Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:44:24 (637)

[13:44]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Ég áttaði mig ekki að fullu á því hvað vakti fyrir málshefjanda í þessum umræðum og ræðu hans hér. Vakti það fyrir honum að matvælaverð á Íslandi væri ekki hátt í samanburði við matvælaverð í nágrannalöndunum? Ef mætti finna dæmi um hærra matvælaverð erlendis en hér á Íslandi þá mættu fjölmiðlarnir ekki skýra frá því? Var þetta inntakið og tilefni umræðunnar? Ég hélt að hv. þm. Agli Jónssyni væri fullkunnugt um það og betur kunnugt en mörgum öðrum að matvælaverð á Íslandi og sérstaklega á landsbyggðinni er allt of hátt. Það þarf ekki að fara til útlanda til þess að lifa við mikinn mun á vöruverði lífsnauðsynja. Það getum við fundið hér heima hjá okkur eftir því hvort við erum á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni.
    Það er eitt stærsta hagsmunamál að reyna að lækka verð á matvælum. Sá fréttaflutningur sem hér hefur verið gerður að umræðuefni þar sem okkur voru sýnd dæmi um hvað sambærilegar vörur kosta erlendis hlýtur að hvetja okkur til þess að standa betur að verki. Að koma hér og verja hátt matvælaverð á Íslandi finnst mér ekki samboðið hv. þm. Agli Jónssyni vegna þess að hann veit betur, að hér er um mikið vandamál að ræða og sérstaklega á landsbyggðinni.