Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:53:51 (622)

[11:53]
     Flm. (Eggert Haukdal) :

    Virðulegi forseti. Ég vil þakka undirtektir. Út af ábendingu hv. 4. þm. Norðurl. e. að frv. þyrfti að vera víðtækara þá mætti beina því til nefndarinnar að hún skoðaði þann þátt málsins en ég vil þó leggja mikla áherslu á að það má þá ekki verða til þess að stöðva þetta tiltekna mál. Það þarf tafarlausa afgreiðslu að koma þessu út úr heiminum og þó að menn vilji vísa til milliþinganefndar ýmsum málum varðandi þingfararkaup alþm. sem að sjálfsögðu getur komið til greina þá verði þetta tiltekna mál ekki stöðvað. Ég legg áherslu á það.
    En mér þótti hins vegar leitt að það skyldu verða nefnd í þessari umræðu nöfn ákveðinna manna og flokka. Það átti ekkert erindi inn í þessa umræðu. Umræðan undanfarna daga og vikur um margs konar sjálftöku ýmissa aðila einskorðast ekki við einn flokk, síður en svo. Þannig að á þessum hlutum þarf að taka en ekki með sérstöku tilliti til eins flokks. Það þarf að koma í veg fyrir sjálftöku í þjóðfélaginu hjá þeim sem hana stunda.