Tekjuskattur og eignarskattur

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:41:11 (358)


[11:41]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær jákvæðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér í máli ræðumanna. Ég vil aðeins víkja að því sem hv. þm. Björn Bjarnason gat hér um þegar hann nefndi endurgreiðslur á virðisaukaskatti og mæltist til þess að efh.- og viðskn. endurskoðaði lög þar að lútandi með það fyrir augum að velta því fyrir sér hvort ekki mætti einfalda þessar lagareglur og skoða þá samhengi milli væntanlega lagatextans og reglugerða sem á honum væru byggðar. Ég styð þessa hugmynd. Mér finnst hún skynsamleg. Þarna gætir og hefur gætt mjög mikillar smásmygli. Reglurnar sem lúta að þessari endurgreiðslu eru mjög óaðgengilegar og það má kannski með nokkrum hætti segja að skattyfirvöld hafi orðið völd að því að draga úr mönnum kjarkinn að nýta þessar heimildir og þar með óbeint ýtt þeim út á svartan markað. Að svo miklu leyti sem lög kveða á um þessar flóknu reglur og þá smásmygli sem hv. þm. Björn Bjarnason gerði réttilega að umtalsefni áðan þá tel ég fulla ástæðu til þess að hv. efh.- og viðskn. taki þetta til athugunar og mundi fagna því ef það væri gert í sambandi við meðferð nefndarinnar á þessu þingmáli.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurðist fyrir um það hvort svo væri litið á að hér væri einungis átt við vinnuliði í efnisbótum eða vinnu- og efnisliði, heildarkostnað. Af hálfu flm. er rætt um heildarkostnað, en að öðrum kosti hefði það verið tekið sérstaklega fram ef einungis væri talað um vinnuliði.
    Hv. 18. þm. Reykv. sagði einnig að hann teldi að prósentan ætti að vera hærri en 10% og nefndi sérstaklega í því sambandi 15%. Ég hygg að það verði talsvert átak að koma frádráttarliðum þessum í gegnum þingið. Það gætir mikillar tregðu hjá ákveðnum aðilum að fjölga frádráttarliðum og það er yfirleitt rökstutt með því að ríkissjóður þurfi á öllum sínum tekjum að halda. Hér er málið rökstutt með því að ríkissjóður verði ekki fyrir tekjumissi af þessu. Ekki skal ég setja mig upp á móti því ef menn geta komist að samkomulagi um það að hækka prósentuna en ég hygg að það væri mjög mikils virði ef grundvallartriðin fengjust í gegn að þessi endurgreiðsla yrði viðurkennd í lögum og síðan mætti með reynslu af lögunum færa sönnur á það hvort þetta mál hefur þau áhrif á þennan markað sem því er ætlað að hafa og mætti þá prósentan ráðast af því, jafnvel hækka síðar meir enn meira ef í ljós kæmi að lögin hefðu þessi

tilætluðu áhrif.
    Ég vil að lokum taka það fram að ég er ánægður með undirtektir þingmanna um þetta mál og vona að það fái fljóta afgreiðslu í hv. efh.- og viðskn. Það hefur þegar verið sent til umsagnar og umsagnirnar liggja fyrir þannig að það á að vera hægt að vinna að þessu máli til þess að gera hratt.