel að þessar prósentur ættu að eiga við hvort tveggja. Ég held að hingað til hafi eingöngu verið átt við vinnukostnað við endurgreiðslur á viðhaldskostnaði. Ég álít sem sagt að efniskostnaður ætti að vera í þessari endurgreiðslu.
    Það er vitað mál að upp úr síðasta stríði hófst geysileg byggingaralda hér á Íslandi og hús sem voru byggð frá 1940 og næstu árin eru náttúrlega orðin hálfrar aldar gömul og það gefur auga leið að viðhald á þessum húsum hlýtur að þurfa að vera þó nokkuð mikið og ég tala nú ekki um þeim húsum sem eldri eru. Það hefur verið lenska hér á Íslandi að byggja alltaf stanslaust nýtt og halda ekki við því gamla. Þetta er hlutur sem þarf að gerbreyta. Þetta er svona eins konar þjóðarvörn. Ef við viljum ekki láta allt drabbast niður þá verðum við að halda öllu því við sem við höfum byggt upp, hvort sem það er í steinsteypu eða tré eða í menningarlegu tilliti. Þess vegna held ég líka að frv. það sem hv. þm. Árni Árnason flutti áðan sé af sama toga spunnið. Það þarf að styrkja þjóðlífið á alla kanta, ekki bara einn heldur annan og þessi tvö frumvörp miða bæði að uppbyggingu og viðhaldi þessarar þjóðar.