Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:41:21 (561)

[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Eitthvað misskilur nú fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hlutverk fjmrh. og ráðherra yfirleitt, ef hann heldur að það sé miður að Íslendingar eða hvaða þjóð sem er greiði skuldir sínar erlendis. Það er auðvitað mjög til fyrirmyndar. Þetta mál snýst um það að við erum að bæta stöðu okkar erlendis. Hingað til lands hefur streymt í stórum stíl lánsfé. Það er verið að greiða það til baka og í vissum tilvikum er verið að setja tryggingar til að sú greiðsla geti verið í jafngildum gjaldmiðli. Ég vísa svona skottulækningum á bug, þegar menn tala eins og hv. þm. gerði. Það sem skiptir máli í þessu er að það var ráð fyrir því gert að um það bil 8 milljarðar færu úr landi á þessu ári til þessara nota. Síðan mettast það og það er ekki gert ráð fyrir því að um verulegt fjárstreymi verði úr landi eftir áramótin þrátt fyrir að við séum að opna markaðinn hér. ( ÓRG: Annað segir nú hæstv. viðskrh.) Það eru um 8 milljarðar sem gert var ráð fyrir að færu úr landi á þessu ári og það er ekkert óeðlilegt við það og engin ástæða fyrir hv. þm. að koma hér og reyna að gera úlfalda úr mýflugu.