Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:53:24 (361)


[11:53]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft allþörfu máli. Ég fagna því að það skuli vera fram komið. Það er ekki aðeins á Norðurlandi þar sem er mikið um fólk sem ætti að njóta þessa möguleika, það er auðvitað um allt land.
    Mér veldur í fyrsta lagi dálítilli umhugsun þetta rökstudda einstaklingsbundna mat og meðmæli frá vinnumiðlunarskrifstofu í heimasveit. Meðmælin geta vafist fyrir vinnumiðlunarskrifstofunni og verið getur að hún sé hreinlega ekki í stakk búin til að gera þetta mat og þessi meðmæli. Það yrðu að vera einhverjir aðrir aðilar sem ættu að gera að. Þetta hvarflar að mér við fyrsta yfirlestur þessa frv.
    Hv. frummælandi sagði að aldrei yrðu margir sem mundu njóta þessarar þjónustu en ég held að í rauninni séu geysilega margir sem þyrftu svona þjónustu. Í þessari grein er talað um að þeir eigi að geta bætt með varanlegu móti atvinnumöguleika sína með formlegri menntun. Ég veit ekki alveg hvað er átt við með formlegri menntun og að hverju er verið að stefna. Vitað er að fjöldinn allur af því fólki sem er atvinnulaust og ungt í dag vantar nauðsynlega meiri almenna menntun í undirstöðunámsgreinum til þess að eiga möguleika á vinnumarkaðinum. Er átt við þetta eða er átt við einhverja fagmenntun?
    Ég held að ef átt er við undirstöðumenntun gæti þetta komið mjög mörgum að gagni sem þurfa nauðsynlega á að halda en ef eingöngu er átt við faglega menntun þá yrðu það náttúrlega færri.
    Annað finnst mér sérkennilegt. Það er sagt að þeir geti notið bóta meðan þeir eru í námi í allt að átta mánuði. Nú er það svo að nám við formlegar menntastofnanir á Íslandi í einn vetur eru yfirleitt níu mánuðir. Á þá viðkomandi að vera orðinn bótalaus áður en hann fer í vorpróf? Ekki getur verið að hugsunin sé sú. Ég legg til að þessu verði breytt í níu mánuði eða alla vega rökstutt mjög af hverju er lagt til að þetta séu eingöngu átta mánuðir.
    Í heild er stefnan hin vænlegasta og þyrfti að gera ýmislegt fleira í þessum efnum en þetta er góð byrjun.