Reglugerð um jöfnunargjöld á útfluttar landbúnaðarvörur

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 14:04:57 (579)

[14:04]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. landbrh. Fyrirspurnin varðar reglugerðarsetningu í framhaldi af lagasetningu í desember sl., þegar samþykkt voru ný búvörulög. Í framhaldi af því var vonast til og hefur landbrh. heimild til að setja reglugerð sem snertir jöfnunargjöld vegna útflutnings á unnum landbúnaðarvörum. Matvælaiðnaðurinn á að fá landbúnaðarvörur á lægsta ESB-verði og þetta er algjör forsenda fyrir því að um útflutning geti orðið að ræða á landbúnaðarvörum, en enn sem komið er hefur hæstv. landbrh. ekki komið frá sér þessari reglugerð. Því spyr ég: Hvað dvelur orminn langa?