Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 20:33:46 (655)

[20:33]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hér er farin sú óvenjulega leið að kalla ráðherrana hvern og einn til ábyrgðar á þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur framfylgt þau þrjú og hálft ár sem hún hefur starfað og á þeim starfsháttum sem tíðkaðir hafa verið á ríkisstjórnarheimilinu. Ráðherrarnir eru hér með líka kallaðir til ábyrgðar á því að sitja sem fastast á ráðherrastólunum þegar ljóst má vera að ríkisstjórnin er óstarfhæf vegna sundurlyndis, óróa og átaka sem einkennt hafa samskipti ráðherra frá því að deilur hófust um landbúnaðarmál fyrir tæpum tveimur árum, að ekki sé minnst á þá harmsögu Alþfl. sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði og lamað hafa ríkisstjórnina. Enn fremur eru ráðherrarnir, allir sem einn, kallaðir til ábyrgðar fyrir að hafa slegið skjaldborg um ráðherra sem augljóslega hefur farið út fyrir velsæmismörk í embættisfærslu sinni og dregur á eftir sér slóða fjármálaóstjórnar sem vart á sér líka í íslenskri stjórnmálasögu. Þar með hefur ríkisstjórnin skorast undan því verki að bæta siðferði íslenskra stjórnmála. Hún lokar báðum augum og kastar öllum syndum bak við sig.
    Ég lýsi hér með yfir vantrausti á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og tel löngu tímabært að Alþingi ákveði í atkvæðagreiðslu að segja henni upp vistinni og sýni þar með í verki að það er Alþingi sem endanlega ber hina pólitísku ábyrgð á stjórnkerfinu og stjórnarháttum öllum.
    Vorið 1991 mynduðu Sjálfstfl. og Alþfl. ríkisstjórn sem ætlað var það hlutverk ,,að rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífinu sem skili sér í bættum lífskjörum``, eins og sagði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem samþykkt var 31. apríl 1991. Jafnframt sagði þar að ,,ríkisstjórnin vildi tryggja stöðugleika í efnahagslífinu og sáttargjörð um sanngjörn kjör, m.a. með aðgerðum í skatta- og félagsmálum``. Fljótlega varð ljóst að þessi nýja ríkisstjórn boðaði váleg tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Gatslitinn frjálshyggjufáni þeirra Reagans, Bush og Thatcher var dreginn að húni og tilkynnt að nú skyldi hafinn niðurskurður ríkisútgjalda, velferðarkerfið yrði stokkað upp og þeir látnir greiða þjónustugjöld sem nýttu sér þjónustuna. Nemendur ættu að borga skólagjöld, kjörum á námslánum yrði breytt til íþyngingar og einkavæðing ríkisfyrirtækja átti að færa ríkissjóði björg í bú. Hallarekstri ríkissjóðs skyldi komið upp í núllið á tveimur árum.
