Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 14:01:42 (645)

[14:01]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil segja það fyrst að ef markmið okkar Íslendinga væri að fá ódýrar matvörur inn til landsins en láta hitt ráðast hvað yrði um íslenskan landbúnað þá mætti nú kannski finna einhverjar aðrar leiðir til þess að ná ódýrum vörum inn í landið en ganga endilega í Evrópubandalagið. Ég held að samanburður t.d. við Bandaríkin sýni að Evrópubandalagið er ekki einhlítt í þeim efnum.
    Það er eitt atriði sem ég held að sé mjög gagnlegt að athuga í þessu sambandi og það er nautahakkið. Samkvæmt könnun ríkissjónvarpsins kostar kílóið 246 kr. í Bandaríkjunum en 783 kr. á Íslandi. Ég fór upp í Hagkaup og fann að vísu nautahakk þar sem lá í kringum 660 kr. ef ég man rétt. Það er athyglisvert vegna þess að samkvæmt upplýsingum OECD var verð á nautakjöti til bænda í Bandaríkjunum 73% af verði á nautakjöti til bænda hér á landi. Meðan íslenski bóndinn fékk með öðrum orðum 100 kr. fékk sá bandaríski 73 kr. þannig að við erum þarna að tala um óverulegan mun. Þegar þetta hins vegar hefur margfaldast í gegnum vinnsluna og verslunina og skattar og álögur komnar á, þá er ríflega þrefaldur munur. Þá er verð í Bandaríkjunum 246 kr. en 783 kr. á Íslandi. Það er auðvitað augljóst að meginskýringin liggur ekki í verði til bænda heldur á vegferð vörunnar frá bóndanum til neytandans þannig að ef menn vilji leita skýringar og mér skilst að hæstv. viðskrh. kunni þær þá getur hann kannski spurt iðnrh. að því hvernig á því megi standa hversu kjötvinnslan og annað sem að því lýtur, hversu mikið það tekur til sín og svo viðskrh. að því hversu mikið eðlilegt sé að verslunin taki til sín. Sumt í þessu er auðvitað augljóst, annað flóknara og greinilegt að skýringin felst ekki öll í verðinu til bóndans.