Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:12:34 (381)


[14:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég mun hér síðar í umræðunni svara því sem til mín hefur verið beint en það eru örfá atriði sem ég vil ræða nú þegar í andsvari.
    Í fyrsta lagi er ekki hægt að kenna ráðherrum um það að framlagning þessa frv. hefur dregist. Það þurfti að bíða eftir tillögum Húsnæðisstofnunar og hún afgreiddi málið endanlega sl. mánudag. Sl. mánudag kom endanlegt svar frá Húsnæðisstofnuninni. Þá var fundur í stjórninni sem endanlega kláraði málið og eftir það gat félmrh. gengið frá málinu.
    Í öðru lagi vil ég segja það að þegar rætt er um það að fjmrh. hafi ætíð viljað þrengja að kerfinu og þetta sagði nú hv. þm. þegar hann var félmrh., um fyrrv. fjmrh. líka, þá er það auðvitað vegna þess að það er ríkisábyrgð á þessum fjármunum og það verður að fylgja lánsfjárlögum á hverjum tíma og laga kerfið að lögunum. Það er það sem ábyrgir ráðherrar þurfa að gera, ábyrgir félagsmálaráðherrar. Lykillinn hins vegar að því að hafa kerfið rykkjalaust er auðvitað að hverfa frá ríkisábyrgðinni og ríkið getur tekið þátt í slíkum húsbréfabanka og sett hann upp og ríkisábyrgðargjaldið sem nú er sett á getur þá gengið til þess að taka á útlánunum.
    Þá kem ég að því að ríkisábyrgðargjaldið sem slíkt er til þess að mæta hugsanlegu útgjaldatapi, ekki bara vanskilum heldur hreinu tapi og nú er svo komið að endurskoðandi Húsnæðisstofnunar segir að á næsta ári geti tap húsbréfadeildarinnar, útlánatap hreint og beint orðið 0,25% og fer vaxandi. Þetta þarf hv. þm. að hafa í huga, ekki síst vegna þess að nú sýnist mér að hv. þm. ætli að koma hérna hvítþveginn með geislabaug eins og hann beri ekki ábyrgð á þessu kerfi sem hefur verið byggt upp á undanförnum árum.