Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:56:44 (643)

[13:56]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég var farin að sakna þess átakanlega í þessari umræðu í dag að heyra ekkert nefndan matarskattinn vegna þess að vissulega á umræða um hátt vöruverð á nauðþurftum alltaf fullan rétt á sér og jafnvel þótt hún sé ekki hávísindalega saman sett eða fram komin. En hins vegar finnst mér að í þeirri umræðu verði menn að taka tillit til þess að þrátt fyrir lækkun matarskatts hér á landi er hann enn með því hæsta sem gerist í OECD-löndunum þar sem víðast hvar er skattprósentan núll eða í hæsta lagi upp í 6--7% á því sem við venjulega köllum nauðþurftir eða almenn matvæli til neyslu. Mér finnst ekki hægt að ljúka þessari umræðu hér án þess að taka þetta með í reikninginn. Ég tek undir það að vissulega er hægt að kafa ofan í þær tölur sem fram eru settar, skoða það hvað veldur t.d. þegar litið er á landbúnaðarafurðir, hvort við erum að tala annars vegar um niðurgreiðslur og hins vegar um ýmis gjöld sem lögð eru á landbúnað hér á landi eins og t.d. kjarnfóðurgjald sem kemur misþungt niður á bændum. Þegar umræða á annað borð er komin af stað þá er það líka kjörið tækifæri til þess að fylgja eftir og kafa betur ofan í það og það er bæði hlutverk stjórnmálamanna og fjölmiðla að sjá til þess að það sé gert. Ég get því ekki annað en fagnað því að það sé verið að ræða vöruverð hér og hvernig það er saman sett, bæði hér og í fjölmiðlum, og ég held að við ættum fyrst og fremst að gleðjast yfir því en ekki hafa einhverja þagnarhulu yfir þessu. Þetta er snar þáttur í lífskjörum einkum þeirra sem lægst eru launaðir og getur jafnvel vegið alveg upp í þriðjung af því sem fólk þarf að ráðstafa launum sínum í þannig að hér er um stórmál að ræða.