    Hver er árangurinn þegar horft er yfir þriggja og hálfs árs störf ráðherranna? Þar er skemmst frá að segja að markmið ríkisstjórnarinnar eru flest hver runnin út í sandinn, en þjóðin situr eftir í sárum. Hallareksturinn á ríkissjóði hefur aldrei verið meiri og nemur hátt í 30 milljörðum kr. það sem af er ráðherratíð Friðriks Sophussonar. Sköttum hefur verið velt af fyrirtækjum yfir á herðar almennings svo nemur milljörðum kr. Skattar á einstaklinga voru hækkaðir, persónuafsláttur lækkaður, barnabætur skornar niður og vaxtabætur skertar. Atvinnuleysi hefur haldið innreið sína og þjakar þúsundir einstaklinga. Skuldir heimilanna eru ógnvekjandi og vanskil í húsnæðiskerfinu valda þungum áhyggjum. Þúsundir fjölskyldna eiga ekki fyrir nauðþurftum og verða að leita á náðir félagsmálastofnana. Áttunda hver fjölskylda í Reykjavík þarfnast aðstoðar og útgjöld Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar hafa aukist um 100 millj. kr. það sem af er árinu umfram áætlanir. Tíunda hvern dag greiðir Reykjavíkurborg útför einstaklinga sem eiga ekki fyrir jarðarförinni sinni. Fátækt er orðin staðreynd í íslensku samfélagi og það eru konur og börn sem einkum eru fórnarlömb hennar. Efnahagsbatinn sem ríkisstjórnin boðar og hinn rómaði stöðugleiki hafa hvorki náð inn fyrir dyr heimilanna né sveitarfélaganna, þar er kreppan enn við völd. Í stað þess að stuðla að sáttargjörð um sanngjörn kjör, eins og ríkisstjórnin boðaði, hefur misskipting lífsins gæða vaxið, launabilið eykst og það jafnrétti í launamálum sem konur hafa barist fyrir um áratuga skeið er víðs fjarri. Þjónusta við almenning hefur versnað án þess að ríkið hafi náð neinum varanlegum árangri í sparnaði og niðurskurði. Skólakerfið er sársvelt og heyrast nú áhyggjuraddir frá nemendum og kennurum á háskólastigi sem óttast gengisfall íslenskrar menntunar. Sparnaðaráform í heilbrigðiskerfinu hafa flestöll mistekist og nú þarf að biðja um 800 millj. kr. aukafjárveitingu á árinu 1994 vegna þeirra mistaka. Einkavæðingin skilaði litlu sem engu og hefur að mestu verið hætt við hana, sem betur fer.
    Virðulegi forseti. Í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar höfum við séð furðuleg og sorgleg dæmi um það hvernig menn umgangast það vald sem þeim hefur verið falið. Stöðuveitingar hafa verið með eindæmum, en þar hafa ráðherrar Alþfl. verið fremstir í flokki í því að raða flokksmönnum sínum á ríkisjötuna. Hrafnsmálið er annað dæmi um valdníðslu sem furðu sætir og verður lengi í minnum haft. Virðingin fyrir löggjafarvaldinu er afar takmörkuð, lög eru keyrð í gegn og þeim breytt án þess að nokkur úttekt hafi farið fram á áhrifum breytinganna. Við höfum jafnvel upplifað það hér að ráðherrar komi nánast daglega með nýjar tillögur til sparnaðar eftir að sýnt hafi verið fram á að þær fyrri voru óframkvæmanlegar.
    Fyrir nokkrum dögum dró ég fram dæmi hér í þingsölum um vanvirðu við dómstóla landsins og þann rétt almennings að ná fram réttlæti fyrir dómstólum. Þar átti í hlut fjmrn., sem lét kröfur hlaða á sig dráttarvöxtum mánuðum saman þrátt fyrir dóm Hæstaréttar. Er nema von að við spyrjum á hvaða leið við erum? Er nema von að við lýsum yfir vantrausti á ráðherra sem þannig starfa?
    Virðulegi forseti. Ég gæti haldið áfram lengi enn að tíunda dæmi um stefnu, stjórnarhætti og vinnubrögð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ég gæti rifjað hér upp þær endalausu deilur sem ráðherrar hafa átt í sín á milli, einkum um landbúnaðarmál og Evrópusambandið, deilur sem vekja upp spurningar um færni þeirra til að gæta hagsmuna landsins út á við. En það er annað sem mér liggur þyngra á hjarta.
