Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:46:20 (638)

[13:46]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt áhyggjuefni hvað vöruverð á Íslandi er hátt og auðvitað er höfuðnauðsyn að reyna að tryggja sem lægst matvöruverð í landinu. Eins og fram kom greinilega í þessari sjónvarpsfrétt þá var þetta ekki ýkja vísindaleg könnun eins og best sést á því að þarna var miðað við eitt stykki kjúkling sem ekki getur talist mjög vísindalegt hugtak því þeir geta verið misjafnlega þungir. En ég tel að þessi samanburður hefði kannski verið svolítið eðlilegri og spaklegri ef þarna hefði verið meira miðað við íslenskar matarvenjur, t.d. hefði fiskurinn verið tekinn inn í samanburðinn og lambakjöt eða annað það sem heyrir meira til daglegra neysluvenja hér á landi.
    Mér fannst satt að segja merkilegast við þessa frétt hvað t.d. brauðið virtist vera miklu ódýrara þarna hjá þeim. Það virtist vera 64% dýrara hér á landi og mér fannst það líka uggvænlegt að sjá hvað innfluttu vörurnar voru miklu dýrari hér á landi, eplin 29% dýrari og sambærilegt kaffi virtist vera 19% dýrara hér á landi. Þetta fannst mér eiginlega það athyglisverðasta. Hitt að hvítt kjöt í Bandaríkjunum sé ódýrt vissum við fyrir löngu og vitum að það stafar af sérstökum ástæðum, það eru gífurlegar niðurgreiðslur á korni til innlendra framleiðenda þar og það er meginástæðan. Við vitum heldur auðvitað ekkert um það hvað innflutt kjöt mundi raunverulega kosta í verslunum hér á landi ef það væri flutt inn því þar kemur svo margt inn í myndina sem breytir dæminu. Ég held að við ættum umfram allt að reyna að varast það að kannanir af þessu tagi sem óneitanlega eru ekki sérlega vísindalegar séu notaðar til þess að fella dóma um íslenskan landbúnað.