Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 14:04:36 (647)

[14:04]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Fyrst og fremst gerðist það í þessari umræðu að hv. þm. Egill Jónsson misskildi mína ræðu hér áðan og sneri út úr henni og ég vildi leiðrétta það og sýna fram á hvað ég var að fara. Það sem ég var að fara í ræðu minni var þetta, hæstv. forseti: Ég var að sýna fram á það hvað þessir reikningar geta oft og tíðum verið vitlausir sem verið er að gera. Hagfræðistofnun háskólans, sem er fyrst og fremst stofnun til þess að búa til hærri laun fyrir kennara, tekur að sér verkefni fyrir ríkisstjórnina að segja til um hvort við skulum fara í EB eða ekki. Hún kemst að þeirri niðurstöðu í sínum útreikningum að innganga í EB þýði að eggjaverð á Íslandi muni lækka um 40%, hæstv. forseti, sem þýðir aftur á móti það, segir háskólinn, að neysluaukning muni verða 3.385%.
    ( Forseti (SalÞ) : Þingmaðurinn er ekki að bera af sér sakir. Þetta er efnisleg umræða.)
    Ég er að útskýra málið af því að hv. þm. sneri út úr minni umræðu sem þýðir það að hér yrðu borðuð 400 kg af eggjum á mannsbarn í stað 10 kg. Svo fór ég rangt með þegar ég bar það á hv. þm. Egil Jónsson að hann þyrfti að spæna í sig 20 kg á dag. Þar átti ég við 20 egg sem er töluverður munur. En þetta sýnir fyrst og fremst það, hæstv. forseti, að bæði ríkisstjórnin og Alþingi verður að huga að því þegar hún biður um álit utan úr bæ að þar sé ekki hægt að panta skýrslur og það sé markvisst unnið en ekki með þessum hætti. ( EgJ: Ég verð að fá að bera af mér sakir.)