    Það þarf engum að blandast hugur um það að sá dropi sem fyllti mælinn og varð til þess að stjórnarandstaðan ákvað að bera fram vantraust á alla ráðherrana í ríkisstjórninni var sú ákvörðun hæstv. forsrh. að láta Alþfl. einan um að bera ábyrgð á embættisfærslum hæstv. félmrh., Guðmundar Árna Stefánssonar, og að forsrh. og allt hans ráðherralið ákvað að sitja þegjandi undir þeim kattarþvotti og mjóróma siðbótarboðskap sem formaður Alþfl. hafði upp á að bjóða. Ríkisendurskoðun var falið að skoða gerðir félmrh. og utanrrh. og ég efast ekki um að þeir fá vottorð um að hafa hvorki brotið lög né reglur. Málið snýst nefnilega ekki um það. Málið snýst um það hvernig menn fara með það vald sem þeim er falið og hvort þeir halda sig innan velsæmismarka. Ég ætla ekki að fella dóm yfir hæstv. félmrh., en ég leyni ekki þeirri skoðun minni að honum hafi orðið stórlega á og nefni þar sem dæmi að hann skuli hafa horft upp á það að aðstoðarmaður hans í fullu starfi sinni jafnframt tólf launuðum stjórnum, nefndum og ráðum. Það getur ekki nokkur maður sinnt slíkum störfum af neinu viti, enda er þetta auðvitað ekkert annað en spilling af versta tagi.
    Þá verður ekki hjá því komist að víkja að þeim fregnum sem borist hafa af fjármálum Hafnarfjarðarbæjar og eiga rætur að rekja til þess tíma er hæstv. félmrh. var bæjarstjóri þar. Þar hafa komið í ljós fjármálaóreiða og vinnubrögð sem eru með þeim hætti að menn eru orðlausir. Fjármunum bæjarins var ausið út, án eftirlits, í milljónatali, bókhald í molum og framkvæmdastjórinn hafði heimild til að ganga í sjóði bæjarins eftir óskilgreindum þörfum. Bæjaryfirvöld þess tíma bera auðvitað ábyrgð á því hvernig fór og þar þýðir ekki að vísa á embættismenn eins og ráðherrann gerði í Morgunblaðinu í gær. Ef embættismenn Hafnarfjarðarbæjar hafa skrifað upp á reikninga og úttektir svo nemur milljónum, án þess að hafa borið það undir yfirmann sinn, hljóta þeir að verða reknir þegar í stað fyrir embættisafglöp. En þó svo væri eru það hinir kjörnu fulltrúar sem endanlega bera ábyrgð og í hópi þeirra er hæstv. félmrh., sveitarstjórinn fyrrv., ráðherra sveitarstjórnarmála í landinu. Í hvaða lýðræðisríki sem er mundi ráðherra sem flæktur er í mál af þessu tagi, sekur eða saklaus, segja af sér þegar í stað. Það er ekki við hæfi að hæstv. félmrh., Guðmundur Árni Stefánsson, sitji áfram í embætti með allar þær ávirðingar á bakinu sem á hann hafa verið bornar. Ég skora á hann að sýna þann manndóm að segja af sér strax og verða þannig til að gera íslensk stjórnmál ábyrgari og lýðræðislegri.
    Við sem sitjum á hinu háa Alþingi berum pólitíska og siðferðilega ábyrgð og við eigum að sýna að við séum fólk til að axla hana. Það er ekki stórmannlegt, hvorki af Guðmundi Árna Stefánssyni, öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar né þingmönnum stjórnarflokkanna, að skýla sér á bak við frávísunartillögu hér í kvöld á þeim forsendum að málsmeðferð stjórnarandstöðunnar brjóti þinghefðir. Málið er miklu alvarlegra en svo og það kemur úr hörðustu átt þegar núverandi stjórnarflokkar bera fyrir sig þingræði og hefðir eftir allt það sem á undan er gengið á kjörtímabilinu.
    Virðulegi forseti. Í kvöld að lokinni þessari umræðu gefst okkur kostur á að sýna þjóðinni að við viljum taka á þeirri spillingu sem því miður þrífst innan stjórnkerfisins. Við höfum tækifæri til að snúa við blaðinu, lýsa vantrausti á ráðherrana, alla sem einn, losa okkur við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hefja þar með sókn til nýrra tíma sem vonandi færir okkur jöfnuð, réttlæti, kvenfrelsi og aukið lýðræði í samfélagi friðar og jafnvægis manns og náttúru. --- Góðar stundir.